Hugsað heim | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Hugsað heim

Fyrsta ljóðlína:Sé ég nú fannskreyttu fjöllin þín
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Tregaljóð
Sé ég nú fannskreyttu fjöllin þín,
fallega æskusveitin mín.
Blessuð sé byggðin kæra.
Minn hugur oft yfir fjöllin fer
á fornum slóðum að ylja sér
og þar öllu þakkir að færa.

Hlýtt mig kalla oft heim til sín,
himnesku sólbjörtu kvöldin þín,
ég hugsa oft hljóð um þær myndir.
Um hlíð með lynggróna laut og hól,
leiftrandi skinið við norðurpól
og bergvatnsins blátæru lindir.

Þar fetaði ég mín fyrstu spor,
þá fegurst mér brosti lífsins vor,
létt var og ljúft að dreyma.
En foreldrar studdu mig sérhvert sinn
ef sáu þeir ógreiðan veginn minn.
- Já, best var og bjartast heima.

Hvar  eigum við fegurri friðarstund
og fagnaðarríkari endurfund
er landið allt ljóma vefur.
Þökk sé þér,  alvalds og almættis ráð,
sem okkur miðlar, af kærleik og náð,
öllu sem gleðina gefur.