Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Æskan | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Æskan

Fyrsta ljóðlína:Man ég það, er fyrst á fold
bls.54
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBBacDDc
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Man ég það, er fyrst á fold
fríðu sá ég björgin rísa
hrein og blá á hauðri ísa –
ó, þú ljúfa móðurmold!
Horfði eg upp á háan tind,
himinskær er sólar ljómi
krýndi gylltu geislablómi
hátt í daggar ljósri lind!
2.
Ungur stóð ég úti þá,
eins og væri mig að dreyma
ókunnuga unaðsheima
uppi þar við björgin blá.
Móti sólu hlíðin hló,
hóf sig tindur bjartur yfir,
þangað sem að ljóminn lifir,
sem að gleður grund og sjó.
3.
Kominn vildi eg vera þar,
vagga mér á ljóssins öldum,
hátt und björtum himintjöldum,
það mín hæsta hugsun var!
Allan hélt ég unaðsgeim
uppi þar á tindum búa,
en ég mátti ekki trúa
að lægi grjót á gnípum þeim.
4.
Man ég blíða blómafjöld
brjótast fram úr klakadróma,
reyna sig við sólar ljóma
morgun jafnt sem mærust kvöld,
þegar döggin demantskær
dýrum hló í geislastraumi,
vorgolunnar vögguð draumi —
hversu var hún hrein og tær!
5.
Hugsaði ég að heimur það
hreinn og undurlítill væri,
þar sem daggardropinn skæri
átti rúm við blómablað!
Sæll ertú, er sælan bjó
sætan draum á rósabeði!
Víst þér fögnuð fullan léði
sá, sem gerði grund og sjó!
6.
En þess gætti ei andi minn,
eftir sem að hlaut að fylgja:
að sú dýra daggarbylgja
átti líka endi sinn.
Það ertú, hin sæla sól,
sem að allt á jörðu vekur:
Burt þú daggardropann tekur
með geislanum frá gullnum stól!
7.
Man ég líka hvíta hrönn
hreyfa brimi þrungnum faldi,
rísa hátt með voða valdi,
krýna hamra froðufönn;
óttaðist það öndin mín,
undrun vakti slíkur hljómur;
það var lífsins dauðadómur,
drottinn! Það var röddin þín!
8.
Æska! Þú ert ung og stór,
unaðfangin jötundraumi!
Hyggur að í heimsins glaumi
leiki tómur sælusjór!
Þegar tárin þorna á kinn,
þá er líka élið flúið,
sorgin úti, bölið búið,
hlær við aftur himininn!
9.
Ó, þú barna ljúfa lund,
léð var þér að sjá og gleyma!
Augnablikin, ótt sem streyma
oftast fá þér unaðstund!
Þú ert laus við þennan harm,
þegar hjartað lengi syrgir,
nauðugt margt eitt bölið byrgir
djúpt í sorgarsærðum barm.
10.
Þegar liðin þín er tíð,
þá mun veðrið oftast breytast,
það mun frjósa er fyrr var heitast,
vors er horfin blessun blíð.
Stöðugt logn ei standa má,
stofninn lifsins ormur nagar;
langar nætur, litlir dagar –
hýr er draumur horfinn þá!