Grýlukvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Grýlukvæði

Fyrsta ljóðlína:Hér er komin Grýla
bls.111—118
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Grýlukvæði
1.
Hér er komin Grýla
og gægist um hól.
Hún mun vilja hvíla
sig hér um öll jól.
2.
Hún mun vilja hvíla sig,
því hér eru börn;
hún er grá um hálsinn
og hlakkar eins og örn.
3.
Hún er grá um hálsinn
og hleypur ofan í fjós.
Hún vill ekki horfa í
það hátíða ljós.
4.
Hún vill ekki heyra
þann hátíðasöng;
kvartar hún um ketleysi
og kveðst vera svöng.
5.
Kvartar hún um ketleysi
og kjökrar við þá:
bað hún mig um barnið mitt
í belginn sinn grá.
6.
Bað hún mig um barnið eitt,
sem brekin hefði nóg,
sem ýlunum og ærslunum
ekki koma í lóg.
7.
Sem ýlur hefðu og ærslin
og æpi svo þrátt,
syngi ei sín fræði
sífelt og hátt.
8.
Er syngi ei sín fræði
sífellt og vel.
Bíta kvaðst hún börnin
og blæða láta í skel.
9.
Bíta kvaðst hún börnin,
bað hún mig um eitt.
Svo gegndi ég henni Grýlu,
ég gæti það ei veitt.
10.
Svo gegndi' ég henni Grýlu:
„góð börn á ég;
ekki hafa þau ærslin,
né ýlurnar mjeg.
11.
Ekki hafa þau ærslin.
Og ekkert þeirra hrín;
kostulega kunna þau
kvöldfræðin sín.
12.
Kostulega kunna þau
kyrlæti og spekt".
Reiddist hún Grýla
sem rumsvínið frekt.
13.
Reiddist hún Grýla
og rumdi við hás:
„Hér ætla ég að hvíla
í heitum moðbás.
14.
Hér ætla ég að hvíla,
að hlusta til þess,
hvort ekki hrín hún Herdís
né hin dóttir prests."
5.
„Ekki hrín hún Herdís,
hátt sagði ég þá.
Vel syngur hún Valgerður,
víktu þér frá.
16.
Vel syngur hún Valgerður
og víktu þér út".
Beit hún mig í brjóstið,
batt ég þar um klút.
17.
Beit hún mig í brjóstið,
bað ég hana um grið.
Ég gaf henni silung
og selbita við.
18.
Ég gaf henni silung
og síldrekasporð,
tölti hún suður að Tjörnum
og talaði ekki orð.
19.
Tölti hún að Tjörnum
og talaði við hann Stein:
„Eru hér ekki afgangs
ungbörnin nein?
20.
„Ekki hefi ég þau aflögu,"
ansar hann Steinn.
„Syngja þau hér öll
sálminn sinn einn.
21.
Sitja þær og sauma
og syngja versin vönd.
far þú út að Felli
og finndu hann séra Gvönd.
22.
far þú út að Felli
og finndu hann um leið."
Þá varð hún Grýla
svo grimmlega reið.
23.
Þá varð hún Grýla
svo grimmlega ær,
hún beit hann Stein í brjóstið
og blóðgaði nær.
24.
Hún beit hann Stein í brjóstið,
bað hann þá um grið.
Hann gaf henni fisk einn
og flotbita við.
25.
Hann gaf henni fisk einn
og fæddi auman gest,
komst hún út á kórbak
og kallaði' á prest.
26. Kastaði hún á kórbaki
kjánkyrðum þeim:
„Seldu mér hana Sólveigu,
ég sæki þig heim.
27.
Seldu mér hana Sólveigu,
svöng er ég nú,
ekki hef ég ástæðu
nema einspena kú.
28.
Ekki hefi ég ástæðu
nema einspena geit,
skert er mitt skökuhorn
sem Skeggi minn veit.
29.
Skert er mitt skökuhorn
og skenktu mér barn.
Þú átt að vera
svo gustukagjarn.
30.
Þú átt að gjöra
það gustukaverk.
Varla er þér vorkennandi,
vel metnum klerk.
31.
Varla er þér vorkennandi,
veit ég þú átt
keipótta dóttur,
hún kveinar svo hátt.
32.
Keipótta dóttur,
þá komstu hér með;
sá ég hana í Sandvík
með sviplundað geð.
33.
„Sástu hana í Sandvík?"
svaraði ég þá.
„Við sungum þar bæði
sálmversin smá.
34.
Sungum við í Sandvík
sálma fögur vess.
Þú hefir heyrt í Hólana
hljóðin til þess.
35.
„Þú hefir heyrt í Hólana;
höltraðu á stað.
Skundaðu yfir að Skálá.
Ég skipa þér það.
36.
Skundaðu yfir Skálá,
skrímslið forblakt.
Ekki færðu ungbörnin,
af þér sagt.
37.
Ekki færðu ungbörnin
af mér um sinn."
Grenjaði hún Grýla,
sem gauðrifið skinn.
38.
Grenjaði hún Grýla,
greip þá í prest.
Hann var kominn í hökulinn,
og hjálpaði best.
39.
Hræddist hún þá hökulinn
og hátíðasöng;
skenkti hann henni hann Skeggja
hún skaust inn í göng.
40.
Skenkti hann henni hann Skeggja
og skaust hún þá á stað,
yfir um til hans Egils,
vér athuguðum það.
41.
Yfir um til hans Egils.
Úti þar hann stóð,
dregið hafði hún drenginn
og drukkið hans blóð.
42.
Dregið hafði hún drenginn
í dökkum bjargserk;
óttaðist hann Egill
þau ódáðaverk.
43.
Óttaðist hann Egill
augun helblá,
hafði hún þau í hnakkanum,
horfði ég þar á.
44.
Hafði hún í hnakkanum
horn eins og geit;
eyrun lágu á öxlunum,
Egill það veit.
45.
Eyrun lágu í öxlunum,
áföst við nef.
Svo var hár um hökuna
sem hnýtt garn um vef.
46.
Svo var hár um hökuna
og hangdi við bót;
eins voru tennur
og ofnbrunnið grjót.
47.
Eins voru tennur
í óhreinum kjapt.
Óttaðist hann Egill
hennar járnskapt.
48.
Hræddur varð hann Egill
og hljóp inn í dyr;
aldrei veik sér undan
af óttanum fyr.
49.
Aldrei veik sér undan
ódýri því.
Bað hún hann um barnkorn
að beina sér í.
50.
Bað hún hann um barnkorn
að beina sér í sekk.
„Sjáðu", sagði' hann Egill,
„þau sitja innar í bekk".
51.
„Sjáðu„ sagði' hann Egill,
„þau sitja við ull;
lítt eru þau í látunum
leiðindafull.
52.
Lítt eru þau í látunum,
leggja þau ei af."
Reiddi þá hún Grýla
sinn rauðbrota staf.
53.
Reiddi þá hún Grýla
sína rauðbrota stöng,
höggið kom í Hnúkinn,
því hún var svo löng.
54.
Höggið kom í Hnúkinn,
hrökk þar úr skarð,
átján stóru steinarnir
stukku ofan í garð.
55.
Átján stóru steinarnir
stukku ofan í tún,
en þau fóru að yrðast
hann Egill og hún.
56.
En þau fóru' að yrðast,
upp reif hún gin;
gaf sig fram að gleypa
þann góðlynda vin.
57.
Gaf sig til að gleypa
þann góðlynda mann;
feitan átti hann færleikinn,
fékk hann henni hann.
58.
Þennan feita færleikinn
feldi hún og skar,
og svo alla átuna
á öxlunum bar.
59.
Og með alla átuna
æddi hún á burt,
yfir um stökk hún ána
og upp á þurrt.
60.
Yfir um stökk hún ána,
ófæra þó.
Hennar kaldi hláturinn
heyrðist út á sjó.
61.
Hennar kaldi hláturinn
heyrðist út á braut.
Barði' hún þá á Bræðrá
sem beljandi naut.
62.
Barði' hún þar á Bræðrá
svo börnin urðu hrædd;
hún var þá af hlaupunum
svo hræðilega mædd.
63.
Hún var þá af hlaupunum
svo hræðilega þyrst.
Bað hún þá hann Nikulás
að beina sér vist.
64.
Bað hún þá hann Nikulás
um börnin hans þrjú.
Öllum hennar ókvæði
ógnuðu nú.
65.
Öllum hennar ókvæðum
afhenti' hann svar:
„ Lærðu bæn í baðstofu
af börnunum þar."
66.
„Enga bæn í baðstofu
buldra ég syng.
Hlýt ég fyrst að hugsa um
þau Höfðhóla þing.
67.
Hlýt ég fyrst að hugsa' um það
hverju mér er beint.
Betra þykir mér barnaket
blóðugt en hreint".
68.
Bið þú ei um barnaket
á bænum hjá mér.
Farðu", segir hann Nikulás
„því framorðið er.
69.
Farðu „segir hann Nikulás,
„til fjandans á burt."
Hrein hún þá svo hvalirnir
hlupu upp á þurrt.
70.
Hrein hún þá svo hvalirnir
hræddust þann róm;
blóðgaði' hún þá hann Nikulás
með biksvörtum góm.
71.
Blóðgaði hún hann Nikulás
og börnin hans fimm
af því hún var orðin
svo ódáða grimm.
72.
Af því hún var orðin
svo uppfyllt með dramb
Hann gaf henni hrútskrof
og hálfvættar lamb.
73.
Hann gaf henni hrútsmör
svo hún yrði fyllt.
Reikaði hún til Róðhóls
með ráðlagið spillt.
74.
Reikaði hún til Róðhóls
rétt heim á hlað.
Foxið það hann Eirík
finna sig bað.
75.
Foxið bað hann Eirík
að fylgja sér heim.
Ekki eru nú búin
brögðin öll með þeim.
76.
Ekki' eru nú búin
brögðin þeirra öll;
hann gekk á stað með gaglinu
Gægis að höll.
77.
Hann gekk á stað með gaglinu,
gaf hann henni mjöð;
virtist honum hún verða þá
svo viðbrigða glöð.
78.
Virtist honum hún verða þá
svo viðbrigða kát,
bauð hún honum í hólinn,
að borða með sér át.
79.
Bauð hún honum í hólinn,
bar hún hann svo inn.
Ekki var sá orðmargur
Eiríkur minn.
80.
Ekki var þá orðmargur,
út vill hann gá.
Hún vill ei slyng í slægðunum
sleppa honum' þá.
81.
Hún vill ei slyng í slægðunum,
sleppa honum út,
nema' hann vilji beina henni
brennivínskút.
82.
Nema' hann vilji beina' henni
bjórtunnu með.
Þessu lofar Eiríkur
þvert um sitt geð.
83.
Þessu lofar Eiríkur,
þá varð hún hýr,
en hún lagðist afvelta
allt eins og kýr.
84.
En hún lagðist afvelta
af því hún drakk.
Hafði sig þá Eiríkur
hvatlega' á flakk.
85.
Hafði sig þá Eiríkur
hvatlega' á fót,
byrgði hann aftur hólinn
og bar fyrir grjót.
86.
Byrgði hann aftur hólinn
og bar fyrir við.
Reykur varð í hólnum,
hún rumdi sinn kvið.
87.
Reykur varð í hólnum,
hún rumdi ekki smátt.
Best er fyrir börnin
að breka ekki hátt.
88.
Best er fyrir börnin
að byrgja sín hljóð.
Varist þau að vekja' hana,
hún verður þá óð.
89.
Varist þau að vekja' hana
og veri heldur sett,
syngi hvern dag fræðin
og signi sig rétt.
90.
Syngi hvern dag fræðin;
og svo endum vér
diktin hennar Grýlu
sem dragmæltur er.