Burtför-afturkoma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Burtför-afturkoma

Fyrsta ljóðlína:Kveð jeg þig, mín kæra sveit!
bls.56–58
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBBacDDc
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1870

Skýringar

Ort þá er höfundur ætlaði vistferlum til Reykjavikur (1870); en varð að hverfa heim aftur sakir vanheilsu.
1.
Kveð ég þig, mín kæra sveit!
allra sveita afbragð fríða!
æsku minnar vaggan blíða!
frónið sem ég fegurst leit!
Þínum blíðu brjóstum á
varð ég það sem er ég orðinn;
elskulega móður-storðin!
þungt er þér að flytjast frá.
2.
Hjá þér fann ég skin og skúr.
Skúr þó tíðum skelfdi lundu
skin þess fegra, eftir stundu.
hætti margfalt angri úr.
Ó mig veikan vesaling!
Skapadómur á fékk hrinið:
Áformuð er umbreyting.
3.
Hvílík breyting, herra Guð!
yfirgefnar æsku-slóðir;
æskuvinir kvaddir góðir;
æskan jafnframt útenduð.
Fár veit hverju fagna skal!
Feginn, kvíðinn, fús og tregur
fer ég sem mér beinist vegur.
Sig í dimmu framtíð fal.
4.
Heima mitt ég hefi kvatt,
vandamenn og vini alla;
vil minn Guð um laun á-kalla
þeim, sem hafa geð mitt glatt —
Mun nú kvatt í síðsta sinn
það sem hjartað unni í æsku,
allt eða sumt? — Æ, faðir gæsku!
verði’ í öllu vilji þinn.
5.
Þér, al-gæzkan guðdómlig!
fel ég æsku-frónið bjarta,
fólkið sem ég ann af hjarta,
og sér lætur annt um mig.
Fel mig sjálfan, faðir! þér;
forsjá þinni fús ég hlýði,
fer minn veg og engu kvíði,
kýs þig sjálfan meður mér.
II
1.
Elskulega æskufrón!
búinn gekk ég burtu frá þér,
bæði þótt ég vildi hjá þér
eiga lífsins lengd og tjón.
Kaus ég samt að kveðja þig.
Örlögunum um það kenndi;
en ég fól þó Drottins hendi
gjörvöll efni mín og mig.
2.
Hvað því veldur að ég er
þegar horfinn að þér aftur?
Æ! minn veikur heilsu kraftur
lét ei annars auðið mér.
Fagnaður að fundi þín
er mér nú því beiskju blandinn.
Burtu lengra þráir andinn:
þangað, öll sem eymdin dvín.
3.
Héðan af ég vona víst:
æskunnar í áttar-högum
eyða fái’ eg lífsins dögum;
lítt ég við þeim löngum býst.
Eftir þetta er mín trú:
æskuvina meðal minna
muni’ eg síðsta blundinn finna,
sem ég vona nálgist nú.
4.
Þú sem átt á öllu ráð!
einn þú lér og aftur tekur;
enginn þína vegu rekur;
auðsýn þú mér aumum náð.
Leið mig gegnum líf og hel
eftir þínum vísdóms vilja.
Við þig lát mig ekkert skilja;
þess eins bið ég. Þá fer vel.