Langur ertu vetur minn | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Langur ertu vetur minn

Fyrsta ljóðlína:Er fimbulkaldur vetur teiknar frostrósir á glugga
Viðm.ártal:≈ 1950
Er fimbulkaldur vetur teiknar frostrósir á glugga
felast mæddar sálir inni í heljarköldum skugga
og hrökkva við er byljagusur þylja söng á þaki,
þykist geta sigrað lífið, hundrað daga klaki.

Langur ertu vetur minn og lengi þarf að bíða
að leysi freraböndin hörðu sunnanátt og þíða.
Drottna vill á landi okkar éljagrímur grimmur
og greipum sínum kreistir fólkið yglibrúnadimmur.

Sefur úti í bjarkalundi grenihríslan granna
grænu barri klæðist hún í skjóli djúpra fanna.
Þegar sólin hækka fer og vorsins vindar hlýna
vekur hún að nýju alla sumardrauma mína.