Dimmuborgir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Dimmuborgir

Fyrsta ljóðlína:Ef dvelurðu í Dimmuborgum
bls.168–169
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Ef dvelurðu í Dimmuborgum
að degi um miðaftansbil,
frá Tröllakirkjunni tóna þú heyrir
titra við klettaþil.
Í vitund þinni þeir verða
voldugt og heillandi spil.
2.
Þá getur þig eitthvað glapið
og ginnt á ýmsa lund,
því tröllin í biðröðum bíða grett
og bjóða þér á sinn fund,
— þau dagaði áður þar uppi
á aldanna morgunstund.
3.
Ég dvaldi þar stund úr degi.
Á drangana sólin skein,
og birkihríslur í brekkunum undu.
— Þær bjuggu þar ein og ein.
En fuglarnir sungu um fegurð
og flögruðu grein af grein.
4.
Ég gekk um hraun og gjótur,
grænan lund og mó,
sótti í borgir með syllur og skörð.
— Sólin við mér hló.
Mig langaði að vera þar lengur
er loksins burt ég dró.
5.
Dimmuborgir mig draga
— þá dásemd ég skoða vil.
Frá Tröllakirkjunni tóna heyri
töfrandi um miðaftansbil..
Þeir berast mér huldar brautir
sem bergmál við hamragil.

Agnes Guðfinnsdóttir, Skörðugili í Skagafirði