Samgangur | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Samgangur

Fyrsta ljóðlína:Kapla ráku konur tvær
Viðm.ártal:≈ 1970–2000
Tímasetning:1985
Kapla ráku konur tvær
kræfar eftir Þjórsárbökkum.
Þakti ána ísinn glær,
yfir landi hjarn og snær.
Kuldinn bíta tók í tær,
tætti fjúk úr skýjaklökkum.
Kapla ráku konur tvær
kræfar eftir Þjórsárbökkum


Hinu megin maður fór,
-manninn konur báðar sáu,
herðabreiður, miðjumjór,
mátulega niðurstór.
Ráku þær upp kall í kór,
kapphlaup varð á svelli bláu.
Hinu megin maður fór,
-manninn konur báðar sáu.

Ekki var hjá vökum sneitt,
var í sigti tjörgulundur,
og frá stefnu ekki breytt,
eins og væri kólfum þeytt.
Svo varð þeim í hamsi heitt
að harðir skaflar runnu sundur.
Ekki var hjá vökum sneitt,
var í sigti tjörgulundur.

Maður þessi strax í stað
staðar nam því hita kenndi
Fara um sitt fíkjublað.
Frómur sagði mér og kvað:
,,Það var eins og þegar að
Þráni Héðinn forðum renndi.“
Maður þessi strax í stað
staðar nam því hita kenndi.

Hefur síðan þar og þá
Þjórsá runnið langtum glaðar.
Þessi gamla góða á
greina mun samt engu frá.
Hlátur byrgja bakkans strá
Bæld og troðin einhversstaðar.
Hefur síðan þar og þá
Þjórsá runnið langtum glaðar.