Vor í Föxum | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Vor í Föxum

Fyrsta ljóðlína:Er fór ég um í Föxum
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:2005
Er fór ég um í Föxum
var farinn vetrarís.
Með vorsins lífi vöxum,
þá vaknar allt og rís.
Við vanga gældi gola
og glampi sólu frá.
Ég sá þar frískan fola
og fagra hryssu hjá.

Í minni fékk ég festan
þar fuglahljóm og tón.
Við Vélaskurð að vestan
þar voru andahjón.
Á hreiðr’ hún lá í laumi
við lautina á svig,
en steggur var á straumi
og styggðist lítt við mig.

Og iðnir gættu eggja
þar aðrir fuglar hjá
og hrossagaukinn hneggja
ég heyrð’ í lofti þá.
Ég fögnuð fanga kunni
því flest á iði var
og nært af náttúrunni
að nýju spratt upp þar.


Athugagreinar

Lag: Schubert: Silungurinn.