Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Í minningu Gunnlaugs Friðleifssonar

Fyrsta ljóðlína:Ég sá hann í kirkjunni sitja hljóðan
Heimild:Saga Dalvíkur bls.353 bindi I
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1928

Skýringar

Jón Björnsson mælti fyrir munn sveitunga sinna, er hann kvað svo um Gunnlaug látinn.
Gunnlaugur á Karlsá var hár maður vexti,þrekinn, með mikið fannhvítt skegg, það sópaði að honum. Varð maður gamall og hélt vel heilsu sinni og stundaði róðra til hárrar elli, ásamt tveimur hásetum allir komnir yfir áttrætt. Voru þeir félagar því kallaðir unglingarnir! Þeir réru til fiskjar og öfluðu vel og enn fór Gunnlaugur með byssu og skaut seli og hnísur.
Ég sá hann í kirkjunni sitja hljóðan
með silfrað skeggið og hár,
breiðan um herðar, bjartan á svipinn,
á bránum glitruðu tár.
Hann hlýddi sem barn á sálmasönginn
og sál hans var ung og hlý.
Karlmennið, risinn rammi að afli,
reis upp til guðs - var barn á ný.

Ég sá hann í brimróti leggja að landi,
er löðrið ólgaði og svall.
Hann stóð við skutinn og haggaðist hvergi,
er hrönnin á axlir hans skall.
Hann leit með ró á bylgjubjörgin,
sem brotnandi steyptust að.
Svo setti hann bak undir súðir á fleyi
og svipti því upp - á tryggan stað.

Ég sá hann við bikarinn góðan og glaðan,
með gáskann í orði og brá.
Þá sló um hann birtu af innri eldi
og ungri og djarfri þrá.
Að þrýsta veröld að breiðu brjósti,
að blessa hvern mann, er hann sá
að hlekkja sorgina, sigra bölið
að sækja til ljóssins - myrkri frá.

Ég sá hann í smiðjunni. Eldrautt úr afli
ísarnið þungt hann dró.
Sindruðu neistar, söng í steðja,
er sjóðandi járnið hann sló.
Hann lúði það daglangt, sem leikur það væri,
það léku um hann glampar og skin.
Hann stóð þar sem ímynd íslenzkrar hreysti
með eldinn að þjóni - málminn að vin.

Til hinzta dagsins hann sótti sæinn,
sýslaði um lóðir og far,
lyfti tökum, sem tveir fengu ei haggað,
tegldi, hamraði og bar.
Karlmennskusvipurinn hvarf honum eigi,
kempan var aflviðatraust.
Nær áttræður kappinn árar lagði
í ævifleyið - og setti í naust.