Sigling | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Sigling

Fyrsta ljóðlína:Sólin skein á seglin þönd
bls.160-161
Viðm.ártal:≈ 1900
Sólin skein á seglin þönd.
– Sigrinum fáir hrósa. –
Dró ég knörr af dimmri strönd,
í draumi sá ég undralönd.
Í djúpinu glitrar gullið rauða og ljósa.

Suðar aldan sölt og köld.
– Sigrinum fáir hrósa. –
Sá ég bjartan sólarskjöld
síga bak við þokutjöld.
Í djúpinu glitrar gullið rauða og ljósa.

Sigli ég áfram, sigli ég enn.
– Sigrinum fáir hrósa. –
Til eru höppin tvenn og þrenn,
taka mun ég lending senn.
Í djúpinu glitrar gullið rauða og ljósa.

Seiðir moldin svört og köld.
– Sigrinum allir hrósa. –
Bak við hennar hlífiskjöld
hníga sá ég öld af öld.
Í moldinni glitrar gullið rauða og ljósa.