Að iðka gott með æru | Kvæðasafn Vestmannaeyja
Kvæðasafn Vestmannaeyja

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (2)
Heilræði  (1)

Að iðka gott með æru

Fyrsta ljóðlína:Að iðka gott með æru
Heimild:JS 138 8vo.
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Heilræði
1.
Að iðka gott með æru
æðstum kóngi himnum á,
burtför skal barni kæru
búin vera sínum frá.
Sé þér fritt
so vel megir.
Sorgin mitt
hjartað beygir,
blessist þitt
áform, orð og vegir.
2.
Ó, haf hér, elsku niðji,
aðskilnaðar dýrleg þing,
sterkan sprota sem styðji,
stálspegil og tryggðahring.
Fæ eg þér
það í hendur.
Þú frá mér
burt ert sendur,
hvar sem fer
haf þó sért ókenndur.
3.
Við náðaheit þess hæsta
hvörn dag styð þú líf og sál.
Velgengnin veitist stærsta,
vegferðin þó sýnist hál.
Frábær dýr
frægðarverja
fjandmenn lýr
sem á herja.
Tryggur býr
þú við hættu hverja.
4.
Þér fyrir sjónir settu
sérhvörn daginn Guðs lögmál.
Glögglega þar að gættu
Guði þjóni líf og sál.
Hlýðnin er
offrið mesta.
Ást á þér
Guð mun festa,
ef þú fer
braut lögmálsins besta.
5.
Hafðu og hringinn góða,
hendi tak hann aldrei af,
þann sem hjálpræðið þjóða
þér og mér til eignar gaf.
Ástarrót
herrans hreina,
hún er bót
allra meina,
þar á mót
þú munt gæðin reyna.
6.
Í Danmörk út ert sendur
Orðið Guðs að læra vel.
Hæstum Guði í hendur,
hjartabarn mitt, eg þig fel.
Sjálfur á
sjó og landi
sé þér hjá,
forði grandi
til og frá,
í friðnum þig leiðandi.
7.
Burt frá foreldrum sínum
fór Jakob, útlendur var,
en Drottinn hélt með honum,
hann gjörði auðugan þar.
Jakob hét
honum að þjóna.
Hjartað lét
á hann vona,
eg þér set
soddan reglu eina.
8.
Hann hreppti lukku langa
landi annarlegu á.
Guð láti þér so ganga,
geymi hann þig til og frá.
Gá þú hans,
hann þín gæti,
himnaranns
þenk á mæti
föðurlands
friðar öðlist sæti.
9.
Eins og Guðs engill leiddi
yngri Tóbíam frá og til,
gjörvallan veg hans greiddi.
Gekk honum þá allt í vil.
Unni hann þér
þess hins sama,
þú sækir
góðan frama
hvar þú fer,
hann þig virðist geyma.
10.
Með Ísraels almúga
út í sjóinn gaf hann sig,
eins virðist nú hans auga
á hafinu að vakta þig
og alla þá
þér með fara,
þeirra á
leið bívara,
glaður sjá
land og landsins skara.
11.
Ó, Drottinn, í því landi
iðulega gæti þín,
forði við glæpagrandi,
geymi þig frá allri pín.
Þér sé tjáð
sæmdin sanna,
sért í náð
Guðs og manna.
Allt þitt ráð
efli Guð himnanna.
12.
Minnstu og móðurráða
með þeim heitu tárum þrykkt.
Það horfir þér til náða
þráfalt ef athugar slíkt.
Hennar bæn
hvörn dag skeður,
heit og græn
tárum meður.
Hjartans væn
herrans náðin gleður.
13.
Hún biður herrann góða
að hjálpa þér fyrir líf og sál,
að vernda þig frá voða,
verkin blessa þín og mál.
Far af stað
friði í sönnum,
flykkist að þér
blessan hrönnum.
Finndu náð
fyrir Guði og mönnum.
14.
Ó, það mín augu fengi
aftur þig með gleði að sjá.
Mætti eg lifa so lengi,
lofa mundi eg Drottinn þá.
Farðu úr
faðmi mínum,
faðmi þig trúr
Guð með sínum
verndarmúr.
Á vegi sé hann þínum.
15.
Ó, hjartans elsku niðji,
eg fel þig í Drottins hand,
heim og heiman þig styðji,
hjálpi þér um sjó og land.
Sonarkind
sæmd átamin,
sjáist þinn
réttur framinn.
Góður minn,
Guð blessi þig.
Amen.