Kátr í lund | Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (46)
Bæjavísur  (1)
Gamankvæði  (3)
Tíðavísur  (1)

Kátr í lund

Fyrsta ljóðlína:Nú árið er liðið í aldanna skaut
Viðm.ártal:≈ 1930–1980
Tímasetning:0
Nú árið er liðið í aldanna skaut
með of litla síld - of litla síld.
Og minningar óðfluga berast á braut
þó bragði hér enginn síld.
En athafnamönnum markast ei bás
þeir mætustu tóku með síldinni rás.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Hann Kristján við sáum á Kambinum fyrst
kominn á stjá - kominn á stjá.
Á reknetum græddi af leikandi list.
Hallelú - Hallelú já.
Hvort setti hann alla þá peninga í pung
eða pungaði öllu í kvenljónin ung?
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Finnbogi á Kolbeini keyrði um sjó
kátur hann er - kátur hann er.
Daglega aflaði nærri því nóg
það nú segir Pétur mér.
Útgerðarmaðurinn makaði krók
miljónir sílda í ágóða tók.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Addi á Birninum brallaði margt
með belgi og tó - belgi og tó.
All flestir telja það helvíti hart
að hafa þann mann á sjó.
Sem kvenþjóðin elskar frá toppi að tá
og titrandi af ákafa reynir að fá.
Suður í vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Veiðarnar stundaði Valgarður þar
vel á því fer - vel á því fer.
Kolbrúnar skeleggur skipstjórinn var
skapaður handa þér.
Gljáandi síldinni sinnti ei hót
á sjóklæðin taldi það ónýta bót.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Hugrekkið staðreynd þó höndin sé grönn
heilla karlinn - heilla karlinn.
Djarfur til sóknar var herann á Hrönn
Héðins-firð-ingur-inn.
Ánæju bjarma á andlitið sló
ef einhverja leit hann sem ekki var mjó.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Á Villa var Sigurjón sveimandi um haf
sægarpurinn sægarpurinn.
Netunum sökkti í sjóinn á kaf
með síldinni dróg þau inn.
Hornaugum leit hann allt pilsgerða prjál
píreygðu meyjunum neitaði um skál.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Atli hinn sjóblauti sigldi úr höfn
Sjögutten var skipstjóri þar.
Þó andaði köldu af dimmblárri dröfn
dæmalaust gaman var.
Ákafans vegna að innbyrða síld
alveg hann gleymdi að taka sér hvíld.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Nýmóðins eimskipið öldurnar klauf
áfram sem mest - áfram sem mest.
Skipstjórinn hataði allt helvítis gauf
hann var nú til í flest.
Hin siglfirska Rakel á sægarpinn þann
svannar þó telji hann ógiftan mann.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Axel á Káranum kúfyllti net
krossbölvandi - krossbölvandi.
Með dugnaði setti hið siglfirska met
en samt var hann röflandi.
Ef áleitni kvenþjóðar einhverja fann
til athafna valdi þá Grím stýrimann.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.

Nú eru þeir komnir í kyrrðina heim
kátir í lund - kátir í lund.
Og lifa um jólin í lukku og seim
fyrir líðandi hverja stund.
Við konurnar segja þeir: Kysstu nú mig
ég hvergi sá neina eins fallega og þig.
Suður í Vík í Grindavík
Sandgerði og Keflavík.