Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Björn Jónsson 1903-1977

Fyrsta ljóðlína:Skarð er fyrir skildi
Heimild:Dagur 1977
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:8. mars 1977

Skýringar

Erfiljóð um Björn Jónsson fyrrum bónda í Ölduhrygg í Svarfaðardal, fæddur 7. des. 1903
dáinn 8. mars 1977
Skarð er fyrir skildi
skjól er fokið í,
upp á hugans himinn
hrannast tregaský;
er nú gengin undir
ævidagasól
blíð og birtufögur
Björns í Víkurhól.

Þar féll grein af góðum
gömlum ættarhlyn.
Stóð að gegnum guma
göfugt bændakyn.
Fram í dalnum fagra
fæddur hann og var.
Tryggðir megintraustar
til hans ávallt bar.

Þér í blóð var borin
bóndans starfa til
þráin frá því fyrsta,
-féll hún þér í vil.
Þar fékk hönd og hyggja
hugljúft verka svið.
Hesta, kýr og kindur
knýttir tryggðir við.

Yndisstundir áttir
oft í sveitaró.
Gaf af gnægðum sínum
gróðurmoldin frjó.
Blær er grasið bylgjar,
blessuð sólin skín:
búandmanni betri
birtist ekki sýn.

Einn var allra bestur
eðliskostur þinn:
lundin ljúfa, glaða,
létti hláturinn.
Ama burtu báru
bros þín mild og hlý.
Eyddist þögn og þykkja
þinni návist í.

Þú af þjóð ert kvaddur
þökk og virðing með
fyrir kynning kæra,
klökkvi fer um geð.
Um þig aldrei firnist
endurminning trygg
meðan glóa og glitra
grös um Ölduhrygg.

Er nú frjáls og ungur
andi svifinn þinn
móti sól og sumri
sæll í himininn.
Þar er gott að gista
Guðs hjá veldisstól.
Aldrei gengur undir
eilíf náðarsól.