Jóhannes úr Kötlum | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Jóhannes úr Kötlum

Fyrsta ljóðlína:Ljúflingur þeirra
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1972
Ljúflingur þeirra,
er ljóð meta.
Samviska viðkvæm
samtíðarinnar.
Lék á strengi
um langa ævi.
Hugþekkur
og hlýr í senn.

Brýndi okkur,
þá blóðhundar geltu,
einhuga að standa
gegn ofbeldinu.
Merki bar
mannhelginnar,
friðar og frelsis
og fór mikinn.

Þegna trausta
þagnarinnar
á minnti
með yl sálar.
Mannlegt böl
bæta vildi
valmennið prúða
vestan úr Dölum.

Sóleyjar var
sonur góður.
Henni líka
af hjarta unni.
Veg síns lands
vildi bestan.
Heitt bað
fyrir heill þjóðar.

Hann er nú
héðan farinn.
Minning varir
um mann og skáldið.
Björt hún er.
En björkin hnípir
og álftirnar kvaka
af angri og trega.