Annálskvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Annálskvæði

Fyrsta ljóðlína:Gefst hjer mörgum skemtun skýr
bls.40–46
Viðm.ártal:≈ 1700
1.
Gefst hjer mörgum skemtun skýr
skilningsgreina fróðum,
að yrkja fögur æfintýr
ort af rökum góðum,
þar sögn er sönn og hrein.
Af dyggðum gæddri vellavör
vildi jeg þylja grein,
sem heiður prýddi og heillakjör,
en hvorki sorg nje mein.
2.
Undrast menn og að því dázt
allir þess sem gæta,
hve drottins verkin dýrðleg sjást
drjúgum það má kæta
lýði lausnarans.
Jeg hef sett mjer eitt fyrir sjón
annál Þýzkalands,
mætti jeg semja mærðar tón
minnast skyldi jeg hans.
3.
Drottins Jesús fæðing frá
fróðir reikna vilja
þúsund ein og það má tjá,
svo þegnar mættu skilja
og full fimmhundruð ár.
Horskur fursti hjelt einn stað
með heiður, vegur hans stár,
sæmdir fjellu ítum að
með auð og nægtir fjár.
4.
Rekkar nefna Rósinborg,
hvar ríkti kappinn prúði;
hafði fest svo hepti sorg
híra gullhlaðs þrúði,
er fegurð af fljóðum bar,
ítar nefna Elisabet
að auki Rósenkar,
þess jeg framar í greinum get,
hve guðhrædd kvinnan var.
5.
Unnust þau með elsku bezt
og arfa gátu fríðan,
honum var lánuð heill sú flest,
sem hvern mann gjörir prýða,
vöxtur, vizka og mennt;
meistara fengu mætan þar
og margt á bækur kennt,
á listir allar lærður var,
sem lýðnum bezt var hent.
6.
Njörður stála nýtur bar
nafn af móður sinni,
rekkar nefndu‘ hann Rósenkar,
rjett jeg frá því inni;
ólst upp ungur sveinn,
tólf þá ára talinn var
hans taldist líki‘ ei neinn,
öllum þótti‘ hann auðnusnar
á æru og listir beinn.
7.
Það bar til hjá þíðri drótt,
er þegnum aflar sorgar,
frjófsöm varð og fangar sótt
frúna Rósinborgar,
að skikkun skaparans;
yfirmaðurinn í þeim stað
og undirgefnir hans,
af hjarta klökku herrann bað
á hryggð að yrði stans.
8.
Ól ei barnið eðla frú
af eðlis venju breytti,
þrengdi sótt að þornabrú,
að þeirra krapta neytti,
svo dauðinn banar drós;
fól sig guði falda strönd
í fegursta dýrðarljós,
leið svo burt frá lífi og önd
lofleg dyggðarós.
9.
Ristol mætu syrgja senn
svinnir staðarins lýðir;
kappinn fjekk því kennimenn
kærar að syngja tíðir,
þá frú var lögð í fold,
til fríðrar kirkju Philipí
flutt var brúðarhold,
eptir venju í þeim bý
ausið vígðri mold.
10.
Dag hvern gekk að drósar gröf
dyggða sveinninn prúði,
við leiðið hafði langa töf,
því lundu sorgin knúði
af missi móður sín;
blíðar gjörði bænir þar,
breytnin vel sú skín,
af guðhræðslunni gæddur var,
sem greinir ræðan mín.
11.
Árla morguns enn til bar,
þá útgekk bæn að vinna,
rekkurinn ungi Rósenkar
rjett með breyttni svinna,
gekk þar gullskorð lá;
heyrði í leiði hvellan róm,
honum við það brá,
kær nam skyggnast kempan fróm,
hvar kom upp hljómur sá.
12.
Raddir fimm þá heyrði hann
hátt lof guði sungu,
sveinninn fór og föður sinn fann
frá með snjallri tungu
að skýrði skikkjubör;
furstinn gekk með fylgdarmenn,
þar falda lögð var vör,
söngur þessi óx nú enn
undrast má það gjör.
13.
Drengir spurðu maktarmann,
hvað mundi slíku valda,
enginn greiða andsvör kann
aptur runnur skjalda,
nema grafa upp gullhlaðs gná,
svo var gjört, og sáu menn
sitja brúði hjá
börnin tvö, sem birti jeg enn
brjóstum hennar á.
14.
Undrast menn og ennþá meir
aðra sjón að kanna,
fagrir hvítir fuglar tveir
við fætur voru á svanna,
svo sem dúfa í sjón;
hátt lof guði sungu sætt
á sólar hæztum trón,
öldin fjekk vel að því gætt,
sem að kom vítt um frón.
15.
Tók að ræða tvinna lín:
minn tignarherrann góði,
sjá þú blíðu börnin þín
burt hrynd sorg og móði,
lágt þó liggi jeg hjer;
sjálfur guð mig sendi þjóð,
að segja við hvað ber,
öllum er búin eymdarglóð,
ef iðrun seinkið þjer.
16.
Töfrarúnir, brígsl og blót
burt frá yður leiðist,
ágirnd, hatur, öfund ljót
úr allra hjörtum sneiðist,
munaðarlíf og morð.
Þjá mun yður þyngsta pín,
ef þessi‘ ei rækið orð,
síðan þagnar silkilín
og sofnar hringaskorð.
17.
Eptir þetta barnið brátt
byrja tók að ræða:
láta mun með líknarmátt
ljúfur drottinn hæða
ljós á landi sjá,
og svo leiði alla menn,
sem eptir slíku gá
í eilíft líf, og síðan senn
sofnar barnið þá.
18.
Ræðu þess þá rjenar hljóð
róma‘ hið annað lysti,
búist öll í bænum þjóð
brátt við dómi Kristi,
hann kemur og kemur snart.
Síðan dó, sem sagt var mjer,
sætujóðið bjart.
Flugu til austurs fuglarnir
með fegursta sólarskart.
19.
Sáu menn, að seimaströnd
sem og börnin ungu
liðið var frá lífi og önd,
lofgjörð drottni sungu
og birgðu búna gröf.
Allir snúum oss sem fyrst
á iðrun gjörum ei töf,
af hjarta biðjum herrann Krist
um heilags anda gjöf.
20.
Hjer í síðstu sagnagrein
í sögðum annálsþætti,
tjáð er um þann trúa svein
hann tæki prestsembætti
sínum lands hjá lýð;
trúr í lund við konginn Krist
kenndi orð hans blíð,
hjartaprúður ljek þá list
um langa æfitíð.
21.
Annálskvæðið úti er
og enduð ræðan stirða,
böguð orðin bið jeg hjer
til bezta mjer að virða
öll heiðursverðug hjón,
guð gefi þeirra gæzkan blíð
gjöri þá ástarbón;
bæti fólk um bragar-smíð,
bezt er að fella tón.