Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Ljómur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ljómur

Fyrsta ljóðlína:Hæstur heilagur andi
Ætlaður höfundur:Jón Arason biskup
bls.122
Bragarháttur:Kansóna (ljómalag)
Viðm.ártal:≈ 1525
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Stafsetning færð til nútímahorfs.
Textinn í Íslenzkum miðaldakvæðum er prentaður eftir elsta handriti kvæðisins sem er AM 713 4to, bls. 66–71. Í þessu elsta handriti sem talið er skrifað laust fyrir miðja 16. öld er kvæðið engum eignað. Dregur Jón Helgason í efa í formála sínum fyrir því að kvæðið sé eftir Jón Arason og það sama gerir Vésteinn Ólason í Íslenskri bókmenntasögu II, bls. 301. Ekki er ólíklegt að Jóni hafi verið eignað kvæðið seinna vegna þess að það er undir sama bragarhætti og Davíðsdiktur sem talið er nokkuð víst að sé eftir Jón.
1.
Hæstur, heilagur andi
himnakóngurinn sterki
loflegur, líttu á mig.
Signaður á sjó og landi,
sannur í vilja og verki,
heyrðu eg heiti á þig.
Forða þú mér fjandans pínu díki,
svo feyknakvölunum öllum frá mér víki.
Mér veit þú það, Maríusonurinn ríki,
mæla kynni eg nokkuð, svo þér líki.
2.
Á dögunum sex inn dýri,
drottinn minn, þú skaptir
allan heiminn hér
mjög sem Moyses skýrir
af mjúkum dýrðarkrafti,
svo var sagt fyrir mér.
Skýrði loftið skaparinn allra kinda,
skjálega kunni hvað frá öðru hrinda.
Tempraði síðan tungl og sól og vinda
tígulega sá allt kann leysa og binda.
3.
Aldarföður vorn fyrsta
frá eg hann skapti af moldu
hér sem hver mann veit.
Lét sig þar til lysta
að lífga þann á foldu
með sönnum sólarreit.
Nú vil eg gjörla nöfnin þeirra inna
nær sem mætti nauðum vorum linna:
Adam hét og Eva, hans lystug kvinna.
Varla mátti æðri tvö hjón finna.
4.
Þeim var lagt til lénis
að lifa með allri blíðu
svo prútt í Paradís.
Veitti þeim hinn væni
vist án allrar kviðu,
sú var sælan vís.
Bannaði þeim að bíta einn eplis kjarna,
blessaður kveðst þeim einskis annars varna.
Þetta birti hin bjarta sjávarstjarna,
bar hún í heiminn hjálparann Adams barna.
5.
Fjandinn unir við illa
yndi þeirra og sælu,
vöxt og vænlegt skraut.
Hann situr um að svíkja og villa
og sárlega þau að tæla
og leiða af líknar braut.
Í ormi einum orðin frá eg hann innti,
aldrei frá eg hann þessu fyrri linnti.
Beit hún epli en boðorðum ekki sinnti
af bönnuðu tré og þar til Adam ginnti.
6.
Þeim refsing með réttum dómi
ríkur herrann veitti,
mjög sem maklegt var.
Það var sár ósómi,
sælu vorri neitti
og langt af lögunum bar.
Hann rak þau bæði burt í heiminn þenna,
beiska neyð og angist urðu að kenna.
Ávöxtur nam upp af þeim að renna
allir hlutur í kvölum og píslum brenna.
7.
Leið svo langar stundir
um ljóta ánauð stranga,
tvo heimsaldra traust.
Bölvaður bruggar undir
börnin þeirra að fanga
með öllu efunarlaust.
Voldugur herra vill ei lengur bíða
að vernda þegar eftir oss að stríða.
Honum mun blóð úr breiðum undum svíða
að blessaður vildi létta vorum kvíða.
8.
Dýrri dóttur Önnu
drottinn minn að sendi
einn af einglum sín.
Sagði henni að sönnu
og sætum orðum vendi:
hrein er holdgan þín.
Ver þú mig þó villan yfir mig drífi
sem vænn og sterkur, brynjaður her í kífi.
Heilagur andi skrýddist skæru vífi,
skapari minn var huldur hennar lífi.
9.
Níu mánuði næsta,
nú sem spámenn játta,
oss í fagran frið,
bjartur í Bedleem hæsta
borinn, sem guðspjöll votta,
af hennar helgum kvið.
Einn hét Baltasar, offrar gull með höndum,
annar Melkjör, mildur af ráðum vöndum,
Jasparíus sem reykelsi í höndum.
Austan komu kóngar þrír úr löndum.
10.
Þrjú og þrjá tigi ára
þengill himins og landa
lifði í heimi hér.
Öfundin óx in sára
Jesús mínum að granda
grimmum gyðinga her.
Júdas Skaríoth einn var nefndur inn fyrsti,
orðin talaði þau sem fjandann lysti.
Falsið óx en flærðin illsku byrsti:
flýtið yður og fangið þann eg kyssti.
11.
Þrengd var þér að enni
sem þyrnikórónan væri
reyrð með rauðan við.
Holdið skarst fyrir henni,
hrörnar liturinn skæri,
dreyrinn dundi niður.
Ágætt lof þér englar fagrir sungu,
þig allir skyldu lofa með sinni tungu.
Býsn voru mikil þá björg í sundur sprungu,
bifaðist jörð, er gaddar guðsson stungu.
12.
Þá kom ógn og ótti
upp af gyðinga munni,
hver tók hlífa sér.
Flestir héldu á flótta,
flúði hver sem kunni
blessaður í burt frá þér,
nema þau María mild og Jóhannes bæði,
mikil var þeirra sorg og hjartans mæði.
Óttast hvorki ógn né neina bræði,
undir krossi frá eg þau fastast stæði.
13.
Nóni sjálfu nærri
niflung himins og landa,
hann lét sitt líf á kross.
Róma röddu skærri
ríkur gaf sinn anda
hér til hjálpar oss.
Faðir minn anda fel eg á hendi þinni,
frá eg hann talaði svofelld orð sem eg inni.
Hörmulegt er að heyra og leggja í minni,
heimurinn allur tapaði birtu sinni.
14.
Nú vill hilmir herja
að hjálpa fólki sínu,
enn með ágætt lið.
Fjendur vilja verja
og veita oss lengri pínu,
bölvaðir bjuggust við.
Lokurnar brustu, hann leysti fjandans anga,
læknaði hann svo Evu atferð ranga.
Armt helvíti opnast tók hið langa.
inn réð hann með sínu valdi ganga.
15.
Þá var óp og ótti
að illi fjandi kvíddi,
hann sá helgan kross.
Sæmilega til sótti,
sjálfur Guð minn stríddi
og náði öllum oss.
Föður vorn Adam fyrst í burtu leiddi,
frá eg hann gjörði allt, sem lýðurinn beiddi.
Ára fjandans alla píndi og meiddi,
Jesús Kristus götuna vora greiddi.
16.
Allt helvíti hann eyddi
enn sem segir í versi,
Jesús Kristus hreinn,
og svo snöggt hann sneiddi
í snarpri herför þessi,
þó var eftir einn.
Batt hann þann með blessuðum orðum vöndum,
bæði má það fregna á sjó og löndum.
Fjötrin liggja á fótum hans og höndum,
fjandinn svartur brennur í þessum böndum.

17.
Sú var fylgdin fríða,
fór með drottni mínum
signuðum Jesúm Krist.
Ei mun um aldur líða
öllum léttir pínum
sætleg sælu vist.
Sungið lof þér sætt af hverri dróttu,
sjálfan Guð vér lofum dag sem nóttu.
Fögnuð þann er fríðir vinir hans sóttu,
frá eg hann reis upp páskadaginn í óttu.
18.
Kristur með kærleik dvaldist,
sem kantelenan vottar,
með hjálp og huggar þjóð.
Trúi eg það svo taldist
tíu og þrjátíu nátta
meðan hátíð heimsins stóð.
Orð og verk allt vér til hans köllum,
vér unnum þessum höfuðkóngi snjöllum.
Hann sté upp af jarðarinnar pöllum
ásjáandi sínum postulum öllum.
19.
Þar mun í sælu sitja
sólarkóngurinn frómi
með alla engla makt.
Hann kemur víst að vitja
vor á efsta dómi,
svo hefur Davíð sagt.
Koma þá undur og ógnir vorra lasta,
eldar brenna sólarplássið fasta.
Mílur teljast meir en þúsund rasta,
mun þá jörðin búkum úr sér kasta.
20.
Opnast allir himnar
af einu klukkuhljóði,
skýrt sem skaparinn tér.
Dauðleg duftin lifna
af dýru holdi og blóði,
því vér höfðum hér.
Talar hann þá með tignarorðum sínum:
trúi eg þér séuð vafin í syndalínu.
Eg var fús að frelsa yður úr pínu,
fátt gjörðuð þér eftir vilja mínum.
21.
Vænn í veldishringi
vísu kveður snjalla,
settur með sárum móð.
Hann ber á breiðu þingi
blóðugan krossinn allan
og sýnir sinni þjóð.
Jesús talar við auma lýði og svarta,
alllítt hafi þér stöðvað syndaparta
og er því líkt að líta hans ásjón bjarta
sem loganda sverð hans fljúgi af munni og hjarta.
22.
Hvar er sú fríða fæða,
faðir vor Kristur spurði
inn auma lýðinn sinn,
eða þó helst að klæða
með hreinum hjálparburði
höfðuð þér til mín?
Fátæka þér vilduð ekki rækja,
virtuð þeim til allra illsku klækja.
Með göfugu valdi gjörði eg yður að sækja,
þér girntust aftur í fjandans villu að krækja.
23.
Plágaður var eg með pústrum,
píndur og hæddur löngum,
mest fyrir yðra skyld.
Lamdur þyrni og þústum,
þar með svipum og stöngum,
Sárin með sviðanum sýld.
Stórlega barður og steyptur þungu grjóti,
strengdur fast og ægt með öngu hóti.
Hvar er það gott þér gjörðuð hér á móti,
í gegnum lagður síðu mína spjóti?
24.
Fóruð með fals og blygðir,
fögnuð öngum æmtuð
og aldrei létuð af.
Svo með ljótar lygðir
lýði mína ræntuð
og allt það eg áður gaf.
Hötuðuð mig sjálfan, hörmuleg var sú sneypa.
Hver vill öðrum niður í fjandann steypa?
Dæmið þér hvað dýrt mundi eg yður keypa,
dauðann þoldi eg með píning greypa.
25.
Hvar er það dreissið digra,
dramb eða hverskyns læti
er þér höfðuð hér?
Létust lýði sigra,
litlu vildu bæta,
guð, fyrirgef þú mér.
Hvar er nú heiftarhugurinn yðar hinn kaldi
er höfðuð þér með stóru peningagjaldi
eða sá styrkur af stóru sveina haldi?
Stendur sálin nökt í fjandans valdi?
26.
Trúi eg í tvenna flokka,
tiginn guðsson skiptir
sem segir í sönnum óð.
Ber svo blíðan þokka,
bragurinn pínu sviptir,
vist er væn og góð.
Til valdra manna víkur svo með blíða,
verðkaup skal eg gjalda yður hið fríða.
Sitjið með föður og sviptir öllum kvíða,
sæla og dýrð mun aldrei um aldur líða.
27.
Enn til aumra manna
í annan stað ræður víkja,
ljóst sem letrið tér.
Þér munuð kvalirnar kanna,
segir kóngur himna ríkja,
og skiljast skjótt frá mér.
Dökkvir munu yður djöflar illir granda,
dæmdir í burt frá öllum guðdóms anda.
Það mun út um allar aldir standa,
að eilífu brennið þér hjá fjanda.
28.
Blessuð brúðurin tiggja
biður í þessum voða.
Háleitur, heyr þú mig!
Lofa mér lýð að þiggja,
láttu mig því ráða.
Svo hjálpist hver um sig.
Eg veit það víst, þú vilt mér einskis neita,
vegsamlegur, ef eg vil eftir leita.
Það er mitt traust að allt munir þú mér veita,
minn einkason fyrir þína ástúð heita.

29.
Þar næst biður inn bjarti,
blessaður Jóhannes skæri.
Hans er hjálpin þýð.
Fagur með frómu skarti
frá eg hann standa næri,
tiginn talar fyrir lýð:
Voldugur herra, virtu það vér tínum.
Vegsamlegur hlýð þú orðum mínum.
Eg var fús að fylgja yður í pínu,
flúða eg aldrei undan krossi þínum.
30.
Mildur svarar af mæði
mjúkur í veldishöllu:
að vísu veiti eg þér.
Þið skuluð þiggja bæði
það þið viljið með öllu,
svo fagurlega fygduð mér.
Verði vilji þinn, volduð hjartans móðir,
vegsamlegur og svo þinn Jóhannes bróðir.
Heyri eg að þið viljið hjálpist allar þjóðir
hvort það er heldur vondir menn eða góðir.
31.
Þau frá eg þetta þágu
þýð og Jóhannes bæði,
mildust María frú.
Fólk frá fyrri plágu
af mikilli grimmd og æði
að leiða á líknarbrú.
Þeirra bón mun lengst um heiminn ganga,
þau linuðu þannig vora ánauð stranga.
Síðan gjörir oss fjandinn aldrei að fanga
Hann situr í ánauð alla ævi langa.
32.
Æðstar engla sveitir
og lýða fjöld um heima
lofar þig, lausnarinn hreinn,
og allt það nokkuð heitir,
innan lands eða geima,
syngi sætleik þinn.
Leystu oss frá löngum synda hnúti
lifandi guðs son, bæði inni og úti,
svo að vér hljótum skjól af skírnarklúti.
Skepnan gjörvöll skapara sínum lúti.
33.
Öfund og allar syndir
eg hefi gjört með vilja
og brotið svo boðskap þinn.
Það eru þungar myndir,
þess má eg eigi dylja,
harður er hagurinn minn.
Stórlega hefi eg stefnt til þungra nauða
og steypt mér svo í fjandans villu snauða.
Þú gafst út þitt líf og blóðið rauða,
lát mig njóta drottinn minn þíns dauða.
34.
Svo eru mínar myndir,
má eg þess ekki þræta,
Kristi kunnugt er.
Aukum einatt syndir,
allar viljum bæta.
Guð, fyrirgef þú mér.
Alloft hefur mig illskubroddurinn stangað,
ávallt hefur mig þó til Jesú langað.
Það er mitt traust að hjálpast muni eg þangað,
kallast má að Köllus hafi oss fangað.
35.
Fenginn og fús eg beiðist:
forða þú mér pínu,
vænn og veglegur er,
svo þú eigi reiðist
orðum þessum mínum,
víst eg valdi þér.
Hugur kýs umbun hverjum verka sinna,
himnadýrð mun aldrei um aldur linna.
Lát mig njóta Jesús orða minna
svo yðrar náðir mætti sálin finna.
36.
Æðar og sinar allar
önd og sál með búki,
guð minn gef eg þér
þá herrann héðan mig kallar,
hjálp svo ekki púki
eigi vald á mér.
Dugi þú mér þá drottinn himnahallar
að dauðinn kemur á enda lífsins palla.
Þessar vísu þiggja nafnið varla
þó vildi eg þær Ljómur láta kalla.
37.
Hér má skýr orð skilja,
skatnar þenki fleira,
þú ert þrennur og einn.
Þar með vitið og vilja
vildi eg hafa til meira
að lofa þig, lausnarinn hreinn.
Leystu oss frá ljótu syndaæði.
lifandi drottinn, og þið María bæði.
Orðan fellur, úti er þetta fræði.
Amen, amen! Endir verður á kvæði.