Afmæliskveðja til Snorra Sigfússonar | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Afmæliskveðja til Snorra Sigfússonar

Fyrsta ljóðlína:Lúta nú í lotning
bls.7. okt. 1964 228. tbl. bls. 8
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1964

Skýringar

Kvæðið ort í tilefni af áttræðisafmæli Snorra Sigfússonar, með kveðjum frá sveitungum hans.
Lúta nú í lotning
ljúfar dísir
svipúðgum
Svarfdælingi,
flytja fegurstu
fyrirbænir
og biðja blessunar
barnavini.

Brosbjartur
og brátiginn
í heiðurshásæti
á heilladegi
situr nú sannur
sæmdarmaður,
aldinn að árum
en ungur þó.

Ungur ég segi,
því andinn framsækni
vakir víðskyggn enn
og velsjáandi
allt er til úrbóta
og auðnu stefnir
lýð og landi
og líf bætir.

Langt er nú síðan
þú lékst þér frændi
á gömlu Grund
við „gilið“ djúpa,
þar sem „lækurinn“
landi spillti
garða braut
og grónar lendur.

Sýndir þú Snorri
snemma að værir
fallinn til forustu
framar öðrum.
Voru framsýni
og fyrirhyggja,
orð og athafnir
einkennandi.

Á Tjörn og Völlum,
með traustum hjúum,
einnig á háum
Hólastóli
vel og vandlega
fyrir verkum sagðir,
réttsýnn, röggsamur
í ráðsmannsstöðu.

Óx þér árla
útþrá í brjóst,
ötull, áræðinn
og ýturhygginn
vildir af víðri
veröld líta
annað og meira
en allur fjöldinn.

Hleyptir heimdraga
frá hrímlandsströnd
í söngvinahópi
yfir sollinn mar.
Fögur ljóð og lög
léku á tungu.
Gerðir frægðarför
til frænda vorra.

Settist síðar
með sömu frændum
skarpur á skólabekk,
skjótur til náms.
Vizku og vísdóm
í veganesti
fluttir heim aftur
til fósturjarðar.

Byrjaðir að bragði
börn og ungmenni
upp að fræða
til orðs og gerða.
Þegna þjóðar
til þroska að leiða
gerðir að alhliða
ævistarfi.

Fjölvís þér forlög
fyrr á ævi
vísuðu veg
til Vestfjarða.
Varst ótrauður
um árabil
fræðari og forsjá
Flateyringa.

Réðstu í móti
og reifst niður
heimsku, fordóma
og hindurvitni.
Hefur ætíð
og ævinlega
miðlað málum
til mannheilla.

Mannræktarmaður
menntaslyngur,
þín fræðslustörf
frjó og göfug
í nútíð og framtíð
með niðjum þjóðar
um Ísland endilangt
ávöxt bera.

Þakkar þjóðin öll
á þessum degi
skýrum, skeleggum
skólamanni.
sendir þér Snorri
sínar bestu
ástarkveðjur
þín ættarbyggð.

Er nú á nírætt djúp
nökkva þínum
gunnreifur hrindir,
hin góðu regin
standi við stjórnvöl
og stýri fleyi
heilu í höfn
til hinztu varar.

Veit ég, þér veita
hin vísu goð:
að andskyggn áfram
í öðru lífi
sæll að eilífu
sitja megir
við Mímisbrunn
menntafræða.