Upphafning Inönnu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Upphafning Inönnu

Fyrsta ljóðlína:Lafði alls sem er, skínandi björt
Höfundur:Enhedúanna
bls.14. árg, 2016, bls. 185–190,
Bragarháttur:Óháttbundið ljóð
Viðm.ártal:≈ 2025
Tímasetning:2016 (2300 f.o.t.)

Skýringar

Sjá umfjöllun þýðanda um ljóðið og höfundinn í Són, 14. árg. 2016, bls. 181–184.
Lafði alls sem er, skínandi björt.
Réttsýn kona sveipuð mikilfenglegum ljóma, elskuð af An og Úras.
Hofgyðja himinsins, með hina stórfenglegu kórónu,
sú sem elskar höfuðdjásn réttsýninnar, [djásnið] sæmir stöðu hofgyðjunnar.
5.
Þú hefur fest hönd á hin sjö lögmál [djásnsins] alls sem er.
Lafði mín, þú bindur hin miklu lögmál um höfuð þitt,
þú lyftir lögmálunum, þú hefur lögmálin í hendi þinni,
þú safnar lögmálunum saman, þú heldur lögmálunum fast upp við brjóst þitt.
Líkt og [mikilfenglegur] dreki spúir þú eitri yfir fjöllin.
10.
Þegar öskur þitt, líkt og öskur Iskurs, ærir jörðina, getur Ezina ekki ræktað korn sitt.
Flóð sem æðir yfir fjöllin,
þú ert Inanna, fremst meðal allra á himni og jörðu.
Lætur brennandi eld rigna yfir Landið,
An gaf þér lögmálin sín, Lafðin sem ríður um á ljóni,
15.
þú sem mælir hinar heilögu skipanir An.
Hinar miklu athafnir eru þínar, hverjum er gefið að skilja þær til fullnustu?
Rústari fjallendisins, þú gefur storminum styrk,
elskuð af Enlil, þú vekur ótta í Landinu.
Þú stendur, [tilbúin að hlýða] fyrirmælum An.
20.
Lafði mín, fjöllin beygja sig fyrir gný þínum,
óttaslegið stendur mannkynið frammi fyrir þínum hrikalega dýrðarljóma og ofviðri,
slegið þögn bíður það þess sem á eftir kemur.
Þú grípur hið ægilegasta af öllum lögmálum þess sem er,
þá opnast þröskuldur táranna.
25.
Fólkið gengur leiðina sem liggur að hinu mikla húsi harmsins,
átökin fara fram undir [vökulu] auga þínu.
Lafði mín, þú mylur tinnusteininn með krafti tanna þinna,
líkt og æðandi stormurinn, æðir þú áfram,
líkt og rödd stormsins sem brýtur og ber, brýtur og ber rödd þín.
30.
Þú skapar háreysti við hlið Iskurs,
þú veldur örmögnun ásamt hinum tortímandi stormum,
en fætur þínir þreytast aldrei.
Sorgarsöngur er kveðinn á balang-trommu harmaljóðanna.
Lafði mín, hin mikilfenglegu Anuna-goð
35.
flýja undan þér að hinum molnandi haugum, líkt og fljúgandi refir.
Þeir [þora] ekki að standa frammi fyrir ofsafengnu augnaráði þínu.
Þeir [þora] ekki að lyfta höfði sínu frammi fyrir ofsafenginni ásýnd þinni.
Hver getur róað hamslaust hjarta þitt?
Dýrleg heift hjarta þíns verður ekki kæfð.
40.
Lafðin hressir skap sitt, Lafðin lyftir hjarta sínu upp.
Ofsi þinn verður aldrei haminn, þú elsta barn Súen.
Lafði, yfirboðari hinna [fjarlægu] fjallalanda, hver ber nokkuð á braut frá fold þinni?
Er þú reiðist fjallgörðunum sölnar [korn] Ezina.
Hin miklu borgarhlið eru alelda,
45.
blóði er hellt í fljótin, fólkið neyðist til að drekka.
Þau færa þér sjálfviljug herlið sitt í böndum,
þau leysa sjálfviljug upp sínar fremstu hersveitir fyrir þig,
þau senda þér sjálfviljug sína hraustustu ungu menn í þína þjónustu.
Í borgunum þar sem áður ríkti dans og gleði, ríkir nú ofviðri.
50.
Lýtalausu ungmennin eru rekin áfram í hlekkjum til þín.
Bærinn hefur ekki kunngjört þér að fjallendið sé þitt,
hefur ekki kunngjört að það sé runnið undan rifjum föður þíns,
þú mælir hið klára orð og staðurinn færist undir fætur þína á ný.
Umönnun gripahúsanna er þér ekki lengur hjartfólgin.
55.
Kona mælir ekki lengur ljúflega við maka sinn,
hún ræðir ekki lengur við hann í húmi nætur
um sín leyndustu hjartans mál.
Trygglynda villikýr, þú elsta barn Súen!
Lafði! Þú sem ert æðri [sjálfum] An, hver ber nokkuð á brott frá þér?
60.
Drottning drottninganna, [handhafi] hinna sönnu lögmála þess sem er.
Æðri þinni eigin móður, þeirri sem gaf þér líf, þeirri er ól þig upp með skínandi hjarta,
margfróð og vís, Lafði allra hinna [fjarlægu] fjallalanda.
Lífsandi fólksins, ég flyt þér heilagan söng.
Hið sanna goð, rétthafi lögmála þess sem er, stórfenglegt mál þitt hæfir tign þinni.
65.
Réttsýna kona hins djúpstæða hjarta, hins klára hjarta, ég skal segja frá lögmálum þeim [er þú hefur til umráða].
Ég gekk inn í skínandi bjart klaustrið,
ég er æðsta hofgyðjan, ég er Enhedúanna.
Ég bar körfu safnaðarins, ég söng gleðisöng,
en mér var gefinn matur hinna liðnu, [líkt og] ég væri þegar dáin.
70.
Ég nálgaðist birtuna en birtan var of heit.
Ég nálgaðist skjólið en stormurinn breiddi yfir það.
Munnur minn, eitt sinn sætur sem hunang, er nú fullur af hráka.
Hlutskipti mitt, að létta skap, er horfið í rykið.
Súen, segðu An frá Lugalanne og örlögum mínum,
75.
An mun rétta hlut minn, An mun frelsa mig.
Segðu An frá nú þegar!
Konan mun hrifsa örlög Lugalanne frá honum,
jafnt fjöll og flóð liggja frammi fyrir fótum hennar.
Konan er upphafin, borgir skjálfa frammi fyrir henni.
80.
Stígi hún fram, svo hjarta hennar megi kólna gagnvart mér.
Ég, Enhedúanna, þyl bænir mínar fyrir þig,
fyrir þig flæða tár mín líkt og hinn sæti bjór.
Skínandi Inanna, ég segi við hana: „Settu ákvörðun þína til hliðar“.
Vertu ei mædd vegna Dilímbabbar.
85.
Hann breytti hreinsunarathöfn hins ljómandi bjarta An.
Hann stökkti An á flótta, burt frá Eana.
Hann óttast ekki nálægð hinna miklu goða.
Hof allsnægta og fegurðar er nú uppurið,
hann gekk inn í hofið, nú er hofið auðn og tóm.
90.
Hann gekk inn við hlið mér í vinsemd en nálgaðist mig í raun af öfund.
Mín guðdómlega villikýr, hlauptu á eftir þessum manni, gríptu þennan mann!
Hver er staða mín [nú], á hinni heilögu jörð?
Megi An rigna ógæfu yfir land þeirra sem hófu uppreisn gegn Nanna.
Megi An tæta borgir þeirra í sundur,
95.
megi Enlil slíta örlagaþræði þeirra,
megi hið grátandi barn ekki finna huggun í faðmi móður sinnar.
Lafði, [heyrir þú] sorgarsönginn óma?
Skildu sorgarskipið eftir við fjarlægar strendur.
Er dauði minn vís vegna minna kláru söngva?
100.
Nanna minn hefur ekki skorið úr um mál mitt,
hann tryggir glötun mína hér í landi ranglætisins.
Dilímbabbar hefur ekki kveðið upp úr um mál mitt,
hverju skiptir það hvort hann hefur kveðið á um það eður ei?
Hann stendur sigurreifur í hofi mínu. Hann rak mig þaðan burt,
105.
lét mig fljúga líkt og svölu út um gluggaop. Lífskraftur minn er uppurinn.
Ég ráfa meðal akasíutrjánna í hinu framandi fjalllendi.
Hann svipti mig mínum réttmætu klæðum sem æðstu hofgyðju.
Hann kastaði til mín rýtingi og dálki, kvað þá vera það skraut sem hæfði mér.
Einstaka Lafði! Þú sem ert elskuð af An!
110.
Megir þú snúa þínu ljómandi hjarta aftur að mér.
Ástmær Úsúmgalanna.
Mikilfenglega Lafði, sem stendur á hátindi himins og sérð yfir allt,
Anuna-guðirnir lúta höfði sínu fyrir þér, þú leggur ok þitt á þá.
Lafði, við fæðingu varst þú lægra sett en þeir,
115.
nú ert þú æðri hinum miklu Anuna-guðum!
Anuna-guðirnir kyssa nú jörðina við fætur þínar.
En mál mitt hefur ekki verið uppgert, þótt að fjandsamlegur úrskurður hafi verið uppkveðinn, líkt og hann væri minn eigin úrskurður.
Ég fól ekki umsjá hins blómstrandi beðs á hendur einhverjum öðrum,
ég trúði ekki neinum öðrum fyrir orðum Ningal.
120.
Skínandi æðsta hofgyðja,
Lafðin sem er elskuð af An, mildaðu hjarta þitt gagnvart mér.
Ég skal kunngera, ég skal kunngera! Ég lofsyng ekki Nanna, ég kunngeri mátt þinn!
Það skal kunngert að þú ert jafn mikilfengleg og himininn!
Það skal kunngert að þú ert jafn víðfeðm og jörðin!
125.
Það skal kunngert að þú gjöreyðir uppreisnarlöndum!
Það skal kunngert að þú ærir landið með öskri þínu!
Það skal kunngert að þú mölvar höfuð [líkt og] tré!
Það skal kunngert að þú rífur í þig líkin líkt og hundur!
Það skal kunngert að blik augna þinna er ofsafengið!
130.
Það skal kunngert að þú lyftir þínu ofsafengna augnaráði!
Það skal kunngert að augnaráð þitt leiftrar!
Það skal kunngert að þú ert óbifandi og óvægin!
Það skal kunngert að sigurinn er ávallt þinn!
Ég lofsyng ekki Nanna, ég kunngeri mátt þinn!
135.
Mikilfenglega Lafði mín, æðri öllum!
Lafði mín, elskuð af An, ég kunngeri ofsa þinn!
Ég hef ausið glóandi kolum í kerið, ég hef undirbúið hreinsunarathöfnina.
Esdamkug-hofið bíður þín, mildaðu hjarta þitt gangvart mér!
[Þar sem hjarta þitt] var fullt, æðsta Lafði sem öllu stjórnar, flyt ég þér þennan söng.
140.
Megi söngvarinn endurtaka orð mín á hádegi,
þau sem ég hvíslaði að þér í húmi nætur:
„Líkt og maki þinn hef ég verið tekin til fanga, líkt og barn þitt, er mér haldið nauðugri.
Ofsi þinn er æðisgenginn, hjarta þitt ósefandi“.
Fullkomna Lafði, sem hefur völdin í fundarsalnum,
145.
hún hefur gengist við bæninni.
Hið ljómandi hjarta Inönnu hefur snúið til baka.
Hin milda dagsbirta gælir við hana, fegurð hennar snýr til baka, þokki hennar margfaldast.
Líkt og mánaskin, blikar óendanleg fegurð hennar.
Nanna gægist út til að sjá hið sannlega undur
150.
og móðirin Ningal blessar hana.
Dyragættin ber henni kveðju sína.
Æðst allra kvenna, tign þín er dásömuð í söng!
Þú sem tortímir fjalllendinu, þú sem An úthlutaði lögmálum alls þess sem er!
Lafði mín, þokki þinn umvefur þig! Inanna, ég syng þér þennan lofsöng!