Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Sjómenn

Fyrsta ljóðlína:Þegar hafið liggur breitt og blátt
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1941

Skýringar

Flutt á Dalvík á sjómannadaginn 8. júní 1941
Þegar hafið liggur breitt og blátt
í blæjalogni heita sumardaga
og kyssir strönd í kyrrð og friði og sátt
í kringum dranga, víkur, nes og skaga.
Það heillar hugi til sín þá,
sem heima nýja og ævintýri þrá.

En svipmynd aðra sýnir hafið oft,
er svarrar brim við kletta, tanga og sanda
og þungar hrannir lyftast hátt á loft
og lýðum búa neyð og dauðans vanda
og veika gnoð í grimmdaræði slá
og grenja hátt við Múla- og Gjögurtá.

En sjómenn hraustir hræðast ekki slíkt,
með hetjuþori skyldustörfin vinna,
því víkingseðlið er í skapi ríkt
og æðrulaust þeir helgri köllun sinna:
að færa að landi björg í þjóðarbú,
þeir betur aldrei sýndu það en nú.

Heill ykkur, sjómenn, hafsins garpaval!
Hróður þið eflið vorrar smáu þjóðar.
Orðstírinn sanni aldrei fyrnast skal,
eldurinn brenna heitrar framaglóðar
á meðan aldan kyssir klakablá
Hvanndalabjarg og Múla- og Gjögurtá.