Harmljóð séra Jóns Magnússonar eftir dóttur sína Steinvöru | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Harmljóð séra Jóns Magnússonar eftir dóttur sína Steinvöru

Fyrsta ljóðlína:Gleðst eg, drottinn, af gæsku þín
bls.301‒305
Bragarháttur:Hymnalag: aukin stafhenda
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1640
Flokkur:Harmljóð

Skýringar

Harmljóð sem séra Jón Magnússon orti eftir lát dóttur sinnar Steinvarar árið 1640. Kvæðið er hér tekið eftir útgáfu Þórunnar Sigurðardóttur í Heiður og huggun þar sem það er prentað eftir handritinu Lbs 789 8vo, bl. 19v–21v. Kvæðið er einnig varðveitt í JS 414 8vo og Lbs 172 8vo. Hluti af því er í ÍB 67 8vo. Lesbrigði eru tekin úr JS 414 og ÍB 67.

„Þessi hymni var gjörður í minning Steinvarar minnar litlu og hennar undanfarinna systkina. Hún fæddist anno 1639 en sofnaði anno 1640 í augusto.“

1.
Gleðst eg, drottinn, af gæsku þín,
gleður þú jafnan sálu mín;
þakklætisfórn eg færi þér,
faðir þú ert svo góður mér.

2.
Barnalánið mitt blessað er
best, því að eg á nú hjá þér
afkvæmin þrjú án ómegðar
í fóstri þinnar vellystar.

3.
Kóngsmann gladdist þá köldusótt
af krönkum hans syni burthvarf fljótt
og Jaírus þegar örent víf
uppreis og meðtók stundlegt líf.

4.
Lasarí kættust lífgjöf við
ljúfir vinir að góðum sið.
Þá uppreis sonur aflét sorg
ekkjan fróma í Naínborg.

5.
Konan hefur og kanverska
kát horft á dóttur heilbrigða
sem afmynduð var henni áður sýnd,
ógnarlega af djöfli pínd.

6.
Fornhrelldir hafa foreldrar
fáráðs, sem blindur borinn var,
glaðst þegar sonur sýnina fékk
og sjáandi þeim á móti gekk.

7.
Ef þessir fylltust fagnaðar
fallvölt þó þeirra gleðin var,
því uppreistir urðu allir þeir
aftur að deyja seinna meir.

8.
Hvað framar mætti fagna eg,
ferðuðust börn mín á þann veg
þar líf er þeim og líknin vís,
landtakan þeirra er Paradís.

9.
Hrellir þau aldrei héðan í frá
harmur, vesöld né nokkur þrá,
hvörki svengd, þorsti, sótt né mein,
sársauki sútar, sótt né kvein.

10.
Eg fyrir þeim nú ekki þarf
ómak hafa eða nokkurt starf;
áhyggja sú er öll í burt,
eg hef þá gleði frá þeim spurt.

11.
Gleðifregn þá mér Guðs orð ber,
Guð hefur tekið þau að sér;
ábyrgð er komin öll til hans,
annast þau höndin skaparans.

12.
Þau brestur ei á borði neitt,
brauð lífsins fyrir þau er framreitt,
forsorguð allt til eilífðar,
ei þrýtur vínið fagnaðar.

13.
Forlagseyrir er fagur sá
fóstur víst eiga drottni hjá
og taka þar síðan eilífan arf,
engu fyrir þau safna þarf.

14.
Þau þurfa ei líða högg né hast
sem heimsk börn þau hér títt uppalast;
leyndardóma og lífsins mennt
lausnarinn Jesús hefur þeim kennt.

15.
Rétt vel eru þau ráðstöfuð,
ríkuglega hefur minn Guð
sæmt þau og dýrðarsóma gift,
soddan kaup verða aldrei rift.

16.
Verð eg feginn að vita slíkt,
í vist svo góðri eru haldin ríkt;
skammlífar mínar skepnur þrjár
skína sem stjörnur dag og ár.

17.
Skammlífi þeirra í heimi hér
hlutskipti besta virðist mér,
fyrst langur aldur í lífsins borg
lénast skal þeim fyrir utan sorg.

18.
Heiðrar því Guð hjarta okkar
sem heitum þeirra foreldrar
fyrir himneska heppni þá
að hafa þau fengið þig að sjá.

19.
Blessaður og þinn sonurinn sé,
það sanna dýrðar lífsins tré,
á hvört að þessir ungviðir
inn mega reiknast plantaðir.

20.
Anda Guðs prísum einninn við,
sem innleiddi þau um náðarhlið,
þegar hinn skæri skírnarsár
skepnur þessar laugaði þrjár.

21.
Skepnan síðast þá sofnaði
á sér bar Krists friðarmerki,
kennandi neyðar kynja oft
krosslagði hendur upp í loft.

22.
Eins og hún væri um það viss
að ofan mundi hjálpin Krists
koma og létta krossi af,
krossfesti Jesús þetta gaf.

23.
Mánuði lifði sextán sú,
sætlega deyði hin unga frú,
er hún hinum nú orðin jöfn,
allra veit drottinn þeirra nöfn.

24.
Akurmaðurinn í von sár,
eg gleðst nær lít á torfur þrjár
í sáðjörð þar eð hvílir hold,
herrans fésjóð sú geymir mold.


Athugagreinar

Lesbrigði:

3.3 þegar] + að 414. 9.4 sútar] ÷ 67. sótt] óp 414. 10.1 ekki] ekkert 67. 10.2 eða] né 67, 414. 11.3 öll] 67 endar hér. 13.4 fyrir] + eg 414. 15.4 verða] verður 414.