Þagnarmál | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þagnarmál

Fyrsta ljóðlína:Þar um getur þagnarmál
Bragarháttur:Ferskeytla án forliða
Viðm.ártal:≈ 1750

Skýringar

Ljóðið var einnig birt í annarri útgáfu Snótar 1865.
1.
Þar um getur þagnarmál
þrátt í geði mínu:
velmakt öll og veraldarprjál
veltir blómi sínu.
2.
Vinsæld, auður, vald og makt,
viska, lán og hreysti,
lífsins fegurð, æra og akt
útkulnar sem neisti.
3.
Hvað er veröld, hennar glys,
hefð og art sem beiðist?
Reykur, bóla, funi, fis;
fellur, hjaðnar, eyðist.
4.
Lán er best að lykja sig
litlum undir feldi;
heimsins prýði hégómlig
háttar senn í eldi.
5.
Öll náttúran er að sjá
ellimörkum hlaðin;
vindar, hauður, vötn og lá
votta sinn skapnaðinn.
6.
Ísar hlæðast yfir mold,
eyðist bjargarfengur,
bylgjur æða, fyrnist fold,
flest til þurrðar gengur.
7.
Eldar brenna grjót og grund,
grasið jarðar kylur,
skepnur kenna feigðarfund,
fargar húsum bylur.
8.
Víða skriður vinna tjón,
vegu fordjarfandi;
vatnariður fergja frón
föstum leir og sandi.
9.
Græðir óðum gremur sig,
grandi skipa veldur,
beinir þjóðum banastig,
byggðum skaða geldur.
10.
Þessu framar sækir sveit
sjávarafla skortur;
fyrir það sama fæst um reit
forði matar kortur.
11.
Veiði farga vangæftir,
vindar bylgjum róta,
sultur marga sundur sker,
sældarvistir þrjóta.
12.
Það, sem forðum þótti múr
þessu föðurlandi,
happaskorðum hallast úr
heill þó friðar standi.
13.
Umbreyting er orðin mest
atorkunnar líka;
fátæklingar finna brest,
fatast nokkuð ríka.
14.
Þéttir mæðu þó sumpart
þegna fæðumáti;
armur klæðist og í skart,
ekki ræður státi.
15.
Brastar þjóðin barnarík,
brauðs er gróðinn seldur;
hver amlóðinn fágar flík,
fast í móðinn heldur.
16.
Vefur klútum fálkafrón
firrtur sútarmörkum;
happajútur hags við tjón
hoppar út á jörkum.
17.
Reynir hortug ræðugöng,
rétt í gorti smitar;
æ þó skorti fæðuföng
fötin sortulitar.
18.
Snauðu búi bjargar ei,
börn og hjúin sveltir;
naumast kúa hirðir hey,
hjörð um þúfu veltir.
19.
Skuldaseigur, skiptiveill,
skemmir leigumála;
til öreigu hrapar heill
happafeigum gála.
20.
Sumir feita sig um of,
sölu beita störfum,
út um sveitir kaupa krof,
kosti neita þörfum.
21.
Hafa réttan hundasið,
hakka mettir fantar,
en sem þetta er út svolgið
allt hið létta vantar.
22.
Hirðuleysi hér og þar
hinum geysir voða;
varla meisi við bjargar,
vill ei hreysi stoða.
23.
Beitir engi, treður tún
trassafenginn kauði;
sefur lengi hann og hún,
hirðir enginn sauði.
24.
Kvífénaður missir máls;
með er það í gátum,
bikkjur laði bæ til hálfs,
baulur vaði í sátum.
25.
Þursinn snauði þetta veit,
þykir auð ei saka;
hímir kauði, hvað sem leit
hans búnauðir maka.
26.
Feyir bæði föt og skó,
flest armæðan lúði;
gefur næði görpum þó
gisinn klæðadúði.
27.
Amboð fatar aðgjörðir,
ull og matur fargast;
hvað sem klatar, ónýtt er,
eins og skatinn bjargast.
28.
Heyin skaðar, húss um dý
hnés má vaða bleytu;
þanninn baðar aulinn í
óþrifnaðar veitu.
29.
Börnum verður sama að sök,
sóma skerðir lengur;
sér á herðum bera blök,
bann að erfðum gengur.
30.
Vinnuhjúa vandræðin
vaxa nú ei minna,
sum ótrú og sérplægin
söfn í búi grynna.
31.
Hundraðskaupið heimtar sá
haddarlaupi veldur;
þiggur staupið ofan á,
allt í raupi geldur.
32.
Er íbyggur augnaþjón,
eins og tryggur væri
en ódyggur undan sjón
ef sér hyggur færi.
33.
Vanar tíðum verkefnin
Viðmáls-blíðu hróið;
hvinnsku níðir hagleik sinn,
hvergi síður tóið.
34.
Vinnugripum veitarans
vélaripill háir;
hinum skipun húsbóndans
hvergi svipa náir.
35.
Arsinn klórar eitt umfar,
eifir bjór á mundum,
sefur, slórir hér og hvar,
hefur óra á stundum.
36.
Vanur rápi vangann klær,
víls í tápi slyngur;
kjaftar, glápir, hvimar, hlær,
hönd í kápu stingur.
37.
Því, sem beiða bóndinn vann,
buldur eyðir hinna,
svo það neyðist sjálfur hann
svalagreiður vinna.
38.
Vítur eigi þola þó
þessi grey af neinum;
knefa reigja; karl minn, ó,
komdu, segja; reynum.
39.
Ei má vita okkar hver
öðrum hita gefur;
eg get slitið út hjá þér,
en þú kritið hefur.
40.
Fyrir krakka þína og þig
þó eg skakka bíði,
engu þakkar, ætíð mig
eins og rakka níðir.
41.
Þá eg ræ um rastirnar,
ryð og plægi hauður,
aldrei vægir þú mér þar
þó eg lægi dauður.
42.
Illa fer ef þurfa þræll
þinn (sem er af mönnum)
skuli eg vera; sértu sæll!
Segi eg þér upp önnum.
43.
Upp í hári herra síns
hæðinn dári stendur;
út svo gár í æði svíns
eins og Kári brenndur.
44.
Þannig haga sumir sér
síður aga tepptir;
þernur slaga, því er ver,
þeim óragar eftir.
45.
Frestar víma verkum á
vinnutíma hneita,
þá þær híma, kúra, kjá,
kveða, stíma, neita.
46.
Málum tengja marglætið,
mundir engja‘ að kolli;
setur lengja lystar við
leik í drengja solli.
47.
Eftirsjón ef örugg þver,
öðrum þjóna af létta;
víta hjón, en vinna sér,
verkatjón árétta.
48.
Sumar dækjur feyja flest,
fatabrækju safna;
sokkastækju sinna mest,
sem órækjur drafna.
49.
Firna langan festa dúr,
fýlukrangann bítur,
leppsur hanga lörfum úr,
lukt af anga þýtur.
50.
Þó kaupgjaldið þægt sé veitt,
þeim að haldi kemur
sem það aldrei nefnist neitt;
nudda, malda fremur.
51.
Hinna spjátur er við of,
ekki mátann hirða;
sér í státi siðalof
sinniskátar virða.
52.
Búrapíkur berast á
beint við ríkisfrúna;
vaðmálsflík er virktasmá
vorðin slíkum núna.
53.
Stífinn teygja stikufald
stóran spegil viður;
klæðistreyja kostar gjald,
klútar eigi miður.
54.
Látúns taka lindum þær
lendaþak að skorða;
frunsur blaka földum nær,
flest er makað borða.
55.
Sveipa stundum silkin þrjú,
svo við grundir blankar,
hálsinn, mundir, heilabú,
hvað sem undir vankar.
56.
Raddargöngin reyra þétt,
róm og sönginn tæmir:
blóð í vöngum blánar slétt,
barka þröngin ræmir.
57.
Hendur breiðast hálfermum,
hettir reiðar prunka;
gotann skreiða glitsöðlum,
girnast veiða junka.
58.
Þegar brúðarbekkinn á
búningsprúðar flakka
til sambúðar taka þá
tötralúðann blakka.
59.
Síðan geisa í bústngsbopp,
byrja reisu kæra:
trog, dall,eysil, ask né kopp
ekki í hreysið færa.
60.
Voðir, dýnur vantar fljóð,
vistir fínar líka;
skuldir hrína, skrækja jóð,
skortir lín á kríka.
61.
Flest ákærir þörfin þá,
þykir ærið stúra;
bóndinn, mær og börnin á
bjálfa-gæru kúra.
62.
Svona státið sumra fer,
sæld í gráti brynna;
vistaspjáturs vífum er
vert að láta minna.
63.
Bús til safna betra er að
björg og hafna trássi
en að drafna í óþrifnað
eður kafna í stássi.
64.
Þetta og annað því um líkt
(þó með sann að að heyra)
lýstur bann á lánið ríkt,
lesa kann eg fleira.
65.
Margs kyns tjón í allri ætt
undir krónu Dana
Ísafróni háir hætt,
hófs er nón á rana.
66.
Viður mesta vanbrúkun
vín, er berst að landi,
færir versta fordjörfun,
fer sem pest eyðandi.
67.
Mörgum grikkja mökum því
máta skikk af hrekur
sú ofdrykkja sem um bý
sveitum þrykkja tekur.
68.
Veikir sinni, verkar tjón,
visku hlynnir banni,
deyðir minni, deyfir sjón,
drekkir innra manni.
69.
Margra láni móti slær;
mörgu ráni hlaðinn
margur dándumaður fær
marga smán í staðinn.
70.
Prestum hallar drykkjudá,
dómarar falla nærri,
bændur lalla eftir á,
aðrir bralla smærri.
71.
Önnur færist eðla jurt
ísa kær að grundum;
margan ærir dúðadurt,
drepur nær á stundum.
72.
Eins og beit á almenning,
usla reitum grefur;
tóbak heitir þetta þing,
þungar smeitir gefur.
73.
Fýsn úr æði fær til þess
fúna sæðis margur;
brennir, snæðir, bryður hress,
blautt sem fæði vargur.
74.
Tóbaksmok ef þrýtur þá,
þeir með rokum flakka;
buddur sloka, baukinn, já,
buxnapokann hakka.
75.
Lengi bið um litla stund
lífsins frið af tekur;
hremmir kvið, en hrakar blund,
hausinn riða skekur.
76.
Vinnst þeim engin verkaró,
víls á dengja kliður;
annars kengjast upp í hró,
allir hengjast niður.
77.
Þó hinn armi, það eg sver,
þiggi varma og fæði,
tóbaksjarmur í honum er
eins og harmakvæði.
78.
Veitist ekki vilgjöf enn
voluðum sekkjahreyfir;
á hann blekking æðir senn
angur þekkja leyfir.
79.
Fer og tætir sölusokk,
sýldum fæti sprangar,
eður í kæti keyrir brokk,
kaupin lætur banga.
80.
Þar til skauði skellur fár
skuldunauðir viður,
firrtur brauði, soltinn sár,
sýpur dauðans hviður.
81.
Hafni lífi heljar smeit,
herðir kíf að biðja,
eftirá drífur út á sveit
ektavíf og niðja.
82.
Sjálfur eigi vill í vist
verkaþreying hafa;
heilsa, segir, mín er misst,
má eg þeygi grafa.
83.
Síðan flýgur sveit í kring,
sér út lýgur bráðir;
þannig sýgur þurfaling
þar til hníga báðir.
84.
Svoddan gægur múga manns
meinar hægum sessi;
er óvægur innan lands
orðinn sægur þessi.
85.
Vinnubleyði, verkatál
vols í leiðu svalli,
skuldaneyðir, níðsla, prjál,
nægtum beiðir halli.
86.
Kargir steyta kvið um geim,
kryfja, reyta sjóði;
dreyra heitan drekka úr þeim,
dyggðin sveitir blóði.
87.
Öllu standi öfgar hér,
allur vandi nærist,
öllu landi aftur fer,
allt í blandi hrærist.
88.
Ríkir plægja, reyta, flá,
rotnir ægja, stúra;
hinir slægja, þreyta, þjá,
þessir prægja, lúra.
89.
Ýmsir kúgast innbyrðis,
einnig þrúga vinum,
falsa, ljúga, mæla á mis,
merginn sjúga úr hinum.
90.
Þrjóta læt eg Þagnarmál,
þar um fæta lengur,
hygginn bæti Hárs í skál,
hvað til mæti gengur.