Óseyrarbrúin opnuð | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Óseyrarbrúin opnuð

Fyrsta ljóðlína:Árnesingar! Ennþá mætast
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1988

Skýringar

Ort í tilefni af opnun Óseyrarbrúar á Ölfusá 3.sept.1988
Árnesingar ! Ennþá mætast
óskirnar sem þráum vér
Sjáum Draupnis djásnum bætast
dýran baug við ósinn hér
Farartálminn horfið hefur
Hér skal fagna vegabót,
Aldrei framar okkur tefur
eðjukorgið jökulfljót

Meðan næstum allir áttu
til Eyra för í kaupstaðinn
flytja hérna margir máttu
matarbjörg og hlutinn sinn.
Þarna hefur allar aldir
áin streymt á græðis fund
Aldrei verða tölum taldir
tímarnir við ferjusund.

Eldri garpar muna meiga
að mörg var tvísýn lendingin
Þeim á stundum þörf að eiga
Þorlák Helga fyrir vin.
Annar var þó einatt vandinn
allir þrá til heimbyggðar
Eftir göngu austur sandinn
óferjandi kanski var.

Margir áttu dýrann drauminn
djarfir menn í byggðum hér
Í huga brú á stríða strauminn
stöðugt veltu fyrir sér.
Hér var eitt sem einatt skeður
allir studdu þetta mál
En lengi báru landsins feður
lóð á hina vogar skál.

Hugsjón orð sem aldrei þagna
áfram berjast sönn í trú,
þar til sætum sigri fagna
sóknar menn við þessa brú.
Þeim skal öllum þakkir gjalda
er þessu máli veittu lið
Lofi þeirra á lofti halda
lýðir vítt um héraðið


Víst mun léttast lífsins glíma
þá leið er stytt á vina fund,
Brúin færir betri tíma,
bætir haginn alla stund.
Hún mun okkar Árborg styrkja
Átaksmáttur vaxa fer.
Þessi brú skal vekja og virkja
vinnufúsra manna her.

Nú er glatt í hugans heimi
Horfa fram á veginn ber,
Þessi lífæð stöðug streymi,
styrki og bæti mannlíf hér.
Brúin líkt og minnismerki
mun hér standa langa tíð
Bera huga og handa verki
heilsteypt vitni ár og síð.




Athugagreinar