Geðfró | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Geðfró

Fyrsta ljóðlína:Faðir, sonur og friðarins and
bls.43-55
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Kvæðið hefur Guðrún P. Helgadóttir tekið eftir eiginhandarriti séra Jóns Steingrímssonar á Prestbakka, Lbs. 987 8vo, skráðu um 1780.

1.
Faðir sonur og friðarins andi
fyrst eg beiði þig.
Náð þín yfir mér stöðug standi,
styrk, þú drottinn mig.
2.
Náðugi guð, í nafni þínu,
neyð so verði kvitt,
nú skal varpa út neti mínu
í náðardjúpið þitt.
3.
Fyrst þú hefur einn fyrir alla
angurs þolað pín,
aum manneskja, eg því kalla
upp í dýrð til þín.
4.
Aldrei skal eg af því láta,
ógn þó reynist þver,
til þín kalla, kveina og gráta,
Kristur, gegndu mér.
5.
Innra hjartað of mjög hrærir
angurs pílan stinn.
Líttu á hvörnin sorg mig særir,
sæti Jesú minn.
6.
Stjórntaumana styrk þú mína
á stormveðranna leið,
so mjúka finni eg miskunn þína
í minni hjartans neyð.
7.
Djöfullinn þó að mér æði
örg með skeytin sín,
þá vil eg samt í þolinmæði
þreyja af slíka pín.
8.
Láttu ekki, lausnarinn góði,
lausa sálu mín
frá þér, æðstur friðarins gróði,
fyrir happ né pín.
9.
Þunglega kvelst minn þankinn stirði,
þrautin hjartað sker,
kalla eg undir krossins byrði,
Kristur, gegndu mér.
10.
Góðgjarnasti guð og maður,
gættu að sálu mín,
veistu að eg er veiktrúaður,
vafinn sorg og pín.
11.
Veikari er eg en vatnsins bóla,
veistu það, Jesú minn,
þreytt í reynslu þínum skóla,
mig þjáir krossbyrðin.
12.
Þungar hjartað þrautir beygja,
það í sérhvört sinn
nú er ei til neinum segja
nema þér, Jesú minn.
13.
Láttu ekki lesti hræða,
linaðu neyð og pín,
heldur á mig blíður blæða
blóð úr sárum þín.
14.
Þegar kvöl með þungum kvíða
þrálega hjartað sker,
þín gegnum stungin signuð síða
svali þá, Jesú mér.
15.
Fylgið einrar ferðar minnar
fyrstu sköpun bjó.
heim til bestu borgarinnar
burt frá Jeríkó.
16.
Hrasað hef eg á heiðar svæði,
hrelldur sauður þinn,
sakleysis mig sviptu klæði
synd og djöfullinn.
17.
Ei þeim nægðist yndisklæði
af mér hrífa klár.
Á mig lögðu, bölvuð bæði,
banvæn heljarsár.
18.
Þetta vildi þungt mig hryggja,
þreut ei greiddist smá.
Hálfdauð hlaut eg lengi liggja
leið glötunar á.
19.
Heimurinn með háði og spotti
hratt mér fram hjá gekk,
að mínum nauðum gálaus glotti,
gilda sorg eg fékk.
20.
Lögmál guðs með svipur sínar
sviða og kvöl mér jók,
ýfðist kvöl, og undir mínar
of mjög svíða tók.
21.
Sólin öllum svipt var krafti,
særð á hejar stig.
Djöfuls illa ginip gapti,
gleypa vildi mig.
22.
Varð á nauðum varla endi,
vafin rauna hryggð,
annað sá eg ei fyrir hendi
en angist, kvöl og styggð.
23.
Þar mig gjörðu þrautir spenna,
þrálega brann og kól,
í austri sá eg upp mér renna
eina fagra sól.
24.
Sú réttlætis sólin fróma
sæl og blessuð skín
út um lönd með ástarljóma
ofan kom til mín.
25.
Sefaði sú sólin bjarta
sorg og hryggðar fans
og mér sýndi elsku hjarta
opið skaparans.
26.
Öllum nauðum af mér hnekkti,
angurs linaði pín,
Jesúm Kristum þá eg þekkti
þar hann kom inn til mín.
27.
Hann mér kveðju góða greiddi,
gjörði að lækka sig,
ástar faðminn út so breiddi
upp að reisa mig.
28.
Gæskuríkur guð og maður
glöggt mér nærri stóð,
af elsku til mín alfjötraður,
um hann rann þá blóð.
29.
Mjúkt faðmandi í miskunn sinni,
mjög þá tæpt eg stóð
Allri hjartans angist minni
á sinn manndóm hlóð.
30.
So var banvæn sóttin illa,
sem mig hafði nist,
hart hún sló með hörðum kvilla
herrann Jesúm Krist.
31.
Sem minn tók að svíða skaðinn,
sálin græddist mín,
allur var hann undum hlaðinn,
angri, hryggð og pín.
32.
Sonur guðs af sárum grættist,
sorg var þung og löng,
hér með á hans herðar bættist
hörð guðs reiði og ströng.
33.
Föngunum veitti frelsið sanna,
fljótt útleysti þá.
Illt ranglæti allra manna
á hans herðum lá.
34.
Þar til hönum þrautin stríða
þrengdi fyrir oss,
Jesús, lífsins lambið fríða,
látinn hékk á kross.
35.
Blessað lambið, blóði þvegið,
burt tók synd og pín.
Æ, hvað hefur þig dauðs til dregið
dárleg vonskan mín.
36.
Allar léstu undir blæða
út fyrir brotin mín.
Eg vanmegnast um að ræða
ást og gæsku þín.
37.
Drottinn hefur með dauða sínum
dregið lífið mitt
helvítis frá hryggðar pínum
heim í ríkið sitt.
38.
Opnar mér þín andlátsstundin
inngang himnaranns
á míns elsku föðurfundinn
fyrir orðið hans.
39.
Best kann hjúkra barni sínu,
burt er neyð og þrá.
Skapari minn, í skjóli þínu
skært eg ljóma þá.
40.
Brátt mun mig á brjóstið leggja
blessaður sonur þinn.
Eru þá faðmlög okkar beggja
algjör, fullkomin.
41.
Helga þú mér hæga líka
hvíld á akri þín,
nær sem gjörir gæsku slíka,
gleðjast beinin mín.
42.
Þar reis upp á þriðja degi
þekkur Maríu son,
að eg dauðleg eflaust eigi
upprisunnar von.
43.
Við gröfina skal eg gleðjast mína.
geymd eru þar mín bein.
Við básúnu, bróðir, þína
burt eg geng alhrein.
44.
Líkaminn þó liggi og rotni
leir og moldu í,
samt lifir hjá sælum drottni
sál mín angurs frí.
45.
Þó á mig leggi angist alla
aumur heimurinn,
samt mun mig í sælu kalla
sjálfur lausnarinn.
46.
Þó fuss og hatur flestra þjóða
og fátækt gjöri mig hrjá,
Jesús er það góssið góða,
er gefst mér himnum á.
47.
Minn brúðguminn blóma fríði
blíðkar mína lund,
það er vel, þó þín eg bíði
þessa litlu stund.
48.
Í orðinu hér á þér þreifar
oft mín trúarhönd,
mitt hjarta þig ríkan reifar
rétt með ástar bönd.
49.
Þó mér gjöri heilsan hafna
og hrinda í sorga móð,
orði drottins eg vil safna
í minn trúarsjóð.
50.
Íklæddist þér, englasmiður,
eg fyrir skírnarflóð,
sálu mína særða styður
sjálfs þíns hold og blóð.
51.
Hvör mér þetta brauðið brýtur,
blessuð veri sú hönd,
og Kristi blóð í kaleik flýtur,
það kætir hrellda önd.
52.
Sá, sem huggar sálu mína
og seður á andlátstíð,
bið eg hljóti blessan þína
bæði fyrr og síð.
53.
Sá, sem við mitt særða hjarta
sæta lækning fann,
Jesú lífsins ljósið bjarta
ljómi í kringum hann.
54.
Fær nú ekki djöfullinn djarfi
dregið mig frá þér,
þó hann í sínu heiftarstarfi
hugsi að ógna mér.
55.
Þó hann mér fyrir sjónir setji
syndaþungann minn,
örvæntingar orð upp hvetji
örg með skeytin stinn.,
56.
samt er Jesú sálarfróður
syndabótin mín,
hann mig styður, gæskugóður,
gefur þol í pín.
57.
Hjartað byggi heilagur andi,
huggun öllum lér.
Haf þig burtu, heljarfjandi,
hættu að ógna mér.
58.
Þó keppist þú með kænsku þína
að krenkja trúarsafn,
samt er skrifað á sálu mína
sæta Jesú nafn.
59.
Þetta kann þig hrekja og hræða,
hrinda í vítis glóð,
þú munt, rotin skemmdar skræða,
skríða í vítis glóð.
60.
Veistu það ei, heljarhundur,
að hér ertu maktarlaus,
minn hefur bróðir brotið í sundur
bölvaðan þinn haus.
61.
Lendi á þér, ljónið grimma,
lestir, skömm og fár,
köld brennandi kvalar rimma
þig kvelji um eilíf ár.
62.
Aldrei skaltu rönd við reisa
reiði guðs og manns,
sú þig brenni eilíf eisa,
ógn og bræði hans.
63.
Allt hvað Jesús, guðs son, gjörði
gott til lausnar mér,
að hita, báli og bruna verði,
bölvaður Satan, þér.
64.
Þú hefur nú ei með mig meira,
myrkra svívirðing,
eg er lauguð drottins dreyra
dávæn allt um kring.
65.
Flý eg til þín, frelsarinn sæti,
fegin, og tak við mér,
sanna gef mér sálarkæti,
sjá, hvað þreytt eg er.
66.
Láttu ekki, lausnarinn góði,
lengur hrekja mig
Satan mitt í syndaflóði,
sárt grátbæni eg þig.
67.
Samviskunnar eldinn illa
útslökk fyrir þitt blóð,
so eg megi flokk þinn fylla
og feta á lífsins slóð.
68.
Herrann Jesú himins og landa,
hægan gef mér blund,
meðtak þú minn mædda anda
á minni dauðastund.
69.
Svalaðu mér á sjálfs þíns blóði,
sálin þyrst er mín.
Ljúfur Jesú, lausnarinn góði,
langar mig til þín.
70.
Meðan í heimi hér eg hjari
hjálpaðu, Jesú, mér,
til umvöndunar ei mig spari,
eg so lifi þér.
71.
Helgum klæð mig heillasóma,
herrann Jesú klár,
so eg megi sjá þinn ljóma
sæl um eilíf ár.
72.
Hef eg nú í hættum vanda
hryggðar byrjað tal,
gjört þau ljóð af guðdóms anda:
Geðfró heita skal.
73.
So skal lykta lítinn óðinn,
lof sé drottinn þér.
Þeir, sem vilja læra ljóðin,
lifi þeir blessaðir.