Kossavísa (Camisso) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kossavísa (Camisso)

Fyrsta ljóðlína:Ljúfi! gef mér lítinn koss
bls.31–32
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aBaaaBaB
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1844
Flokkur:Ástarljóð

Skýringar

Þýðing á ljóði eftir Adelbert von Camisso. Þýtt árið 1844. Tvö eiginhandarrit eru til. Annað er varðveitt í Landsbókasafni í handritasafni Jóns Sigurðssonar (JS 129 fol.). Hið síðara er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b V). Frumprentun í Fjölni, 7. ár, 1844.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Adelbert von Chamisso (1781–1838), þýskt skáld og náttúrufræðingur, orti þetta kvæði 1829.
1.
Ljúfi! gef mér lítinn koss,
lítinn koss af munni þínum!
Vel ég mér hið vænsta hnoss,
vinur! gef mér lítinn koss!
Ber ég handa báðum oss
blíða gjöf á vörum mínum.
Ljúfi! gef mér lítinn koss,
lítinn koss af munni þínum!
2.
Leikur kossa lipur er,
lætur þeim er á kann halda,
listin sú ei leiðist mér,
leikur kossa fimur er,
einatt reyni’ eg það hjá þér –
þiggja, taka, endurgjalda.
Leikur kossa lipur er,
lætur þeim er á kann halda.
3.
Vinur! gef mér enn þá einn
ástarkoss af ríkum vörum!
einn fyrir hundrað, ungur sveinn!
einn fyrir þúsund – réttan einn!
einn enn! þú ert ofur seinn,
eg er betur greið í svörum.
Vinur! gef mér enn þá einn
ástarkoss af ríkum vörum!
4.
Rétt sem örskot tæpur telst
tíminn mér við kossa þína;
tíminn sem eg treindi helst
tæplega meir en örskot dvelst,
sárt er að skilja, gráti gelst
gleðin – þiggðu kossa mína!
Rétt sem örskot tæpur telst
tíminn mér við kossa þína.
5.
Kossi föstum kveð ég þig,
kyssi heitt mitt eftirlæti,
fæ mér nesti fram á stig –
fyrst ég verð að kveðja þig.
Vertu sæll! og mundu mig,
minn í allri hryggð og kæti!
Kossi föstum kveð ég þig,
kyssi heitt mitt eftirlæti.