Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Vinaspegill | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vinaspegill

Fyrsta ljóðlína:Forðum tíð einn brjótur brands
bls.3–31
Viðm.ártal:≈ 1700
1.
Forðum tíð einn brjótur brands
bjó við álfur Júðalands;
riddari var, en heitið hans
hermir ekki saga.
Alexander son hans var,
sveinninn afl og hreysti bar;
frægri maður fannst ei þar
fyrri um þá daga.
2.
Með því var hann skilningsskýr,
skikkanlegur og viðmótshýr,
faðir hans sagðist: seima týr
setja í skóla vilja.
Var hann þar um vetur þrjá
vísdóm miklum gjörði ná;
fýstist hann og fróðleik á
fuglasöng að skilja.
3.
Eptir liðin árin þrjú
aptur heim vill ferðast nú;
riddarinn og hans ríka frú
runni fagna branda.
Hann í allri hegðun var
hæversklegur, menntasnar,
daglega þá breytni bar
bænagjörð að vanda.
4.
Kappinn heim þá kominn var
á kvöldi einu svo til bar:
næturgali‘ í glugga þar
galaði hátt úr máta.
Riddarinn tjer við reflaspöng:
raustin sú er fögur og löng,
hver má þýða þennan söng,
þann eg vitran játa.
5.
Alexander anzar til:
allan þennan söng jeg skil,
sízt þó ykkur segja vil,
svo mjer reiðist eigi.
En jeg hygg, ef að er gáð,
ásett munu drottins ráð;
held jeg engin heims um láð
hindra þvílíkt megi.
6.
Riddarinn sjer birta bað
bráðlega, sem fuglinn kvað;
sagðist vilja víst um það
vita þýðing snjalla.
Fuglinn segir, sveinninn tjer,
svoddan tign og hefð mig sker,
þið skuluð bæði þjóna mjer
og þar með herrann kalla.
7.
Reiðast tekur riddarinn,
ræðir svo við arfa sinn:
Dárlegur er þanki þinn,
það að opinbera.
Að jeg skuli þjóna þjer
þín og líka móðir hjer;
áður en þetta þannig sker
þú skalt drepinn vera.
8.
Sveinninn flutti sjávar til –
sannar þetta kvæða spil –
fleygði út á fiska hyl,
fast í raunir dálpa.
Kvað þar skyldi kafna spá,
kemst þú aldrei landið á;
þín djúpsær vizkan dauða frá
dugir sízt að hjálpa.
9.
Sveinninn ekki sakar hót,
á sínum raunum fá menn bót;
örðugt syndir upp á mót
yfir um báru marga.
Ávallt honum áfram dregst,
einatt þó í bylgjum hrekst,
eitthvað þeim til líknar legst,
sem ljúfur guð vill bjarga.
10.
Upp hann komst á eyðisker,
annan dag þar skip að ber,
hrópar á það til hjálpar sjer,
hans þeir gjörðu vitja.
Upp á sína árakló
aðkomandi fólk hann dróg,
og síðan í Egyptó
ungan svein þeir flytja.
11.
Heiðinginn með hreysti grein
herra lands þar skenkti svein;
þóttist ekki þjóðin nein
þar hafa séð hans líka.
Hreina gulli hilmir af
hans jafnvægi aptur gaf.
Kaupmenn sigla kátir á haf
og kvöddu stýrir ríkja.
12.
Leið þar ekki langt í frá
lofðung nokkuð geði brá,
sturlan frek hann stríddi á,
stórar vökur hafði.
Þing ljet stefna sjóli senn,
saman kallar vitra menn,
hilmis vottar hátignin,
hver til nauðsyn hafði.
13.
Öðling málið upp svo bar:
Æruverðu meistarar!
Jeg vil þiggja yðar svar
upp á spurning mína:
Flykkjast að mér fuglar tveir,
frið og ró mjer banna þeir,
upp á múr – kvað oddafreyr –
allar nætur hrína.
14.
Hver sem gefur þýðing þá,
þeirra klið mig skilur frá,
dóttir eignast mína má,
sem margir kjósa vilja.
Þeirra varð ei vizkan greið,
vísir svara á eina leið:
enginn kvaðst það skilja.
15.
Alexander ungur mann
öðlings finnur dróttsetann,
sjóla vil eg – sagði hann –
sönginn fugla þýða.
Laufabaldri þóknast það,
þetta er svo ályktað;
ört þeir gengu inn í stað
inn til kongsins blíða.
16.
Ungur sveinn í öðlings rann
upp svo málið bera vann:
Þessa fugla hana og hann
held jeg vera maka.
Vandamáli einu á
úrskurð vilja konungs fá;
daprir næsta dögling hjá
dag og nótt þeir kvaka.
17.
Það eru efnis upptökin,
að ungan geymir móðirin,
yfirgefur svo ávöxt sinn
– art er þetta hrafna. –
Faðirinn umfram annast hann,
öll þau tínir korn, sem kann,
blóðfjaðrirnar svo með sann
sýgur og vel má dafna.
18.
Af yður vilja fuglar fá
fljótan dóm að leggið á:
hvert að unginn annast má
í aldurdómi þeirra.
Fyrst að móðirin forljet hann,
fylkir aptur svara vann,
föðurinn umfram annist hann
og aðstoð láti‘ ei þverra.
19.
Á burtu flugu fuglarnir;
fylkir þá við sveininn tjer:
Dóttir mín, sú dávæn er
darra gef jeg brjóti.
Með þeim rjetta ráðahag
og ríkið eptir sjálfs míns dag.
Þakkar hinn með prýði plag
plátu dýrum njóti.
20.
Kappinn festi kyrtla gná,
kongi dvelst með æru hjá.
Alexander fræðið frá
fyrst að sinni víki.
Keisari nokkur rjeð þá Róm
rjettrúaður í kristindóm,
helgrar trúar bjartast blóm
barst út um hans ríki.
21.
Keisarinn, sem kynnt er mjer
kæra átti dóttur sjer,
fríðleik yfir fljóðin ber,
Flórentína að nafni.
Skemmu byggði skikkjuþöll
skammt á burt frá konungshöll,
hjelt sig þar í hegðun snjöll
hýr með vífa safni.
22.
Útbrast vítt um álfur lands,
eðla mannorð keisarans,
flykktist þangað fjöldi manns
fylkis tign að þjena.
Komu þar með kurteist geð
kongasynir og jarlar með;
milding sá, sem makt var ljeð
metorð vann þeim ljena.
23.
Alexander fregn þá fær,
fóstra síns gekk borðum nær,
leyfis biður konginn kær,
keisarann finna lysti.
Gakk í friði, fylkir tjer,
fylgi ætíð gæfan þjer;
velkominn aptur vertu mjer
verndaður af Kristi.
24.
Kappinn finnur keisarann,
kvaddi snilldarorðum hann;
skjöldung honum skikka vann
skötulssveins embætti.
Buðlings standi borðum hjá,
beri fæðu‘ og drykk þar á;
forsjállega fram gekk sá,
frómur í öllum hætti.
25.
Kongsson annar kom og þar,
kenndur að nafni Loðvík var,
karlmannlega burði bar,
bæði stór og fríður.
Lögðu saman tjeðir tveir
trúskap sinn og ástir þeir,
engir hafa elskast meir,
öðrum hver var blíður.
26.
En svo líkir eru‘ að sjá
öðrum hver ei þekktist frá;
Alexander innir skrá
er þó kappinn meiri.
Allra handa íþrótt vann,
ekki fannst þar frægri mann;
Loðvík ekki hálft við hann
háði stríð með geiri.
27.
Seinna nokkuð svo til bar,
sendur af kóngi Loðvík var
í það hús, sem átti þar
öðlings dóttir fríða.
Hans svo ástin huganum brá
hennar þegar prýði sá,
af sjer bera ekki má
elskublossann stríða.
28.
Kránkur varð af kærleik þeim,
komst hann því sem naumast heim,
næsta lítið sinnti um seim
sætu þráði unga.
Finna vill því fjelaga sinn,
fyrir lagðist altekinn,
beinin veikjast bleiknar kinn,
bljes hann einatt þungan.
29.
Alexander fór og fann
fóstbróðir sinn ástkærann.
Ertu sjúkur? Sagði hann,
svip er brugðið þínum.
Guð þjer sjálfur gjöri friðt,
get jeg ei vitað meinið þitt,
heldur vildi‘ jeg hjartað mitt
hafnaði gleðskap sínum.
30.
Segðu mjer nú satt þar frá,
sem þig gjör stíða á,
elsku bróðir! ef jeg má
af þjer ljetta kvíða.
Lengur mig ei leyn því hjer.
Loðvík hryggur aptur tjer:
Utan þú bjargir aumum mjer,
jeg mun dauðann bíða.
31.
Þegar jeg döglings dóttur sá,
döpur sorg mig stríddi á,
ekki vil jeg eða má
um það tala fleira.
Fáist ei sú elskuart
önd á burtu líður snart;
svoddan efni svo er vart,
sem þú mátt nú heyra.
32.
Kappinn skilst við krankan rekk,
í kaupstað nokkurn síðan gekk,
gripi marga fríða fjekk,
frægur í manndyggðinni.
Konungsdóttur finna fer,
frúna kveður og þannig tjer:
Sjá! hvað Loðvík sendir þjer,
sjúkur af elsku þinni.
33.
Bregður litum burðugt sprund,
brúðurin þagði langa stund;
tigin mætli tvinna hrund:
Talaðu fæst um þetta.
Margt er gjört fyrir manna orð,
mætust anzar hringaskorð;
komst svo inn fyrir keisarans borð
og kvaddi gram af ljetta.
34.
Annan dag, sem innir skrá,
Alexander kaupir þá
kjörgripi, sem kunni fá,
konungsdóttur færði.
Laufabör við líneik tjer:
Loðvík minn bað heilsa þjer,
sjúkur úr máta sýndist mjer,
sig hann varla bærði.
35.
Geðug anza gullskorð vann:
Guð má sjálfur lækna hann,
enga þar til kúnst jeg kann
krönkum bót að vinna.
Hafi‘ hann þökk fyrir sending sín,
sendu honum kveðju mín;
aptur vjek frá auðarlín
eyðir dýnu linna.
36.
Þriðja daginn aptur enn
Alexander ferðast senn
í kaupstaðinn, þar margir menn
mæta gripi fengu.
Allra handa, er hann sá
eðalsteina kaupir þá,
dýrri færði dreglagná,
þá drósir að borðum gengu.
37.
Laufatýr við líneik þar
Loðvíks kveðju enn fram bar,
sagði að hans sóttarfar
síðkaði mjög til dauða.
Sendir hann yður, seimagátt,
seinast eina góða nátt,
eðalsteina eignast mátt
einnig gullið rauða.
38.
Aunkvast tekur auðarbrú
yfir kappans veikleik nú;
mikil er þín tryggð og trú,
talaði baugananna.
Er hann svo veikur, eg spyr þig,
að hann geti‘ ei fundið mig?
hann ef annars hreyfir sig
honum ei það jeg banna.
39.
Kappinn þakkar kyrtlaeik
kátur, en til Loðvíks veik,
upp hann sezt og kemst á kreik
kæru fann að bragði.
Kvikna tóku kærleikshót,
komu þau hvert öðru mót,
ágæt frú við álmanjót
ástir mikla lagði.
40.
Seinna nokkuð sagt er enn,
sendir þangað komu menn;
lands-Egypta sjóli senn
sagt er dauður væri.
Alexander átti strax
eptir það að morgni dags
ríkur að vitja ráðahags
rjett sem honum bæri.
41.
Keisarann finnur kærleiksör,
kynnti honum af sinni för,
vísir kvaddi veigabör
í virðuglegasta máta.
Loðvík þegar og þornagná
þetta fengu að heyra og sjá,
þeim svo illa þar við brá
þau fóru strax að gráta.
42.
Góði Loðvík, gullskorð kvað,
gæta máttu framar að,
honum áttu að þakka það
þú fjekkst blíðu mína.
Hvar hann fer um heimsins byggð
hans við aldrei gleymum tryggð,
heldur ást og alla dyggð,
eigum honum að sýna.
43.
Kvaddi síðan kappinn hýr
kesjubör og svanna skír,
síðan stje á söladýr
sæmdar þegninn mæti.
Fór svo heim til fósturlands,
fagna allir komu hans,
og síðan fyrir utan stans
erfði konglegt sæti.
44.
Er það sagt, að öðlings frú,
áður en kongi gipt var sú,
utan hjá sjer átti bú,
ung og frísk í beinum.
Alvarlega til Amors lögð,
upp á heiminn frábær sögð,
hún í leyni hvílubrögð
hjelt með kumpán einum.
45.
Síðar nokkru sjóli lands
saman kallar fjölda manns,
brúðkaup skyldi haldast hans
um hvítasunnudaga.
Honum víkur fræðið frá,
framar skal ef Loðvík tjá,
Alexanders saknar sá
seggurinn hlaut því baga.
46.
Annar Kongsson eptir það
eðalmannsins kom í stað,
Geðeon hjet, sá buðlung bað,
borðum þjena náði.
Lymskur það í leyni sá,
löngum hleri stendur á,
að Loðvík unni laufagná,
lofðung þetta tjáði.
47.
Heiptin stór í ræsir rann
riddarann Loðvík kallar hann;
seg mjer, vinur, sagði hann,
satt um ykkar breytni.
Ef þú dylur það um mig,
jeg skal betur reyna þig;
hinn þá tók að sverja sig,
sízt var undanleitni.
48.
Geðeon illa gekk þar að
garpurinn sterki og svo kvað:
Býð jeg þér til stríðs í stað
strax á öðrum degi.
Saklausan jeg segi þig
seggur, ef þú vinnur mig;
gramsson þar við gladdi sig,
þó gjöra á skýrslu megi.
49.
Loðvík kemur fljóðs á fund,
frjettir sagði auðargrund,
Geðeons hefur lymskuð lund
líf mitt sett í vanda.
Sannlega jeg hana bíð
byrji‘ jeg við þann kappa stríð,
finn til ráðin faldahlíð,
frek því meinin granda.
50.
Gilfadóttir gaf til anz:
Gakk þú inn til keisarans,
segðu frægum fylkir lands
faðir þinn sje dauður.
Auðmjúklega öðling þann
orlofs bið þú jarðir hann
og að setja einhvern mann
yfir góss og hauður.
51.
Stillir því með stoltarsið
stefnudaginn færa bið,
djarflega mæltu dögling við,
dugir ei annað núna.
Seg það fram mið sinnið njallt,
svo það heyri fólkið allt,
en þú halda einvíg skalt
eptir reisu búna.
52.
Eptir það í skyndi skjótt
skaltu ríða dag og nótt,
Alexander finna fljótt
fjelagann okkar góða.
Bið þú ríkan stálastaf
stríði þig að leysa af,
ræktu slíkt og ráð mín haf,
refla mælti tróða.
53.
Loðvík inn fyrir lofðung gekk
leyfisbrjef af kongi fékk,
enginn fylgdi ríkum rekk,
reið hann burt í skyndi,
Ber þú honum, baugs kvað lín,
blíða hjartans kveðju mín,
guð eilífur gæti þín
og greiði þitt erindi.
54.
Loðvík sinni flýtti för,
finnur ríkan stálabör,
þá var buðlung blíðu ör
brúðkaup sitt að halda.
Virta kvöddust vinir tveir
verður af þeim gleðin meir,
faðmlög með sjer tóku tveir
tignir runnar skjalda.
55.
Loðvík þá í leyndan stað
lofðung með sjer ganga bað,
sagði honum síðan hvað
sjer til meina bæri.
Legg þú mjer nú lið og ráð,
ljúfi vin af þinni dáð;
er jeg nú á yðar náð,
elsku bróðir kæri.
56.
Vant við kominn víst er nú,
vísir mælti gæddur trú,
því í nótt með minni frú
mun jeg verða að hvíla.
Skulum klæðum skipta við,
skaltu halda brúðkaupið,
að jeg þjer veita ætla lið
ekki skaltu tvíla.
57.
Sem þú kemur í sæng til frúr
sannlega mjer þá vertu trúr,
þig skal jeg leysa ánauð úr,
ef minn dugar kraptur.
Skiptu svo um skrúða þar,
skjöldung stje á gjarðamar,
ferðast svo, en fræða svar
fer til Loðvíks aptur.
58.
Skatnar tæmdu skálahyl,
skemmtu sjer við strengjaspil;
hjónin gengu hvílu til
halda menn að væri.
Drengurinn frá drottning snýst,
dauflegt henni þetta lýst,
tryggur reynast vildi víst
virta maðurinn kæri.
59.
Ellefu nátta taldist tíð,
tók út drottning feikna stríð,
engin sýndi atlot blíð
afrekskappinn henni.
Illa við sinn undi hag,
átti margan raunadag;
fljóðin ung jeg bið í brag
í brjóst um hana kenni.
60.
Vík jeg þangað vestra skeið,
sem vaskur kappinn burtu reið,
gramur lætur gjarðameið
að Grikkjalandi renna.
Kappinn finnur keisarann
kvaddi snilldarorðum hann;
allir þóttust afreksmann
aptur Loðvík renna.
61.
Kominn er jeg með sómasið,
sett að prófa einvígið
Geðeon hinn grimma við,
sem gjört hefur oss að rægja.
Keisarinn mun það sjálfur sjá,
seggurinn reiður mælti þá,
af hann mjer skal umbun fá,
er honum vel má hægja.
62.
Rekkar prýddir rönd og geir
reika út á völlinn tveir,
burtstengurnar brutu þeir,
báðir á frægðir hyggja.
Meiðsla höggið gramur gaf
Geðeon sneiddi höfuðið af,
enti svo sitt óþarft skraf,
opt má satt kyrt liggja.
63.
Riddarinn til hallar heim
höfuðið bar af fundi þeim,
vísir talar, er veitti seim,
varð hann næsta glaður:
Mjög vel hefur þú menntir lært
og málið þitt til lykta fært,
af því þigg jeg þig elska kært,
ó, þú frómi maður.
64.
Kappinn þannig komst í frið,
keisarann mælti síðan við:
Yður jeg um orlof bið
inn til landa minna.
Fljótlega jeg ferðast þarf
fallinn mjer að taka arf,
þegar er búið þetta starf
þengil vil jeg finna.
65.
Með því nú er nauðsyn bráð,
niflung ríki fjekk svo tjáð,
kæri vin, vor kongleg náð
kann því ekki að neita.
Keisara þakkar kempan snjöll,
kvaddi gram og menjaþöll,
honum gjörði hirðin öll
heiður og prís að veita.
66.
Kongur heim til ríkja reið,
randa frægan hitti meið,
allt fór það á eina leið
ástúðlega með báðum.
Þakkar honum þornabör,
þá var dýrðleg veizla gjör;
Loðvík aftur flýtti för
fylkis til með dáðum.
67.
Síðar nokkru sagt er frá
sikling deyði Agrippá,
Loðvíks kongs til kjörinn þá,
keisari varð í landi.
Gekk að honum gæfan öll
giptist ríkri menjaþöll,
var svo hafin veizlan snjöll,
votta jeg mánuð standi.
68.
Aptur víkja orðatal
Egypta um konung skal:
Dögling gekk í drósarsal
drottning kyssa vildi.
Niblungs svarar nistisbil:
nýkomið er þetta til,
að jeg svoddan ástaryl
af þjer finna skyldi.
69.
Ellefu nætur er – því ver –
jeg hef sofið nú hjá þjer,
engin blíðu atlot mjer
orkaðir þú að veita.
Tældir svo í tryggðum mig;
til hvers fórstu‘ að gipta þig?
Illt er að koma því upp um sig
Impótens að heita.
70.
Hún var svo heit og reið,
hlaupandi frá stálameið,
fylgimann sinn fann um leið,
fagnar halurinn vífi.
Við kauðann mælti kyrtlalín;
Kongi skulum við brugga vín,
svo hann beri menjar mín,
meðan hann heldur lífi.
71.
Eptir það – sem um jeg las –
inn gekk hún fyrir kong með glas,
gribban mælti – og gretti fas: –
gott ár! kæri herra!
Sáttabikar okkar er!
ádrykkjuna þigg af mjer,
langræknina legg frá þjer,
láttu reiði þverra.
72.
Milding upp á móti stóð
mælti þá, og kyssti fljóð:
Hjer, mín elsku húsfrú góð,
hef jeg þig svo kæra.
Hugga nú þitt grátið geð,
gleymdu því, sem fyr er skeð;
þjer ef lifa mætti jeg með
mín er sæmd og æra.
73.
Faðir þinn áður eptir sig
til arfs og landa setti mig,
ætti‘ jeg því að elska þig
alla daga mína.
Kongur svo af kerinu drakk,
kæru gaf á móti þakk;
hann þá fyrir hjartað stakk
holdspillingar pína.
74.
Veikur gjörðist vopnaþór
vaxandi sá kvilli fór,
að liðnum vetri líkþrá stór
lofðungs sást á enni.
Lengi sat í læstum sal,
lítt við aðra hafði tal;
gribban fann sinn gamla hal,
hann gekk í sæng með henni.
75.
Var það sagt um vetur tvo
virta maðurinn þjáðist svo,
einatt gjörði augun þvo
og andvarpaði með gráti.
Lengur vildu‘ ei líða hann
landsetarnir spitelskann,
kappar vilja‘ hinn kranki mann
konungs tign afláti.
76.
Bjúgur gekk á burt með staf,
borg og eignum rekinn af,
yfirfluttur egypzt haf
ýmsum raunum mætti,.
Þannig marga vetur var,
víða‘ um landið hraktist þar,
von til guðs þó vísir bar,
að veikleika sinn bætti.
77.
Laufabör af Loðvíks makt
löngum heyrir mikið sagt,
hann á slíku hafði vakt
hátign þá að líta.
Stumrar því með stafinn sinn,
stirður mjög og uppgefinn;
gat svo komist í Grikkland inn,
gjörði hann mjög sjer flýta.
78.
Heim að Loðvíks nefndi stað,
stolta varðmenn leyfis bað:
inn að ganga, en upp á það
allir já til veita.
Öðru fólki aumu hjá
yzt við dyrnar settist þá,
umhugsandi hvernig má
hamingjan sjer breyta.
79.
Skutulsveinum skrafar hann við:
skila því til kongs, jeg bið:
auðsýndu mjer aunun lið
eptir vilja þínum.
Í guðs nafni og Alexandrí,
að jeg megi af keri því
bergja mínum breyskleik í,
sem ber hann að munni sínum.
80.
Sveinninn fór og buðlung þar
boðskap hins, sem kominn var,
þengill gefur þýðlegt svar:
það skal gjarnan vera.
Seggurinn út af salnum gekk,
sem hann til þess leyfi fjekk,
konungsstaup þeim kranka rekk
kappinn gjörði bera.
81.
Lofðung þakkar laufaull,
ljet í staupið fingurgull;
Loðvík hafði linnasull
lundi gefið skjóma.
Sendur kemur sveinninn þá,
setur kerið borðið á;
þengill talar, er þetta sá,
þekkti‘ hann báruljóma:
82.
Alexander, ó, minn vin!
yfir því jeg græt og styn
angraður, það er ei kyn,
ef þú ert nú dauður.
Eða hefur ormalá
yður verið tekinn frá?
Öðling varð í ásýnd þá,
eins og dreyri dauður.
83.
Sjer ei halda kongur kann,
kallar á eintal sáramann:
Hver fjekk yður hringinn þann?
hermið mjer af ljetta,
Enginn maður utan þú,
anzar hinn, á mína trú,
óþekkjanleg er þó nú
ásýnd mín hin rjetta.
84.
Og, hvar er nú, anzar hinn,
ástkærasti bróðir minn!
fagri líkamsarfinn þinn?
fordjarfaður úr máta.
Guð af sinni gæzku og náð
gefi mjer styrk og heilnæm ráð,
þar með meðöl þíð með dáð
þig að græða láta.
85.
Gjarnan vildi jeg vita mig
veikan heldur fyrir þig,
ganga svoddan götustig,
góð væru þau býtti.
Vanmáttugan vellagrjer
vafði Loðvík upp að sjer,
á honum ei ógeð ber,
ástin hylur lýti.
86.
Litlu síðar gramur greitt
getur smíðað húskorn eitt,
þangað fjekk hann lofðung leitt
í leyndum svo hann væri.
Ljúfur herra lætur strax
læknira að morgni dags,
alla vega leita lags
lítinn krapt þó bæri.
87.
Þeirra ráð ei hjálpar hót,
hann fjekk enga raunabót,
keisarinn af kærleiksrót
kristna biðja lætur.
Flatur löngum fjell á jörð,
framdi marga bænagjörð
fyrir ríkan fleinanjörð
fylkir daga og nætur,
88.
Krankan dreymdi kesjurjóð,
kongi væri lækning góð,
keisarans sjö ef sona blóð
sárin á dreifð væri.
Þóttist svara hetjan hrein,
heldur skyldi bera það mein.
en ungum börnum aukist kvein
eða þau nokkuð særi.
89.
Keisara til þá kom ein raust,
kongur hefði á guði traust,
Alexander efalaust
enn má græddur vera.
Veiki maðurinn, var svo tjáð,
veitt til þessa sjálfur ráð,
sem guð af sinni gæzku‘ og náð
gjört hefur opinbera.
90.
Keisari‘ á fætur stóð í stað
stallbróður sinn fann og kvað:
Hefur vitrast þjer um það,
að þú munir græddur verða?
Segðu mjer nú satt um slíkt,
sýn þitt viðmót elskuríkt;
gat um síðir geð hans mýkt
gildur runnur sverða.
91.
Dundi af augum tára tjörn
tiggja var svo elskan gjörn,
þó jeg ætti öll mín börn
yðar vegna að deyði.
Öðling ríkur anzar þá,
auk heldur þeim blóð að slá,
þetta skaltu feginn fá
framar en viltu beiða.
92.
Þá keisarans frú að kirkju gekk
kongur blóðið tekið fjekk,
þar í sjálfur þvoði rekk,
þá fór sem hann vildi.
Svoddan jarteikn sýndi guð,
samt voru börnin ósködduð,
að þau væru aflíðuð
enginn trúa skyldi.
93.
Faðmar hann og fellir tár
fylkir mælti dyggða klár:
Lof sje guði og heiður hár
hjer um aldir alda.
Að minn bróðir ástkærann
jeg fæ líta heilbrigðann,
bráðlega því bið jeg hann
burt sem fyrst að halda.
94.
Eina mílu vegar víst
víktu‘ á burtu, það mjer líst,
menn svo gruna megi sízt,
milding rjeð svo inna.
Láttu boð um byggðir þær
borgar ganga hliðum nær,
að lands Egypta kongur kær
kominn sé mig finna.
95.
Kongaskrúða klæðist skjótt
kesjubör á þeirri nótt,
öðlings sveinar einka fljótt
út með honum ríða.
Litlu síðar svo frá þeim
sendi boð til Loðvíks heim,
að kominn væri af kólgu eim
kongur Egypzkra lýða.
96.
Keisarinn frúnni fregn þá ber,
fagnar hún og þannig tjer:
jeg vil fara út með þjer
okkar vini að mæta.
Kveðjan sú var fögur og fín,
þá fundust þau, að ætlun mín,
milding leiða‘ á milli sín
maktar gramur og sæta.
97.
Pípnasöng og hörpuhljóð
heyra mátti borgarþjóð,
inn þau leiddu örfarjóð
í hið hæzta sæti.
Keisarafrúin setti svo
sjer við hendur konga tvo,
einatt gjörði augun þvo
af fagnaðarkæti.
98.
Keisarinn mælti: Kæra frú!
kemur mjer til hugar nú,
manstu ekki, menja brú,
manninn þann hinn sára?
Er hjer sat við okkar dyr,
engan man jeg slíkan fyr –
því minn herra að þessu spyr?
þorns kvað liljan klára.
99.
Vísir anzar veigalín:
vil jeg spyrja, húsfrú mín,
ef að svoddan eymd og pín
Alexander bæri.
Vildir þú þá vinna til
vísirs heilsu, þess ei dyl,
að þinna sona bauga bil
blóði þvegin væri?
100.
Glöð því játa gullskorð vann,
grunaði sízt um atburð þann,
sagði: guð minn góður kann
gefa mjer börnin fleiri.
Sikling mælti svo er skeð,
sama mann jeg þetta kveð
barna græddur blóði með,
brúðurin á það heyrir.
101.
Brúðurin gjörðist bleik og rauð,
brjóstið kenndi heljarnauð,
meinti‘ að börnin mundu dauð
með andvarpi þungu.
Upp hún stóð af öðlings bekk,
inn í þeirra húsið gekk,
lifandi‘ öll þau líta fjekk
lofuðu guð og sungu.
102.
Þar var gleði um tún og torg
tapaðist bæði hryggð og sorg;
sikling ljet í sinni borg
syngja messu góða.
Loðvík býtti unnareim,
en að liðnum dögum þeim,
keisarinn fylgdi frægum heim
frómum stýrir þjóða.
103.
Dæmdi Loðvík döglings sprund
dauða til á samri stund;
hún með sínum laufalund
loks voru brennd á eldi.
Keisari mildur kærleik af
kongi býtti jötnaskraf,
þar með systir sína gaf;
sezt svo gramur að veldi.
104.
Leið svo fram um langa tíð,
lofðung ekkert háði stríð;
fylkir hafði fyr og síð
fuglsins raust í minni.
Ræsir prýddur rönd og dör,
að riddarans garði heldur för;
undan sendi brynju bör,
að birta‘ af komu sinni.
105.
Riddarinn aptur anza rjeð
auðmjúkustu lotning með:
Mikil æra oss er skjeð,
að vor herra kæri,
hingað kemur að hitta mig
hjer með líka einnig þig;
hjónin bæði hneigði sig
hæversklega sem bæri.
106.
Ræsir prýddur rönd og seim,
riddarans gekk til borgar heim,
hjónin móti hilmir þeim
hæversklega gengu.
Frægum stillir fagnandi,
fjellu bæði sín á knje,
alla ljetu ást í tje
orkað mest sem fengu.
107.
Þegar tækur tími var,
að taka skyldi handlaugar,
riddarinn milding mundlaug bar,
mengrund hjelt á líni.
Virðing honum veittu svo,
vildu konungs fætur þvo,
öðling þetta yfirvo,
að þeim heiður sýni.
108.
Frá þeim sneri fljótt og grjet,
fremja þetta verk ei ljet;
riddarinn – sem rætt jeg get –
reiði talar af – móði:
Lítilmótleg við erum víst,
von er ei að yður lízt,
þetta vilja þiggja sízt,
þú, vor herra góði!
109.
Kongur gekk í klefa einn,
kallar á hjónin lyndishreinn;
áttuð þið ei arfa neinn?
eptir vil jeg frétta.
Hræðsla yfir hjónin flaug,
hann er dauður, sögðu þaug.
Riddarinn meinti og reflalaug,
að ræsir vissi ei þetta.
110.
Hvernig gekk til – hilmir kvað –
hans um dauða‘ og viðskilnað?
Segið mjer nú satt um það,
svo mig leynið eigi.
Óttaslegin urðu hjón,
allt meðkenndu þvílíkt tjón,
á knje fallandi kongs fyrir sjón
kviðu hefndardegi.
111.
Hvar fyrir breyttuð þannig þið?
Þengill talar manninn við,
djarflega með dirfsku sið
drottins móti ráðum.
Jeg er sá hinn sami sveinn,
sikling mælti dyggða hreinn,
hef þó til þess hug ei neinn,
að hefna‘ á ykkur báðum.
112.
Heldur elska eins og ber,
yður á meðan hrökkur fjer;
hræðslan þeirra hjartað skjer,
hilmir forláts biðja.
Feginsgrátur fjell á hann,
faðmar þau sem mjúkast kann,
síðan heim um síldarrann
sínum fylgja niðja.
___________________________
113.
Ljenti gæðum lands um hvel,
ljúfmennskunnar trútt með þel;
ríki sínu rjeði vel,
rækinn lundur skjóma.
Gæddur auði, glæddi frið,
góðan bauð að iðka sið,
ávalt snauðum lagði lið
lofðung prýddur sóma.
114.
Kona hans af kærleik fjáð,
kunn að sæmd, um allt sitt láð,
lýðnum holl að leggja ráð
ljet ei undan draga.
Milding trúr og menjagná
máttu‘ ei hvert af öðru sjá,
þeim var ást og eining hjá
alla þeirra daga.
115.
Frjetti jeg ei af fylkir meir,
frægur hann í elli deyr;
lofsverðugur laufafreyr
líka sinn fær varla.
Guð oss veiti gæfu þá,
góðum dyggðum mættum ná,
vil jeg láta vísnaskrá
Vinaspegil kalla.