Björn Erlendsson (s.hl.) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Björn Erlendsson (s.hl.)

Fyrsta ljóðlína:Hvert sem augað hvarflar sjónar steinum
bls.219
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1841
Hvert sem augað hvarflar sjónar steinum
hverfandi það myndir ótal sér
samandragast að miðpunkti einum,
yfir hvern að neinn ei kvikur fer,
lífið klæðist köldum náa hjúpi,
kreppt í elstu laga þröngu bönd,
bylgjur leiddar dauðans upp af djúpi
dynja þungt við forlaganna stönd.

Frá oss hrifu fjörráns greipum skæðum
félagsbróður öllum saknaðan,
bónda í árdags blóma fjörs hagstæðum,
Björn Erlendsson jarðaryrkjumann,
sem gjörði rúst að grænum ekrubólum,
græddi kaunuð móðurbrjóstin snauð,
hann með svita, hyggju og verkatólum
heimti þaðan aftur líf og brauð.

Menntur vel og mannvinur hinn besti
meðbræðra sem eigið rækti gagn,
augastað hann á því skýran festi,
arður dragi bóndans skylduvagn,
lagðist eftir lærdómsrita fræðum,
las úr öllum hagnaðarkornin frjó,
lipurmenni í lund, viðmóti og ræðum,
launhyggindum fögrum yfir bjó.

Greindur vel og guðhræddur trúmaður
í góðu hjarta festi sæðisrót,
til gestrisnu og greiða ætíð hraður,
glaðastur þá sýnt gat kærleikshót,
skynsöm orð og skemmtin fram réð bera,
skreytti lífið dagfarsprýðin hrein,
fremur þótti fríður sýnum vera,
fegurð sálar gegnum svipinn skein.

Í betra lagi bóndaefni þótti,
blessuðust hans vel umhirtu föng,
fram með svita og fyrirhyggju sótti,
þá fjárhag manna þrengdu kjörin ströng.
Iðjusemi og umsjón húsið nærði,
aflafátt svo hvergi lengi varð,
hann þess betur búmanns skyldur lærði
sem bárust fleiri þarfir heim í garð.

Ektamaki einhver dyggðamesti
og ástúðlegur barna faðir var,
húsbóndi að háttaprýði besti,
hjúunum til eftirbreytingar,
alvarleg ef orð og viðmót sýndi,
eins varðveitti snilld í svörunum,
hræsnisfarfa hann á ekkert klíndi,
hjartað jafnan lá á vörunum.

Þrekmikill í þjáninganna straumi,
þolinmóður sigraði hverja styggð,
menntuð sálin gaf sig litt að glaumi,
því guðleg trú hans var á hellu byggð.
Loks með sigri hnigin er sem hetja,
um hæstan dag þá afrek bestu vann,
sjálfs með dæmi svo vill aðra hvetja,
sín upp taka vopn, þar sleppti hann.

Mögur óskar miklu hefði síðar
mannslát þetta skeð og félagstjón;
allir mega á leikborði tíðar,
ef þeir horfa með óspilltri sjón,
vinning sjá, því vitur hefir spilað
og varið gáfum eftir bestu raun,
dagsverkinu drottni og mönnum skilað,
dyggða sinna hlotið fullu laun.

Far svo vel, vér fylgjum þér í anda,
frjálslundaði reisubróðir vor,
okkar félags innan griðabanda
eftir sjást þín dyggða gengin spor,
bljúgir minnumst banakveðju þinnar
og bænarorða lífs hjá takmarki,
í helgri trúarhreysti sálarinnar
huggaðir aðra, sjálfur deyjandi.

Guðs musteri, geym nú línur þessar,
glata eigi, haltu við þær tryggð,
heiti Bjarnar heiðrar hver og blessar,
hreint sem elskar bræðra félagsdyggð.
Utan veggja örent duftið sefur,
innanhúss þó vakir minning kær,
æðri bústað öndin fengið hefur,
á lífstrénu Jesú plöntuð grær.