Romsa | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Romsa

Fyrsta ljóðlína:Maður einn fór í væna vist
bls.I 41
Viðm.ártal:≈ 1800

Skýringar

Hannes Pétursson segir í bók sinni Misskipt er manna láni I:
„Það er óljóst hvenær Gísli Gíslason og Sigríður Gunnlaugsdóttir skildu að skiptum, eftir allt sem hafði á daga þeirra drifið. Og ef til vill voru þau síðan í kallfæri hvort við annað meðan bæði lifðu; heimildir segja fátt það eins og fleira.
Einhverju sinni þegar Gísli vék vistarferlum bjó Sigríður til romsu. Henni var þá gott í skapi, þótt ólíklegt sé að henni gengi tómt gaman til.“
Ljóðið er í fleiri útgáfum á vísnavefnum
Maður einn fór í væna vist,
varð því að setja upp kaup.
Það var nú, sem hann þurfti fyrst:
Þurrka, koppur og staup.
kjallari, bátur,* kjálkaskjól,
kviðreipi, ennisspöng;
svefnherbergi með setustól
og sængurklæði löng,
þjónustu stutta, þykka um lær
og þar með líka skyrtur tvær.
Af hoffmannsdropa hálfan spón,
hjartað því bilað var,
á hverjum morgni þessi þjón
þurfti til hressingar,
en hann kvaðst vera eins og ljón
ólmur til vinnunnar.


Athugagreinar

*Kjallari: Trékassi með hólfum, mismörgum eftir ástæðum; þar voru geymdar áfengisflöskur, ferstrendar pottflöskur, svonefndar kjallaraflöskur, ein í hverju hólfi. Slíkir kjallarar voru aðeins í eigu betri bænda. – bátur: sennilega hattur(báthattur) í líkingu við svonefndan Napoleonshatt; sbr. að orðið bátur hefur hefur í seinni tíð verið notað um húfur(t.d. hermannahúfur) ílangar og skyggnislausar.