Þjórsárdalur | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Þjórsárdalur

Fyrsta ljóðlína:Særður varstu og síðan hulinn sandaföldum
Viðm.ártal:≈ 1920–1940
Tímasetning:1930
Skógarás og skemmdarauðn er skýrst í minni
frá því er ég fyrsta sinni
fékk að heilsa óbyggðinni.

Birkirunnar, brunasandur, börnin furðar
er þau sjá til samanburðar
sakardóm og lífgjöf Urðar.

Gróður jarðar, gott átt þú að geta borið
fagurlega vitni um vorið
vaxið þó að af sé skorið.

Lítil á sem lindi blár er lögð á milli
lands er nýtur lífsins snilli
og lands er missti þeirrar hylli.

Þú hefur nú Þjórsárdalur þráfaldlega
fært mér geðhrif gleði og trega
glögg sjást merkin allavega.

Særður varstu og síðan hulinn sandaföldum
gæta þeir í gröfum köldum
gróður þíns frá liðnum öldum.

Bregður fyrir bjartri mynd af breyttu svæði
eyðilands er átti bæði
ást og vonir, söng og kvæði.

Ævintýrið ei mun fyrnast aldaröðum
þá var Hjalta hetjuglöðum
heimreið ljúf að Skeljastöðum.

Líkt er því sem skin og skuggi skapið blandi
er ég kem af eyðisandi
aftur fram að grónu landi.

Beri kveðjur bróðurhugans blátær áin
blómsveig yfir blómin dáin
bindi saman Hjálp og Gjáin.


Athugagreinar

Hér eru innfærð 10 erindi af 24 í ,,Vísum og kvæðum"