Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Kvæði af hrafni og tófu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af hrafni og tófu

Fyrsta ljóðlína:Þegar veður- brosleit blíða
Viðm.ártal:≈ 1875

Skýringar

Kvæðið er fært inn á Braga eftir vélriti Helga Hallgrímssonar á Egilsstöðum upp úr handritinu Fjölni fíflska.
1.
Þegar veður- brosleit blíða
breiddist út um loftið víða,
röðull yfir ekru skín,
miðlaði henni morgungáfu,
mörgu og fögru blómin sváfu
í mjúkri kjöltu móður sín.
2.
Settust þau með sögukornið
sönglandi [í] myrkrahornið
sem er henni samlitast.
Gott er að varast háðið hrekkja,
heimsins sið og skyldu þekkja,
hinu góða að halda fast.
3.
Efni þetta ætti gylla,
er því lítil fremd að spilla,
sögulaun vill sagan fá.
*Hún þó sé af hrafni og tófu
hentir lítt þeim gáfnasljóu
henni rétt að halda á.
4.
Eftir sínum eðlisháttum
undir léku bragðaþáttum
á náttúrunnar næmis spil.
Enginn vil eg ýta lái
eigin breytni heldur gái,
öngvan meiði það eg þyl.
5.
Eitt sinn gekk um auða haga
ungur sveinn í fyrri daga
Höfðabrekku afrétt á.
Ferðasögu sína greindi
sínum vin og öngu leyndi
þegar liðið langt var frá.
6.
Öldunganna sannur sómi
sagði mér í hægu tómi.
Svona hef ég sögu heimt
að sveinninn hefði sér í hjarta
sannleikann og manndáð bjarta
eins og dýran gimstein geymt.
7.
Unglingsins það yndi vakti,
eftir honum sporin rakti
heppinn seppi hlýðninnar.
Allt hvað kunni augað kenna
eftirtektin mundi spenna,
foldin heldur fölleit var.
8.
Hljótt var allt í auðnu vinda,
yrmilsægur skriðkvikinda
inni’ í fornum fylgsnum bjó.
Hrafn uns leit á háu barði,
huga fyrr en nokkurn varði
holtaþór einn þangað dró.
9.
Fundin eru fróns á vegi
fyrst um sinn en skilin eigi,
nú skal þessu bletta blað.
Yngismannsins augun fyllti
undrun bæði og ferðir villti
að horfa á það þau höfðust að.
10.
Fögur rann þar farveg steina
foldar undin spegilhreina
klettagili einu í.
Urðarbrekkur barði áin,
bragðadýr og sverða Þráinn
sundur skildu á foldu frí.
11.
Bauganjóti bágt gekk stilla,
beinvarg því hann vildi spilla
krumma og tófu kveðju þar.
Ljúft tilhneiging leynt bað hann
laumast ekki burt þaðan
fyrr en leiknum lokið var.
12.
Í því krummi eygði tófu
örvar strax um hugann flóu:
Ó, að bráð þú yrðir mér.
Eins og sæir hrafns í hjarta
hrótetrinu litarsvarta
nærri gat hann *sjálfum sér.
13.
Því á sig komin eins var tófa,
öld sem kallar dyggðasljóa,
stundi við og stakkst um koll.
Klókan þenkti krumma að veiða,
kænskunnar í snöru leiða
út í breiðan banapoll.
14.
Valt sem kefli eftir urðu,
allan kroppinn steinar murðu,
ekki gaf þó af sér hljóð;
höfuð teygði, hala og fætur,
hafði á því sveinninn gætur,
staðnæmdist á sléttri lóð.
15.
Krummi þrífur krukkspá sína,
í kjölinn tók og gaupnir blína,
– aldrei fyrr sá atvik slíkt.
Þangað eins og örin flýgur
yfir þar sem tófa hnígur,
þuldi eitthvað þessu líkt:
16.
Ertu, systir, eiturstungin?
Æpti krummi, táraþrunginn.
Hefur öngvit hrifið þig?
Ef þú liggur andarvana
út í dauðann skal eg flana,
sjálfur deyða sjálfan mig.
17.
Margur kann um frónið fríða,
fljúga, ganga, synda, skríða.
Hyl þú mosa hjarna bú.
Fá mun nóg af fegurð þinni
fantarnir að ætlun minni.
Óvarliga liggur þú.
18.
Hefur þú undir höfði þínu
harðan stein, að viti mínu.
Ekki má eg eygja slíkt.
Hvílu vil eg ljúfa ljá þér,
liggðu undir vængnum á mér.
Ból þitt vildi eg mega mýkt.
19.
Hrópar nú með hörmung stærri.
Heldur er mér vatnið fjærri.
-Áhöld bresta eyðistað.
Langt er eftir læknir meina,
löngum verður hollt að reyna,
höndin sjálfs, ég hætti á það.
20.
Hjá mér hef eg bíldinn búna
bara ef eg þyrði núna
eina henni undu slá.
Skal þá hryggð og hugargæði
hrinda mér í slíkt *forræði
þessum vandavegi á.
21.
Ekki skaltu að því flasa,
um þig kanntu sjálfan rasa,
máské gegnum setjir sig.
Eins og prúður Páll minn séra
púkinn sjálfur má það gera.
Með forsjá best er framgirnin.
22.
Hvað skal þá um soddan segja
svona ef þú hlýtur deyja
börnum, maka og frændum frá.
Veit eg fæðist vart þinn líki,
vort hið stóra dýraríki,
skarð mun fyrir skildi þá.
23.
Yfir þér skal augað vaka
ekkert mein svo kunni saka
líkið þitt á banabekk.
Yfir því mun eg síðar syngja
þá söguna birti landshöfðingja
hvörnig tófa af heimi gekk.
24.
Tófa mælti í hugarhljóði:
Heyrðu, vinur málaóði,
kálið sopið ei er allt.
Þó að brúkir þessar veiður
þarftu ei verða svona gleiður,
feigum hvofti hjala skalt.
25.
Hirði eg lítt um hræsni þína,
háð og smjaður máttu brýna
eins og viltu yfir mér.
Sæktu, eg mun vomnum verjast,
við mig er þér hægt að berjast
til ef að þú treystir þér.
26.
Handalaus á hólminn kem eg,
hvorki mál né deilu sel eg,
brynjulaus er búkur minn.
Vera má eg vareygð finni,
verði hált í þetta sinni
hátt þó reiðir hamarinn.
27.
Sorgarflagg og miskunn mjúka
miður fer af láni brúka,
parruk það ei prýðir þig.
Aldrei snæddi eg unga mína
oft þó mæddi hungurs pína
öllum gæsku grunni mig.
28.
Hægt er þeim sem hafa völdin,
hugvitsmennt og otursgjöldin,
við þau lágu að leika sér.
Fallið verður hærra hrafni
hátt ef þá úr vinda safni
fellur lágt og lýtur mér.
29.
Heyrði ekki hugarmálið,
harður eins og verkað stálið,
krummi önnum þakinn því
síst gat hann af svipnum dregið
svoddan hugsun gæti legið
hjartans leyni innan í.
30.
Vinda undan vængjum hrekur,
voðalega kippi tekur,
ýmist fram eða aftur fló;
gapir, orgar, gogginn brýnir,
gjörvallan sig tófu sýnir.
Blóðdrekk ekki bregður þó.
31.
Hún þar lá með hugprýðinni,
hvörgi veik frá stefnu sinni.
Hrafninn öfugt hrekkur frá.
Vaða tók í villu og svíma,
vefði tófu dauðans gríma
nauðaköldum nábeð á.
32.
Var nú orðinn vígamóður,
víðförull og *undra hljóður,
hvíldir kaus um hálfa stund
svo hann gæti *boðið betur
banaspjót, og skolla tetur,
þar sem lá í léttum blund.
33.
Heiftin stundum hratt á flótta
hrakti vareygð, slægð og ótta.
Hvað við annað sveif á svið.
Sér hann þá við sóknir branda
svo búnar ei megi standa,
hugsar nú að herða sig.
34.
Og sér biður enn að duga,
orku, brögð og vígahuga.
Mikils þótti þurfa við.
Léttur sér i loftið ryður,
loks á jörðu steypist niður,
gleypa vildi greytetrið.
35.
Sem Gehenna grimmdar andi,
ginið, klær og vængi þandi.
Allt úr lagi fiðrið fer.
Höggorrustu hvína lætur,
hvetur ekki tófu fætur
þó bana vissi búinn sér.
36.
Yfir henni lét á lofti
leika pílur sér úr hvofti
eins og þéttast örvadrif.
En sem henni hvurki dugar,
hræsni, brígslin, *frýjun hugar,
sýnast mátti lokið líf.
37.
Glumdi og hrein í góma salnum,
gini sneri niður að valnum.
Hennar ekkert hárið rís.
Ýmist jörðu ilþorn rífur
eða hátt í lofti svífur.
– Lá sem áður lappadís.
38.
Hrafninn var úr hýði nærri
horfinn öllu lagi fjarri,
ham afklæddur hreystinnar.
Ætlar mæi spenntur springa,
spíru þrífur valds óringa,
hermir tófu hvör hann var.
39.
Allt í mínu væga valdi
vinda undir háŭ tjaldi
lífið þitt og aŭðnan er.
Ef þú vogar við að dyljast
voða skýlu við að hyljast
skulum sjá hvör skjöldinn ber.
40.
Mikill dáðadrengur er eg,
dug og hreysti minni ver eg
varnarlausa verja þig.
Eins og ljónum lög og svæði
leik eg þar til fell af mæði,
heppin varstu að hitta mig.
41.
Eins og væri elding lostinn
að honum sótti vana þorstinn
urðar nöðru a níðast á.
Óttinn veik um síð úr sæti
svo hann fékk það eftirlæti,
tófu snerti hryggnum hjá.
42.
En svo snart að enginn sá það,
utan sá sem horfði á það,
líður gegnum leynigöng.
Öngva tekur tófa kippi
til þó krummi buxum vippi
með kollhúfum og krásarsöng.
43.
Kringum tófu á knjánum fer hann,
í kroppnum ekki lífsmark sér hann;
horfir nú í ýmsa átt
Valkokkandi vígs um svæði,
vonar hrifinn ósjálfræði,
hreyfir spaugi og spjallar hátt.
44.
Æ hvað sárt mig í þig langar,
ýla mínar garnir svangar,
á þér stinga mitt eg má.
Krásin er til kosta soðin,
kóngur finnst mér hingað boðinn
þar sem hlutinn að eg á.
45.
Síst eg skil að soðning þessa
sóknarharðir af mér pressa
þori ríkir ræningjar.
Þar eg geng næst þengli vorum,
þykist hver í mínum sporum
mest til vinna máltíðar.
46.
Nóg til hennar hef eg unnið
að hjarta mitt er nærri brunnið,
þolugur ei þoli við.
Fjaðrir læt eg fimleiks njóta,
fer eg á þér lögin brjóta
þó landið kosti líf og frið.
47.
Ef eg væri af þér mettur,
æ hvað mundi fínn og sléttur
brúni *flauels frakkinn minn.
Menn ef skildu málið hreina,
má eg allra forlög greina,
stirnir á brúnu stígvélin.
48.
Þá er eg líka limanettur,
lipur á fæti, herðaþéttur,
tign í svipinn treður sér.
Nefið rétta, röddin þíða,
raungæðin og augað blíða
hermir frá því að eg er
49.
víðförlastur vangs um tíma,
vanur stjái pílagríma
Elí til með fæðu fló.
Fyrst með Nóa farið hlóð ég,
fyrstur þaðan leiðir tróð ég,
fær er því í flestan sjó.
50.
Þegar þú sér að svoddan drengur,
sem eg er, við hlið þér gengur,
ef þú værir ekki dauð,
mundir þú á fætur fara,
frá þér ellibelgnum snara.
Lífs er þinni lokið nauð.
51.
Krummi mælti: Kæra tófa,
komin burt úr heims óróa,
nú skal dauðri dilla hér.
Rödd þín fegri feigum svana,
fyrst þú liggur andarvana
grafskrift vil eg gjöra þér.
52.
Í þér byggði orkudugur,
áræði og kappa hugur,
minningar því mæli eg vers:
Reynd varst þú að ráði, hreysti,
ræktar- bæði og tryggðaneisti
hjá þér fundu hægan sess.
53.
Utan *varla innan sástu,
undir dularhamnum lástu
hjörð þá lamba hafðir skemmt.
Þetta skrafar öldin á þig
að þú hafir látið flá þig
lifandi og harma hefnt.
54.
Þegar stálið bogans bláa
búk þinn nísti, fótalága,
holudrottning hreyfileg,
tuggðir þú með óheyrð undur
æðar, skinn og bein í sundur
fyrr en léstu fanga þig.
55.
Borðsálminn nú byrja fer eg,
blaðalaus að vana er eg,
eitthvað verður, trú mér til,
herra minn, sem heitir magi,
hann er skylt eg fyrir dragi,
honum einum hlýða vil.
56.
Á hann mun eg einan trúa,
ekkert skal mér frá því snúa,
hvað sem kann að heyra og sjá.
Fyrir hann vil eg fleins í pínu
feginn voga lífi mínu,
höggva, leggja, stinga og slá.
57.
Heyrið ríkis hálsar góðir,
háir, lágir, heimskir, fróðir,
lærið hér af hyggindin.
Líkast er það lyndi yður
að láta sér ei fara miður
heldur en mér við herra minn.
58.
Vappar svo að veisluborði
við sem rétt að líkum horfði,
æ hvað hjartans ánægður.
Niður sest við dúk og dyngju,
drukkinn rétt að forlystingu
sem hann *Jóhann Sólskjöldur.
59.
Þá kom annað babb í bátinn,
bregður kæti oft í grátinn.
Tófa rís úr rekkju þá.
Sem elding stormi undan fýkur
upp um háls á krumma rýkur,
höfuð bítur bolnum frá.
60.
Votur gjörðist vinakossinn,
vall úr undu benjafossinn,
gufan loftið byrgði blátt.
Klettar stundu, kiknar hauður,
krummi þegar byltist dauður
Fjörgyn[j]ar í faðmlög dátt.
61.
Höfuð kvað á Heljar dýnu:
Hrósa muntu verki þínu,
– ætli eg sé örendur.
Enn er hjartað hart í brjósti,
hlær að köldum dauðaþjósti.
Falla verður feigur hvur.
62.
Þó mér bana veldir veginn,
vita skaltu, hinu megin,
feigðar salnum innan úr
flytur hrafn með fremda gnóttir,
frúin Heljar, Lokadóttir,
inn í fallegt fuglabúr..
63.
Tófa hælir hag forsjálum,
hún svo mælir fyrir skálum,
blóðið drakk úr benjum hrátt.
Svarðar land ei þig skal þyngja,
þengill nettur Valllendinga.
Hjartað táði tönnum dátt.
64.
Höfuð bar af hólmi þegar,
hleypti sínar leiðir vegar,
vígs um fleti fiðri lá.
Stormurinn hafði fullt í fangi
forsi með og æðigangi
herfanginu hampa á.
65.
Um þá tónað atvik skeði
út á fögrum lóna beði
öld nítjánda aldurssmá
fram var leidd af föðurgæsku,
fagran klæddi blómi æsku,
tveggja ára taldist þá.
66.
Sem nú hafði sjónarspili
sjónir léð í augnabili
skerðir ljóma skervallar
heim til byggða hraðast vendi.
Hvekkur tófu þar næst lendi
í friðargættum gleymskunnar.


Athugagreinar

3.4 Þó hún sé] > Hún þó sé (leiðrétt vegna stuðlasetningar og hrynjandi).
10.4 sverða Þráinn: maður.
12.6 sjálfri] > sjálfum (leiðrétt frá því sem stendur í handriti)
20.5 forræði skal ef til vill lesa torræði.
32.2 unda] > undra [?] (unda í handriti).
32.4 betur boðið] > boðið betur (greinilega orðavíxl í handriti).
36.5 fyrrun] > frýjun (fyrrun í handriti).
47.3 flauels (flugels í handriti).
53.1 valla] (svo í handriti en er líklega í merkingunni varla).
58.6 Sagan af Jóhanni Sólskjöld „var prentuð í Kvöldvökum Hannesar biskups Finnssonar, síðari parti, bls. 230–234, Leirárgörðum 1797. “ Ólafur Briem orti út af henni rímu 1823 og er hún til í eiginhandarriti, Lbs 543 8vo. (Sjá Rímnatal I, bls. 289).