Tvídægruvísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tvídægruvísur

Fyrsta ljóðlína:Norður um Tvídægru andnes og álftasund
bls.30–31
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) abab
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) abab
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1952
>Norður um Tvídægru andnes og álftasund
>átt hef ég fjölmörg spor.
>Þar hef ég löngum farið með hest minn og hund
>haust og vor.
1.
Marglynd er heiðin mín gamla, hún grætur og hlær,
golan og stormurinn kveða þar ólíkan brag.
Vatnið sem spegilslétt glitraði í sólskini í gær
gruggugu löðrinu þeytir á bakkann í dag.
2.
Vindbáran herjar þá landið með þungum þyt,
þverskorinn jarðveg grefur á ýmsa lund,
hanga í rofinu rætur hvítar á lit,
ryðgaður hnígur dreyrinn úr svartri und.
3.
En gott er að vera þinn gestur, heiðin mín blá,
gafst þú mér löngum að nýju von mína og trú,
ómuna djúp er sú úð sem þú vekur þá.
Ættlandsins góða, máttuga brjóst ert þú.

4.
Séð hef ég snjóskýin hylja haustföla sól,
heyrði eg í sölnaðri störinni golunnar rísl.
Skóþvengur slitinn var hnýttur við Staðarhól,
hugað að gjörðum og beizli við Langavatnskvísl.
5.
Lengi mun hugurinn leita úr byggðum til þín,
lokar ei minningin hurðum að baki sér:
himbrimatjarnir og hólmavötn blasa við sýn,
hringing úr tröllakirkjum vindurinn ber.
>Fjölmarga göngu um fjöllin, stundum í snjó,
>fór ég þrjátíu haust.
>Einhver mun verða hin allra síðasta þó
>– efalaust.