Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Stutt moldarrækt gjörð minni framliðinni systur, Kristínu Pálsdóttur . . .* | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Stutt moldarrækt gjörð minni framliðinni systur, Kristínu Pálsdóttur . . .*

Fyrsta ljóðlína:Lof sé þér, Guð, fyrir líf og deyð
Höfundur:Gunnar Pálsson
bls.518-527
Viðm.ártal:≈ 0
Stutt moldar rækt,
gjörð minni framliðinni systur,
Kristínu Pálsdóttur,
sem í Guði burtsofnaði á 16. ári síns
aldurs Anno 1739, þann 17. Novembris,
en var grafin þann 22. Ejudem, af
hennar eftir lifandi bróður,
Gunnari Pálssyni
Tón: Um dauðann gef þú, drottinn, etc.

Lof sé þér, Guð, fyrir líf og deyð,
lof fyrir hryggð og kæti,
allt hefur þú vort æviskeið
afmarkað, náðarinn mæti,[1]
ekkert skeður fyrir utan þig,[2]
öll þín stjórnan er dásamlig,
gef eg þess jafnan gæti.

Einn smátittlingur ekki á jörð
án þíns vilja kann falla,
þó enn framar um þína hjörð
þér, guð, er hugað alla,[3]
þú telur öll vor höfuðhár,
hvört spor, mánuði, daga og ár,
svo ekkert má út af halla.[4]

Í þér lifum og erum vær,
í þér, minn drottinn, hrærunst,
í þér vort lífið upptök fær,
í þér vaxandi nærunst,
í þér fram göngum alla stund,[5]
í þér hafandi vöku og blund,
í þér burt héðan bærunst.[6]

Frá móðurlífi mig hefur leitt
mildin þín gæskuríka,[7]
háska öllum og hættu eytt,
heiðra eg dásemd slíka;
foreldra góða fékkstu mér,
fróm börn hafa þau getið af sér,
lof sé þér fyrir það líka.

Allt hvað þú hefur oss tillagt,
ásta faðirinn mildi,
engin tunga það út fær sagt,
enn þó það gjarnan vildi,
föðurinn misstum flest öll smá,
fóstraði oss samt þín gæzkan[8] há,
so ekkert skorta skyldi.

Þó fyrstu bræður fæli þrír
fjörið í hendur þínar,
samt hefur þú svo, drottinn dýr,
dregið fram stundir mínar,
að tólf hefi eg mín systkin séð,
sjálfur þrettándi talinn með,
dásemd þín aldrei dvínar.

Nú í dag heyrði eg fyrst þá fregn,
fylltunst[9] eg sútar kafi,
að ein mín systir góð og gegn
gefið upp andann hafi;
hann er færður í himininn
og hjá þér fagnar, drottinn minn,
á því er enginn vafi.

Manndygð og hugvit Guð henni gaf,
gott dagfar meyna prýddi,
liðu svo fimmtán árin af,
að ekkert móti stríddi,
móður sinni með ljúfri lund,
líka systkinum nokkra stund
hógvær og auðsveip hlýddi.

Síðan þá vildi sér í hönd
sjálfur Guð hana búa,
setti að henni sóttar grönd,
svo réð högunum snúa,
misseri, frekar:[10] minna en ár,
mæddist hún þannig lyndis klár,
á Guð sem gjörði trúa.

Þolinmóð sína byrði bar,
bað Drottin líkn sér veita,
um annað sinnti ekki par
en þess hlutskiptis leita,
hrærðist það bænahrópið við,
huggun sendi, miskunn og lið
hans ástar þelið heita.

Æskilegan fékk endadag
eftir tilbúning fríðan,
loksins náði þeim listihag
að líta sinn Jesúm blíðan,
fyrir armæðu farsæld hlaut,
fyrir helsæng Abrahams skaut,
sæl að eilífu síðan.

Blandast nú saman í brjósti mér
bæði fögnuður og græti;
fagna eg því hún frelsuð er
og flutt í himneskt mæti;
náttúran býður eg sakni samt
systur minnar með geðið kramt,
þess trú eg enginn þræti

Mitt hjarta er enginn harður steinn,
sem hvörgi náir að blotna,
minn kraftur er ekki kopar neinn,
sem kann ei snart að brotna;
Guð veit, af hvörju eg gjörður er,
Guð þekkir allt, hvað býr í mér,
til hans má eg hér um vitna.

Af móðurlífi einu við
út vorum klakin bæði,
ólustum saman upp með frið
undir Guðs þolinmæði,
hvörnin mátti þá höggva nær,
hvar fyrir skyldi hún mér ei kær,
getin af sama sæði?

Sárt varstu haldin, systir mín,
sá eg það nokkurn tíma,
aumkuðumst vær yfir eymdum þín,
ei kunnum þær burt rýma,
móður höndin, sem mjúkust var,
mátti þér ekki bjarga par,
bágt er við Guð að glíma.

Ekkert höfðum vér annað ráð
en þig sjúka befala
hans föðurlegri hjálp og náð,
hjúkrun sem lætur fala,
enginn kunni það utan hann,
er þig í fyrstu mynda vann,
önn fyrir þér að ala.

Mál og vit lénti mildin hans,
meðan þig sóttin þjáði,
indælan fögnuð innra manns
andinn heilagur tjáði,
sofnaðir loksins sætt og hægt,
soddan andlát var mjúkt og þægt,
sem Guð þér gefa náði.

Öll er nú búin ungdóms brot
ást hans þér kvitt að gefa,
himneskrar sælu hefur þú not,
harm þinn svo vildi hann sefa,
eftir stundliga eymd og pín
englunum lík í dýrð þú skín,
aldrei skal eg það efa.

Líkaminn þinn, sem lá hér hætt
langsamri þjáning undir,
tekur nú hvíld og sefur sætt
sáður í vígðar grundir,
þar til í efstu upprisu
öndinni með og holdinu
fagnaðar verða fundir.

Fullvel man eg, þá fæddist þú,
frétt hef eg um þinn dauða,
fagna eg þínu frelsi nú
fyrir blóð Jesú rauða,
honum sé æra, heiður, prís,
hann einn er góður, mildur, vís,
hirðirinn sinna sauða.

Þinni jarðar eg fyrst ei för
fjarstaddur þéna kunni,
þessi moldar rækt þér skal gjör
þakknæm að síðustunni;
ræktarlaust blóð mitt rétt þá var,
ef rásir þess til skyldunnar
heitrar ei hefði runnið.

Einskis góðs kann eg óska þér,
allt gott hefur þú fengið,
alls góðs þarf eg að árna mér,
æ þess á mis hef gengið.
Kveð eg þig svo með kærleiks ást,
kemur sú tíð við munum sjást,
það líður ekki lengi.

Guð minn blessaður, gef þú mér
góðrar stundar að bíða,
meðan í veröld vefst eg hér,
virztu fyrir mig stríða,
þar sem eg á nú þessa von,
þýðasti Jesús Davíðs son,
kann eg ei neinu kvíða.

Þú, Drottinn, ert minn vegur vís,
villast kann eg því eigi,
þú ert sannleikur sá eg kýs,
svíkur hann mig aldregi,
þú varst mitt líf, þá lifnaði eg fyrst,
líf mitt ertu, meðan hér fæ gist,
líf mitt á dauða degi.

Fyrst þú ert, Guð, eitt lifandi líf
og lífið í þér hefur,
hef eg þá trú, nær linnir líf,
líf eilíft mér þú gefur;
að sér faðmar mig elskan þín,
aftur á móti trúin mín
örmunum um þig vefur.

Þú ert af guði gjörður mér[11]
gnægst speki í kenningunni,
réttlæti þitt mín sálin sér
í syndakvittuninni,
í hegðan lífsins helgun mín,
himnesk er orðin gæzkan þín
og endurlausn í pínunni.

Þú ert minn hirðir, þú ert mitt ljós,
þú ert mín leiðarstjarna,
þú ert mitt yndi, þú ert mitt hrós,
þú ert heill Adams barna,
þú ert minn skjöldur, þú ert mín sól,
þú ert minn Guð og voldugt skjól,
þú einn kannt vondu varna.

Veittu, Jesús, þá miskun mér,
meðan við lætur hjara,
af trúu hjarta að þjóna þér
og þar til ekkert spara,
englarnir beri öndu mín
í Abrahams faðm, þá lífið dvín,
svo kýs eg í friði fara.

Í þínu nafni andann dreg,
andast í þínu nafni,
í þínu nafni andaður eg
upprís í þínu nafni,
í þínu nafni upprisinn
upprykktur verð í himininn,
gæddur sælunnar safni.

Lofi þig, Guð, mitt líf og sál,
lofi þig hugur og sinni,
lofi þig heyrn, lofi þig mál,
lofi þig vit og minni,
lofi þig allt, hvað lifir og er,
lofi þig allt, hvað blífur og þver.
Lof þitt aldregi linni.
Amen.

[1] Adv.

[2] e-,A.

[3] G-, A.

[4] út nf. A.

[5] [Hér hefur G.Sv. líklega verið að velta fyrir sér að rita „framgöngum“ í einu orði?].

[6] [Hér er á þremu stöðum „n“ sem ARK vill breyta í „m.“ Þarf að athuga viðkoamndi orðmyndir í samráði við KE].

[7] -ds-.

[8] -ds-.

[9] [Ath. „n“ eða „m“].

[10] frekar, m-, A.

[11] ?