Í minningu verkamanns | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Í minningu verkamanns

Fyrsta ljóðlína:Hann fæddist vestur á fjörðum
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1966

Skýringar

Til minningar um Hermann Wendel í Sunnudagsblaði Tímans 23.jan. 1966
Hann fæddist vestur á fjörðum,
en fluttist suður á nes,
lítill, lokkprúður drengur,
er löngum stóð til hlés.
Hann óskipta athygli vakti
með alvöru sinni og ró.
Þrælaði myrkranna á milli,
en margoft við þröngan kost bjó.

Hann las og lífsspeki þráði
og leitaði víða um svör,
studdi og einhuga efldi
öreigans sigurför,
vildi að réttlæti ríkti,
sem rétti þeim veikari hönd
og að friðarins fagnaðarefni
færi um gjörvöll lönd.

Með haka eða reku í hendi
hann hafði að starfa nóg,
gróf af gætni og festu
með góðvild og hvergi af sér dró.
Húsbændum sínum var hollur
og hafði á því sérstakt lag
að vera sjálfstæður, sannur.
- Var sómakær hvern einn dag.

Hann ýmsum aðstoð veitti
þó efnin væru smá
og greiddi öðrum götu
góðu marki að ná.
Hann fann, að lögmál lífsins
og ljúfasta boðorð þess er:
Að vera þeim veiku og smáðu
vörn, meðan dvalið er hér.

En dag einn var þrekið þrotið
og þungan sjúkdóm hann bar.
Hann háði við hulda meinsemd
sitt helstríð, en ókvíðinn var.
Nú er hann horfinn héðan,
hlotið eilífan frið.
Gamall og gráhærður þulur
sitt gullna opnaði hlið.

Stjarna af himni háum
hrapaði af sinni braut.
Látlaus,  ljúfur drengur
leystist frá mannlífsins þraut.
Við kveðjum með klökkum huga
kyrrlátan, hógværan mann,
sem ekkert um eigin hag spurði,
en öðrum til heilla vann.