Sláttulok | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Sláttulok

Fyrsta ljóðlína:Búin er nú brýnan drýgsta og breiði skárinn
Viðm.ártal:≈ 1945–1951
Tímasetning:1950
Búin er nú brýnan drýgsta og breiði skárinn
Þau eru að baki bestu árin
bilað orfið, ég og ljárinn.

Held ég bráðum hinsta sinni heim frá slætti
Skyldi því frestað ef ég ætti
eftir þrek sem duga mætti.

Aldrei hreif mig eins og nú, þinn yndisbragur,
brosmildur og brúnafagur
bjarti langi sumardagur.

Fjallshlíðarnar fagurgrónu finnst mér hækka
Öll sú prýði í augum stækka
eftir því sem dagar fækka.

Enn skal njóta yndis þess og engu kvíða
Aftanskin er upp til hlíða
einstök kyrrð og veðurblíða.

Æskudalur, engjalönd, ó, endurminning
eftir svona kæra kynning
kem ég heim með dýran vinning.

Þessa jörð sem átti, yrkti og unni maður
framtíðinni fel ég glaður
fyrir mér er hún helgur staður.

Blómgist hún og blessist hún og barna sinna
gæti hún allra eins og minna
auðnist þeim að duga og vinna.

Kýs ég nú, fyrst komið er að kararævi
allra helst að guð mér gæfi
góðan blund við þreytts manns hæfi.

Seinna þegar sigið hefur svefn á brána
verð ég komin yfir ána
Eilífð vek mér ferðaþrána.