Formannavísur [úr Fljótum] | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Formannavísur [úr Fljótum]

Fyrsta ljóðlína:Telja gjörum skýrri skrá
Viðm.ártal:≈ 0
Formannavísur [úr Fljótum]

1.
Telja gjörum skýrri skrá,
skatna* hér sem núna
Hrauna* vörum vaskir frá
víkja knör á djúpan sjá.
2.
Degi getinn djarfur Jón,*
drafnar fleti* kunnur,
aflann getur fært á frón,
fram þá setur strengja ljón.*
3.
Ungur Jóhann* arfi hans
öldu kjóa[8] stefnir,
með ósljóa börra brands*
burt á flóa síldrekans.*
4.
Hvetur frýja* seggi sá,
sæfar týgjast voðum,
borða nýjum blakki* á
Björn Elías Hraunum frá.*
5.
Hann Rögnvaldur* ranga jór*
ríður mjaldurs engi,*
hrönn þó faldi hreyki stór*
hlynur skjalda* situr rór.
6.
Ásgríms* niður Árni á mar
otar kiði súða,*
stirt þó viður storma far
stytti griðin sæmeyjar.*
7.
Þorleifs arfi bóndinn Björn*
borða skarfi* ræður,
oft við djarfur Ægis börn*
út á karfa breiðri tjörn.*
8.
Hrannar* rið þó hátt við frón
hóti griða rofi,
Filpus niður færir Jón*
fokku kið* á síldar lón.*
9.
Neytir handa Hermann* þó
hrönn við strandir springi,
hreysti vandur húna jó,*
hafglymjandi skeiðar sjó.*
10.
Hraustur Árni* Hólum frá
hlunna márnum* fleytir,
grönd þó kárni um geddu lá[35]
grunnungs klárnum[36] beitir sá.
11.
Gyltu banda* Guðmundur
gætni vandar trúa,
viður branda* vel greindur
vestan af landi kynjaður.*

[1] Lbs. 4317 4to. Stökur og kviðlingar eftir ýmsa höfunda, safnað hefur Einar Þórðarson frá Skeljabrekku. Þessar vísur eru líka í Syrpu Einars. Þeir menn, sem nefndir eru í vísunum, bjuggu í Fljótum eða ekki langt þaðan um og upp úr 1880. Vísurnar eru líklega ortar um það leyti, en Einar flutti vestur í Húnavatnssýslu vorið 1883.

1.2 skatnar: menn.
1.3 Frá Hraunum í Fljótum var mikið útræði.
2.1 Jón Dagsson (1832–1903) bjó í Fljótum 1863–1883 og Málmey 1883–1885. Var annálaður sjómaður. (Skagfirskar æviskrár 1850–1890 IV, bls. 180–183).
2.2 flet drafnar: sjór.
2.4 ljón strengja (kaðla í siglubúnaði): skip. Í HSk 43 4to (Formannavísur úr Hraunakrók) eru 3. og 4. línan þannig:
„aflann getur flutt á frón,
fram þá hvetur strengja ljón.“
3.1 Jóhann Jónsson (1858–1922) bjó í Efra-Haganesi. (Skagfirskar æviskrár 1850-1890 IV, bls. 180-183).
3.2 kjói: (fugl) öldu kjói: skip.
3.3 bör (tré) brands (sverðs): maður.
3.4 flói síldreka (hvals): sjór. Í HSk 43 4to (Formannavísur úr Hraunakrók) er 4. línan þannig: „beint á flóa síldarranns.“ Þar eru þessar vísur sagðar efir Jóhannes Magnússon á Hraunum.
4.1 frýja: ásökun, ögrun.
4.3 blakkur (hestur) borða: skip.
4.4 Björn Elías Björnsson (f. 27. janúar 1851, d. 21. október 1928), bjó á Austara-Hóli 1881–1885. (Skagfirskar æviskrár 1890–1910 III, bls. 30–31).
5.1 Rögnvaldur Rögnvaldsson (1827–1891) á Lambanesreykjum í Fljótum 1873–1891. (Skagfirskar æviskrár 1850-1890 III, bls. 201–203).
jór (hestur) röng (biti í skipi), ranga jór: skip.
5.2 engi mjaldurs (hvals): sjór.
5.3 hreyki stór: (væntanlega) mjög/afar stór.
5.4 hlynur (tré) skjaldar: maður.
6.1 Árni Ásgrímsson (f. 20. desember 1850, d. 29. maí 1893) bjó í Svínavallakoti í Unadal 1884–1886. (Skagfirskar æviskrár 1890-1910 IV, 9–10).
6.2 kið (kiðlingur) súða: skip.
6.4 sæmeyjar: öldur. Í HSk 43 4to eru tvær síðustu línurnar þannig:
„Þó glymji viður voðirnar
vinda kviður harðsnúnar.“
7.1 Björn Þorleifsson (1834–1905) bjó í Stórholti í Fljótum, síðar í Vík í Héðinsfirði.
7.2 skarfur (fugl) borða: skip.
7.3 börn Ægis (sjávarguðs): öldur.
7.4 tjörn karfa (báts): sjór.
8.1 Ritað hranna í Skagfirskum æviskrám 1850–1890 VI, bls. 153, mun tekið eftir HSk 43 4to. hrönn: alda; hranna rið: brim
8.3 Jón Filippusson (1841–1914), bjó í Saurbæ 1874–1879 og Enni 1879–1883, annálaður sjómaður, flutti til Ameríku. (Skagfirskar æviskrár 1850–1890 VI, bls. 152–154).
8.4 kið fokku (segls): skip. lón síldar: sjór.
9.1 Hermann Þorsteinsson (1843–1915) á Reykjarhóli í Fljótum.
9.3 jór (hestur) húna (siglutopps): skip.
9.4 Tvær síðustu línurnar eru þannig í HSk 43 4to:
„hreysti vanur hlunna jó
háglymjandi skeiðar sjó.“
10.1 Árni Gíslason (1838–1896) á Hólum í Fljótum 1876–1883. (Skagfirskar æviskrár 1850–1890 III, bls. 6–8).
Vísan er svona í Skagfirskum æviskrám 1850–1890 III, bls. 7, mun tekið eftir HSk 43 4to:
Hraustur Árni Hólum frá
húna márnum ræður,
grund þá kárni geddu blá,
grunnug járnum beitir sá.

10.2 már hlunna: skip.
10.3 (land) geddu (fisks): sjór.
10.3 klár (hestur) grunnungs (þorsks): skip.
11.1 gylta banda (innviður í báti): skip.
11.3 viður (tré) branda (sverða): maður.
11.4 Í HSk 43 4to stendur: „ættaður.“