60 ára minni Kvennaskóla Húnvetninga | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

60 ára minni Kvennaskóla Húnvetninga

Fyrsta ljóðlína:Himinn, sign vort hérað prúða,
bls.5-7
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Himinn, sign vort hérað prúða,
Húnaþing í sumarskrúða!
Nú á húnvetnsk mey og móðir
minningar- og heiðursdag.
Menntastofnun merka reistu
menn, sem fólksins giftu treystu.
Mætar konur traustum tökum
tryggðu, hlúðu að þjóðarhag.
2.
Sjáið, ungu Íslands dætur,
ágæt jurt á dýpstar rætur.
Mun þó andans eðli og þroski
aldri háð og tímalengd?
Unga mey í æskublóma,
á ei rödd þín nú að hljóma,
sál þín fagna í hörpuhreimnum,
hjarta skólans vígð og tengd.
3.
Sjáðu! Hljóð frá heiðabænum
horfir fram með hvömmum grænum
sveitamær með sól í augum,
sumarblik á vöngum skín.
Óljós, feimin útþrá seiddi,
inn á nýjar brautir leiddi,
augu hennar hingað mændu.
Hógvær stóð þar – amma þín.
4.
Heimsætan hýra, djarfa
hefir ærið nóg að starfa,
býr sig þó með hraða að heiman
hérna byrjar námsár sín.
Hér skal mennta önd og anda,
hún vill jafnt að vígi standa
bróður eða unnustanum.
Einmitt slík var – móðir þín.
5.
Unga mey í æskublóma,
einmitt hér skal rödd þín hljóma,
arfleifð þína að þakka, meta
þennan stofn með krónu og rót.
Margt sem ömmu eða móður
innst í hug var falinn gróður,
stendur nú með blöð og blóma,
breiðir greinar móti sól.
10.
Himinn, sign vort hérað prúða,
Húnaþing í sumarskrúða!
Tak þú, húnvetnsk mey og móðir,
minningar og sæmd í arf!
Skólans heill og veg skal vanda,
vígi, sem á lengi að standa.
Þökkum öllum, lífs og liðnum,
langt og trútt og göfugt starf.