Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Lalla-bragur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Lalla-bragur

Fyrsta ljóðlína:Þó þér liggi lífið á
bls.3–8
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Lalla-bragur eftir Sögu-karl. Sögu-karl er dulnefni Þorsteins Erlingssonar skálds.
1.
Þó þér liggi lífið á
leitaðu ekki fúlan ná;
láttu þau sofa, þýin þaug,
þótt þau kúri í öskuhaug;
það er bæði voði og vandi að vekja upp draug.
2.
Aula-grey í sorpi svaf,
svo að vissu fáir af;
ræfils skinnið hnýtt og heimskt
hafði þar um aldur gleymst,
bæði hann og hundaþúfan hefðu gleymst.
3.
Þegar allt var orðið hljótt
einu sinni um kalda nótt,
heldur mikill herðum í
halur gekk að leiði því;
þá var sorg á þessum herðum þyngri en blý.
4.
Þó hann nú gengi að þessum haug,
þá hefði' hann kosið skárri draug;
það var að velja um þetta eitt,
þangað hafði' hann neyðin leitt,
annað hvort var ókind sú eða ekki neitt.
5.
Þulur sínar þar hann gól,
þá komst eitthvað strax á ról;
þegar hann síðan remmdi raust
rytjan upp úr haugnum braust;
hún hafði gengið svöng í sæng og sofið laust.
6.
Þegar hún haus úr haugi rak,
hopaði Máni á skýja-bak,
eins og honum sýndist synd
að særa úr þessa hryggðar-mynd,
máninn hélt að maðurinn vekti upp meina-kind.
7.
Þegar aftur yfir sveit
ofan af himni máninn leit,
sá hann manninn haugnum hjá,
hann var að kara drauginn þá;
mánanum þótti meira' en brjóstheill maður sá.
8.
Hann fór svo að hnauka við
höfuð draugs og efsta lið;
þó hann spyrnti af afli í
ekki fann hann lát á því;
liðurinn skældi í skakka farið skaust á ný.
9.
Það sást minna að það var skakkt,
þegar allt var borðalagt;
hnappa-gull á hala-stað
heldur var nú dittað að.
Ekki var hann þó efnilegur allt um það.
10.
Maðurinn þrekni brosti blítt,
blómlega hafði' hann drauginn skrýtt,
þar sá hvorki þurrð né blett,
það hefði vel mátt kalla nett,
hefði nú að eins höfuðið vilja horfa rétt.
11.
Loksins segir hann: „Lalli minn,
laglega fer hann, skrúðinn þinn.
Vel er nú búin vegleg för,
vilda ég Skúti missti fjör;
hafðu nú við hann handatök bæði hörð og snör."
12.
„Farðu' honum ekki framan að
fantinum arna, mundu það;
það hefi ég til þrautar lært,
það er ekki neinum fært;
best er, að fjandi sé í sæng og sofi vært".
13.
„Litlum böggli, Lalli minn,
lauma ég hérna í vasa þinn;
þessa prjóna þér ég fel,
þeir hafa lengi dugað vel;
æði skal hann af þeim hljóta eða hel".
14.
„Þú verður nú að leita dags
lánist þér ekki að kyrkja' hann strax,
prjónunum mun hann verjast verst,
vitinu skaltu firra prest;
Það væri kannske öllu okkur allra best".
15.
„Trylltu hann þá sem mest þú mátt,
miðaðu á fjanda úr hverri átt,
uns hann lofgjörð eys á þig,
eða fer að blessa mig,
þá mun hann eiga langt í land að lækna sig".
16.
„Vita skaltu vinur minn,
verða mun gildur bitinn þinn,
þegar þú berð mér höfuð hans,
heljar-mannsins vestanlands
og hans hyski allt er flæmt til andskotans",
17.
„Hertu þig nú þar norður frá,
nefndu mig, ef þér liggur á,
yfir þig legg ég anda minn".
„Amen", sagði drengurinn.
Listamaðurinn lét svo fara lalla sinn.
18.
Eins og væri skellt á skeið
skálmaði kempan vestr á leið;
gleiðmynnt tungl úr glufu þá
glotti niður og setti á,
eins og því þætti labbalegur lalli sá.
19.
Vestur í fjörðum eru enn
ýmsir sleipir fræðimenn;
þar er margt af þörfu geymt,
þá hefir fyrir ýmsu dreymt;
þeir hafa ekki, Ísfirðingar, öllu gleymt.
20.
Vestur á sínu setri bjó
síra Skúti í friði' og ró,
tignaður þar af múga manns,
mestur prestur Vesturlands;
þar mun lengi nefnt í nauðum nafnið hans.
21.
Þar að víkur þáttur minn,
þess er getið eitthvert sinn:
einn í stofu um aptan-skeið
yfir ræðu prestur beið;
hann var nú kominn hér um bil á hálfa leið.
22.
Þá er sagt, að það til bar,
þegar fólkið háttað var:
að honum geispa illum sló,
út honum gjörvallt megnið dró;
þar vildi hann nú þrauka samt, en þótti nóg.
23.
Hugsar hann þá með sjálfum sér:
„Sveimar nú eitthvað grátt að mér,
ekki gefst ég upp við það,
enda skal ég þetta blað,
þó að gamli Satan sjálfur sæki að".
24.
Þegar hreint úr hófi gekk,
hallar hann sér að legubekk.
Prestur sofnar undir eins,
ekki vænti hann fjanda neins.
Bágt er að vita vestra þar, nær von er meins.
25.
Aðsókn stundum marka má;
meðan prestur þarna lá,
fannst honum kverkin orðin aum,
andartökin stirð og naum,
verður nú bilt, og vaknar upp við vondan draum.
26.
Að hann þar littla Lalla sá,
lesarinn kannske giskar á;
hann hafði kosið kosta-sess
klofvega yfir bringu prests;
hálsinum leið þó hálfu verr í höndum gests.
27.
Manninum var ei kyrking kær,
kraganum gylta prestur nær,
hnykkir nú til, og herðir að,
hallaðist Lalli mjög úr stað,
svimaður hann úr söðli skaust, og svo fór það.
28.
Óðara' en prestur fékk þar frið,
flýtir hann sér að rísa við;
títuprjónar þúsund þá
þutu' í hann allan til og frá;
Skúta fannst sem skæða-drífa skollin á.
29.
Það var kyn, hver fjandi flaug
frá svo litlum væskils-draug;
meðan undrið yfir gaus,
augunum mest hann hlífa kaus;
presti þótti pilturinn ekki prjónalaus.
30.
Nú hafði hann fengið nóg af því,
nær hann þá svíra stráksins í,
opinn þar og aftur á bak
undir sig hann Lalla rak.
Bágt er að standast sterkra manna steinbíts-tak.
31.
Þegar þú flatur Lalli lá,
liðkaðist honum málið frá:
„Þú hefir," segir hann „sigrað mig,
sendur var ég að drepa þig.
Vant er á göldrum Vestanmanna að vara sig.
32.
„Fyrst ég á nú að þjóna þér,
þá máttu ekki granda mér,
sendu mig ekki á Fjandans fund,
fá muntu aldrei vænni hund,
lofaðu mér að lalla hér enn þá litla stund".
33.
„Finndu nú prjóna fansinn þinn,
fyr en við skiljum, Lalli minn,
þeir hafa gert það gagnið sitt,
gleymdu nú engum, skinnið mitt;
seinna kemur", kvað hann Skúti, kaupið þitt".
34.
Lalla var fuðu létt um það,
lítur nú prestur á og kvað:
„Trúðu mér, ef þú tekur inn
títurnar arna, Lalli minn,
þær munu eyða uppþembingi í annað sinn".
35.
Mörg komu tárin augun í,
áður en tókst að kyngja því;
prestur studdi stöðugt að,
strákurinn varð að gleypa það.
Hamingjan geymi hálsinn minn í hverjum stað.
36.
Nú var hann Lalli leiddur út,
lötraði' hann þá, og gekk í kút,
hálsinn var undinn, húðin blá,
höfuðið enn þá meira á ská.
Presturinn sendi' hann síðan braut, og sagði þá:
37.
„Finndu nú aftur föður þinn,
færðu' honum kveðju, drengur minn,
skildu' hann gleði og gæfu við,
gefðu' honum hvorki ró né frið.
Fylgdu nú ætt hans, fjandinn þinn, í fjórða lið".
38.
Mælt er, að lundin þyngdist þá,
þegar pabbinn drenginn sá,
mest að þessum þrautum kvað,
þegar á kvöldin húmaði' að.
Ýmist vildi' honum öfugt ganga eftir það.
39.
Enda ég svo mín litlu ljóð,
lestu þau gamla söguþjóð,
gallana' á mínum mærðar-slag
máttu gjarnan færa í lag;
lofaðu mér samt að láta' hann heita Lalla-brag.
40.
Lesari gakktu lukku-stig,
lallar engir hitti þig.
Gæti hver að sjálfum sér;
sankti María hjálpi mér,
að ég verði ofan á, ef illa fer.