Uppi á Ásfjalli | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Uppi á Ásfjalli

Fyrsta ljóðlína:Upp á Ásfjall enn mín liggur leið
bls.Bls. 10 6. júní 2002
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:2002
Flokkur:Náttúruljóð

Skýringar

Flutt efst á bæjarfjalli Hafnarfjarðar, Ásfjalli á 90 ára afmælisdegi sínum.
Dóttursonur höfundar, ungur maður gekk með honum á fjallið og var eini áheyrandi þar.
Upp á Ásfjall enn liggur leið,
að líta í skuggsjá gamla og nýja daga.
Oft er sólin silfurbjört og heið.
Nú sígur að viði ára minna saga.
Mér þakka ber víst það sem liðið er.
Þitt líf er draumur, sem kemur og fer.

Hér áður kom ég léttari í lund
og lífið virtist brosa gegn um tárin.
Nú er orðið hljóðara um stað og stund.
Þau stilla fjörið 90 árin.
Styrkurinn er þorrinn því er verr.
Þrjóskan ein hún gaf mér tóm að vera hér.

En útsýnið er hérna einkar fagurglæst
og undur gaman slíkt að fá að líta.
Fjallasveigur furðu vekur stærst
og fagurlega ber hann hettu hvíta.
Hafið blátt það heillar enn sem fyrr
og hagsæld veitir inn um margar dyr.

Af Ásfjallinu okkur gefur sýn
er ár og daga vaka mun í sinni.
Í vestri Snæfellsjökull virðulega skín
og vekur fögnuð ríkan, líka í framtíðinni.
Þetta fagra land, sem gæfan okkur gaf,
er gimsteinn kostamikill við nyrsta haf.


Athugagreinar

Lokaorð skáldsins „ Á þessum stað og á þessari stundu bið ég góða forsjón að farsæla og blessa þetta land og þá, sem það byggja um alla framtíð. “ svo mælti Eiríkur Pálsson frá Ölduhrygg er hann flutti ljóðið á fundi hjá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar!