Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Gamli Bragginn mælir

Fyrsta ljóðlína:Skiptir nú sköpum
Heimild:Krosshólshlátur bls.108-109
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1980

Skýringar

Er nýr gangnaskáli var vígður í Sveinsstaðaafrétt í september 1980 var þó gamli skálinn enn Haraldi mjög hugleikinn. Hann er gamall vinur, lifandi og hugsandi öldungur og skáldið gat auðveldlega sett sig í hans spor:
Skiptir nú sköpum
á skari blaktir
lítið log
á lífsins tíru.
Mæli ég mæddur
og málvana
tregatorrek
af tungu fram.

Sé ég sjóndapur:
senn munu ganga
yfir endalok
ævi minnar.
Eru innviðir
allir saman
feysknir, fúnir
að falli komnir.

Áður var annað
er ýta hýsti
glaða, gunnreifa
gangnasveina.
Haldin voru
á hausti hverju
vinamót
innan veggja minna.

Góðar voru þær
gleðistundir.
Ennþá hljóma
í eyrum mínum
klöpp, köll
og kindajarmur,
hnegg, hundgá
og hófaspark.

Fallvalt er allt.
Á feigs götu
allt mitt ráð
að einu stefnir.
Bændur og búalið
bráðum standa
yfir ryðbrunnum
rústum mínum.

Eigi skal iðrast.
Þeim Urðardómi
bifar enginn.
Blessa ég yfir
Vesturárdal
veðursælum,
afrétt alla
og Austurtungur.