„Ljáðu mér vængi“ | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

„Ljáðu mér vængi“

Fyrsta ljóðlína:„Grágæsa móðir! / ljáðu mér vængi“
bls.23
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:0
Flokkur:Þulur
„Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi“,
svo ég geti svifið
suður yfir höf.
Bliknuð hallast blóm í gröf,
byrgja ljósið skugga tröf,
ein ég hlýt að eiga töf
eftir á köldum ströndum,
ein ég stend á auðum sumarströndum.
Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til,
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.
Lof mér við þig létta fley
lítið far að binda;
brimhvít höf ég óttast ei
eða stóra vinda.
Okkar bíður blómleg ey,
bak við sund og tinda,
bak við sæ og silfurhvíta tinda.
Eftir mér hún ekki beið, —
yst við drangann háa
sá ég hvar hún leið og leið
langt í geiminn bláa,
langt í geiminn vegalausa, bláa.