Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Erfiljóð um Tómas Tómasson frá Háagerði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Erfiljóð um Tómas Tómasson frá Háagerði

Fyrsta ljóðlína:Hvað er þér æska?
Viðm.ártal:≈ 0
Erfiljóð eftir hinn nafnkunna hagyrðing og skáld Einar Andrésson á Þorbrandsstöðum um Tómas Tómasson frá Háagerði, einn þeirra er fórst frá Skagaströnd í mannskaðaveðrinu 3. janúar 1887.

1.
Hvað er þér æska?
Hví ert þú svo
missifeng þess
er mjög þú unnir?*
Og hirðir lítt,
þó að hels vástormar
uppræti frjóan
urtagarð þinn.
2.
Öflugur* Ægir
í æsingi
olli tjóni
öldufáki*
er* Tómas hlaut
týna dögum
ýturfrækinn
fyrir auðri strönd.
3.
Ei varstu sjálfráð
er svona féll
(beiskir eru harmar
í bölheimi),
það voru sköp
er skiptu þannig
og alföður lögmál
í árdaga sett.
4.
Sá var myrkvastur
sorga dagur
og erfiðastur
ævi minnar,
þegar er Rán
í reginmóði
krafði hal ungan
í kalda sæng.
5.
Fár var hans jafni
að fremd og snilli,
atgjörvi, dugnaði
og eðlisháttum,
glöggskyggn hann var
og geðsvinnur,*
gætinn í hegðan,
guð elskandi.
6.
Margs var lagið
mætum sveini,
er snotrum hal
henta þykir,
tállaus vinur
og trúfastur,
hóglyndur hvers dags
og hugkvæmur.
7.
Nú er dagstjarna
dyggðugs vinar
dimmum byrgð
dauða skýjum,
en andinn frjáls
með engla grami*
fagnar rór
röðlum ofar,
8.
þó að í úrgu*
unnar skauti
bíði bein
á beði þarna,
gegnum ókomnar
alda raðir,
liðin úr minni
láðs* byggjanda.
9.
Veit ég að alskyggn
anda faðir
lætur þau geymd
en glötuð eigi,
þar til er árgeislar
efsta morguns
dreifa yl
að dusti þeirra.

[1] Lbs. 565 8vo. Kvæðasafn, ýmsar hendur.

1.4 Ofar línu virðist standa, þó óljóst: „(er) þú mest nú annt.“
2.1 Yfirstrikað er „Þá er.“
2.4 fákur (hestur) öldu (sjávar) = skip.
2.5 Hér er strikað yfir „og“ en „er“ ritað ofar línu.
5.6 svinnur = vitur.
7.6 engla gramur (konungur) = guð.
8.1 úrgur = votur, úrugur.
8.8 láð = land.