Til Helgu og Hreiðars á brúðkaupi þeirra | Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga
Kvæða- og vísnasafn Mosfellinga

Innskráning ritstjóra

Til Helgu og Hreiðars á brúðkaupi þeirra

Fyrsta ljóðlína:Mig langaði að rétt’ ykkur svolítinn sveig
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1922

Skýringar

Ort í tilefni brúðkaups Hreiðars Gottskálkssonar og Helgu Björnsdóttur þann 13.maí 1922.
Mig langaði að rétt' ykkur svolítinn sveig
- en sveiga að binda ég er ekki laginn,
svo geri það Vorið, sem græðandi steig
á grundirnar frónsku, og vekur upp fræin.
Það leggur hann betur en ljóðin mín feig
sem lífönnin styggir um sólheiðan daginn.

Það verður ei sveigurinn væni, er ég gef
úr vaxandi blómum á minninga þræði
þótt blessunaróskirnar bindi í stef
er brúðhjónin taki sem vinarins kvæði.
En ráðahag ykkar ég vonunum vef
og vorinu eilífa fel ykki bæði.

Það leiði' ykkur alltaf um löndin sín blá
í ljósi og lýju á angandi grundum.
Það hefji og vermi ykkar vonir og þrá
í vaxandi ástum með fjölgandi stundum,
og seinast er blundurinn sígur á brá
það svæfi ykkur, börn sín, í líknandi mundum.