Magnús Guðmundsson alþingismaður á Staðarstað | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Magnús Guðmundsson alþingismaður á Staðarstað

Fyrsta ljóðlína:Bára klökk á Borgarsandi
bls.92–94
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbAb
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1919
Flokkur:Eftirmæli

Skýringar

Áttunda erindi lifir gjarna sjálfstæðu lífi sem lausavísa eða smákvæði.
Fyrst prentað í Lesbók Morgunblaðsins 23. janúar 1938, síðar í ljóðabókinni Utan af víðavangi 1942.
1.
Bára klökk á Borgarsandi
brosir, grætur, sitt á hvað.
Hólastóls ’inn helgi andi
hvatar vegu norðan að.
Honum er á höndum vandi:
Hylla og kveðja Staðarstað.
2.
Drangeyjar og vatna vættir,
vökufúsar, kveða brag:
Magnús! Hugir, þúsundþættir
þinni minning tóna lag.
Menn er að þér sóttu, sættir
semja vilja nú í dag.
3.
Svinnur hersir, sólarmegin,
síðdegis, við brostinn róm,
háttar, þegar heilög Regin
honum gefa dýrleg blóm;
er nú loksins undanþeginn
andstæðinga hleypidóm.
4.
Dýrindum sá dáðmannlegi
drengur fleygði ekki á glæ;
kynntist bröttum klungurvegi;
kunni leið, þó renndi snæ;
áttum helt að dánardegi;
dreymdi ljós í hverjum bæ.
5.
Hann, þó gengi á hálu svelli,
hjálminn vel og skjöldinn bar.
Þingmannlegur, þéttur á velli,
þéttur í lund og stilltur var;
hafði goða á Helgafelli
í huga, þegar úr máli skar.
6.
Margur, seinna miklu en skyldi,
Magnúss kosti hefir séð.
Atti í brjósti Magnús mildi
morgunroða náskylt geð.
Magnús góði! Heill frá hildi!
Hegraness er veldi réð.
7.
Hjaltasynir, Höfða-Þórður,
heilagur Jón, er tamdi lund,
hafa Magnús haft í boði
hinum megin við dimmblá sund.
Hafa sótt á hljóðri vöku
hvorir tveggja annars fund.

8.
Þegar ég heyri góðs manns getið
glaðnar yfir mér um sinn.
Þá er eins og dögun dafni,
drýgi bjarma um himininn;
vonum fjölgi, veður batni,
vökni af döggum jarðar kinn.
9.
Jafnvel þó í fótspor fenni,
fjúki í skjólin heimaranns,
gott er að signa göfugmenni,
gjalda blessun minning hans;
dreifa skini yfir enni,
ilmi um brjóst hins fallna manns.
10.
Margur kveður Magnús hljóður,
mænir um öxl, er fer á braut
sonur besti sinnar móður,
sæmdar höldr í hverri þraut.
Breiða yfir hann Birta og Gróður
blæju sína – heilagt skraut.