Risinn | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Risinn

Fyrsta ljóðlína:Hefurðu staðið á fjallsins brún
Viðm.ártal:≈ 1975
Hefurðu staðið á fjallsins brún
og fundið funa frelsisins,
bylgjast um æðar þínar allar.

Eins og fuglinn fleygi,
sem í fjaðraham sínum flýgur
finnst þér þú eiga allan heim.

Litla bláa blómið, sem þú sást
í hlíðinni
varð svo blátt.

Og steinn sem þú sást
fastur í urð
tók á sig mynd lands þíns.

Þú varðst hluti af landinu
og heyrðir vættir fjallanna
hvísla í eyru þér.

Áin sem liðaðist mjúklega
niður dalinn
sendi þér bergmál liðinna tíma.

Og þú teigaðir ilm jarðar
úr grængulu lynginu.

Þegar þú komst niður
að rótum fjallsins
sástu að fjallið var risi
og þú varðs svo ógnar smár.

Hvernig tókst þér að sigra risann
sem býr í þínu eigin brjósti,
en er þó svo fjarlægur.