Draumur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Draumur

Fyrsta ljóðlína:Á meðan sólin dvelur bak við dökkvann
bls.14
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Skáldsþankar
1.
Á meðan sólin dvelur bak við dökkvann
mig dreymir aðra veröld glaða og bjarta.
Þar enginn skuggi ógnar mínu hjarta,
því árdagssólin hrakti næturrökkvann
til ysta hafs. Mín leið er vori vafin,
er vetrarmyrkrið grúfir langt að baki,
og öll mín sorg og allur hjartans klaki
í innstu vitund minni liggja grafin.
2.
Og ég er eins og fangi, er frelsi hlýtur.
Ég fagna þessum bjarta, heiða degi
með sól og vor um allra átta vegi,
sem auga mitt í heitri gleði lítur.
Ég held af stað, því hér skal beðið eigi.
Minn heimur er svo dásamlega fagur.
– En þá rann aftur upp minn virki dagur
með aðeins nótt og haust á förnum vegi.


Athugagreinar

Við ljóðið samdi Eiríkur Grímsson lag, sem Húnakórinn flutti undir stjórn hans í messukaffi á Þingborg sunnudaginn 14. febrúar 2016, en þann níunda hefði Jónas orðið tíræður.
Sbr. stökuspjall 16/2 m/mynd úr Hraungerðiskirkju þar sem Húnakórinn tók þátt í guðsþjónustu ásamt heimakórnum. http://www.huni.is/index.php?cid=12589