Harmljóð séra Jóns Magnússonar eftir dóttur sína Guðrúnu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Harmljóð séra Jóns Magnússonar eftir dóttur sína Guðrúnu

Fyrsta ljóðlína:Ferskan söng eg færi
bls.290-294
Viðm.ártal:≈ 1625–1650
Tímasetning:1638
Flokkur:Harmljóð

Skýringar

Harmljóð sem séra Jón Magnússon orti eftir lát dóttur sinnar Guðrúnar árið 1638. Kvæðið er hér tekið eftir útgáfu Þórunnar Sigurðardóttur í Heiður og huggun þar sem það er prentað eftir handritinu Lbs 789 8vo, bl. 12r‒13v. Kvæðið er einnig varðveitt í JS 414 8vo og Lbs 172 8vo. Lesbrigði eru tekin úr hinu fyrrnefnda.
Dótturminning mín til þakklætis við Guð og uppvakningar við sjálfan mig. Gjört í Laufási eftir þann barns af­gang Guðrúnar, sem skeði þann 12. júlí anno 1638. Með tón: Gæsku Guðs vér prís(um).

1.
Ferskan söng eg færi
föður á himna trón;
hjartans herrann kæri
heyrt hefur mína bón
fyrir verðleik sonar síns;
hans nafn heiður þiggi
en hvergi niðri liggi
dýrðin drottins míns.

2.
Guðdóms gæska og kraftur
gaf til yndis mér
barn og burt tók aftur,
sú blessan tvöföld er.
Þetta eg þakka vil
oftar en einu sinni
á ævi langri minni,
já, æ meðan er eg til.

3.
Lof sé lifanda Guði,
lánlegri var gædd
mynd í móðurkviði
mey og líka fædd
á hentugri heillastund.
Hér næst skepnan skírðist,
skír og hrein svo gjörðist
af uppruna illri synd.

4.
Drottinn dyggðaríkur
döfnun henni gaf;
fimm þær fyrstu vikur
í friði og spekt hún svaf
sífellt um sagða tíð.
Enginn á það merkti
að hana nokkuð snerti
mein eða mótgangsstríð.

5.
En þaðan af þyngsla kenndi,
þolandi ærna raun,
fyrst í hægri hendi,
henni svall þar kaun;
óværðist upp frá því.
Þjáð í þrjá mánuði,
það er kunnigt Guði,
hvað átti hún um þau ný.

6.
Grísir oft þess gjalda,
Guðs dómur það er,
sem synda svínin valda,
sannaðist það hér,
skuldalaus skepnan var
veik þó varð að finna
vegna klækja minna
kaun og kvellingar.

7.
Lasaró sælum líktist
í langri graftrarneyð
en um síðir sýktist
og sára kvöl þá leið
allt fram í andlát sitt.
Sé lof sætum Guði
sem sútir þær endaði
og burt tók barnkorn mitt.

8.
Vit og vöxtur bæði
vífi lánaðist
eftir aldursæði,
um það eg hælist,
drottni til dýrkunar,
ei þurfti elli bíða,
ung varð hún fulltíða,
hærur í hjarta bar.

9.
Allur aldur hennar
í veröldu hér
voru að vísu þrennar
vikna sjöundir;
af lífdögum svo varð södd.
Til heimsins hneigð var eigi
því hrumaðist dag frá degi
kraftur, ræna og rödd.

10.
Illir og einninn fáir
eru hér dagar manns,
að ýfast öngvum tjáir
við álög skaparans,
allt gjörir hann við oss vel,
en þó best þegar hann deyðir
og þanninn oss hjá sneiðir
synd og seinni kvöl.

11.
Það mun góðum Guði
gengið hafa til þess
að héðan fljótt með friði
flutti í æðra sess
mjög unga meyjarkind,
svo veraldar eigi villti
né vegum hennar spillti
viðkvæm vonska og synd.

12.
Og fyrst sá gæsku gjarni
Guð, fyrir Jesúm Krist,
unni ungu barni
sem á hann trúði víst,
þá vildi ei hans ást
hana heims á ranni
hér áður lengdarbanni
láta lifa og þjást.

13.
Kristí orð og eiður
um ungbörn sannast hér,
þeirra heill og heiður
himnaríki er,
flekklaus Guðs fundi ná,
ef særast hér í sóttum
með sælum píslarvottum
dýrðlegan dauða fá.

14.
Með soddan farnan sætri
sofnaði frá pín
og nú með Maríu mætri
í meyjaflokki skín
mín dýrðleg dótturkind;
flekklaus, frí við dauða,
fár og kvalir nauða,
heims ósóma og synd.

15.
Hver er nú blessan betri
en börn að vita sín
í svo aðbúð sætri
þar eðlaprýðin skín,
hjá Guði í hæstri dýrð;
hver öllu elskulegri
en þó miklu fegri
en verði skrifuð og skýrð?

16.
Mín og móðurinnar
mesta gleði er það
við vitum velferð hennar
í vænum sældarstað.
Dýrð sé þér þrenning þýð,
sem Guð allsherjar heitir
og henni fóstur veitir
æ um eilífa tíð.

17.
Sæl erum við þegar sjáum
signað okkar jóð
hjá Guði á himni háum
með helgri allri þjóð,
góð er sú gleðivon;
blíðum við biðjum munni
báðum okkur það unni
faðirinn fyrir sinn son.



Athugagreinar

Lesbrigði:

8.6 elli] + að 414. 10.6 hann] ÷ 414