Fyrsta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ésúsarrímur 1

Fyrsta ríma

ÉSÚSARRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Þundur styrki þrótt og list
bls.7–16
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Rímur

Fyrsta ríma
1.
Þundur styrki þrótt og list
þagnar sið að banna.
Ég vil yrkja’ um Jesú Krist
jöfur Gyðinganna.
2.
Gefið hljóð og hlýðið á
hvað ég nú vil inna.
Gjörvöll þjóðin mæta má
mærðar skemmtan finna.
3.
Mér er ei um málið létt,
margt vill hugann þreyta.
Varla ríman verður slétt,
vil þó orku neyta.
4.
Örg og leið er ævin mín,
allt trúi’ eg henni spilli;
bæði vantar brennivín,
bjór og kvenna hylli.
5.
Ef mér gæfi’ í ljóða laun
Lofnin mundar klaka
ástir sínar, andans kaun
af mér hlyti’ að taka.
* *. *
6. Róma stýra veldi vann
virðulegur sjóli,
Ágústus nam heita hann,
háum sat á stóli.
7.
Mörgum foldum fylkir sá
frægur stýra náði;
Serkland bæði’ og Afríká,
einnig Grikkja láði.
8.
Germaníu gramur réð,
Gallíu átti’ ’ann líka,
Persía, Spánn og Prússland með
prófuðu kosti slíka.
9.
Einnig stýrði Egyptó
Ágústus í Rómi,
Hilmir Sýrland hafði þó.
– Hans var mikill sómi. –
10.
Lönd, er kappar kenndu um heim,
keisarans forsjár nutu.
Býsna margir þengli þeim
þjóðkonungar lutu.
11.
Heródes hét af þeim einn,
undirförull, slægur,
ódáðanna ei til seinn,
– af þeim varð hann frægur.
12.
Löndum stýra vísi vann
vart í sessi hvikull.
Júðaríki réði hann,
ranglátur og svikull.
13.
Járnahlynur Jósep hét
Júða einn í landi.
Nýtur bjó í Nazaret
nauða firrtur grandi.
14.
Snikkari var og mund þess manns
mun til verks ei spöruð;
María nefndist heitmey hans,
hyggin, væn og fjöruð.
15.
Það bar til í þennan mund,
þannig sagan kenndi,
alein heima auðs var grund,
engill til hennar vendi.
16.
Sendur háum himni frá
helgur mælti engil:
„Hafa náir hug þér á
himna stæltur þengill.
17.
Heil og sæl, þú heppna frú,
hrintu frá þér kvíða;
Drottins náðar nýtur þú
niftin einkar fríða.“
18.
Hildur glóða Hlés varð nú
hræðslu slegin æði,
af því veðrið ei veit sú
á sig hvaðan stæði.
19.
Tjáir engill: „Unga mey,
óttans farga skrifli.
Himna þengill, hann mun ei
hafa marga’ að fífli.
20.
Þú munt fæða arfa einn,
átt hann Jesúm kalla,
sá Jehóvah sonur hreinn
synd mun þekkja varla.
21.
Veldi Davíðs víst skal fá
viður rammur sverða,
hans mun ríki aldrei á
endir nokkur verða.“
22.
„Illa trúa eg má þér,“
auðs kvað fögur spraka,
„því að enginn maður mér
meydóm frá réð taka.“
23.
Lofts nam ferðalangurinn
ljósust svörin spjalla:
„Seggir munu soninn þinn
son hins æðsta kalla.
24.
Helgum anda væri’ í vil
við þig leik að eiga;
Sikling hæða hlakkar til
hjá þér hvíla mega.“
25.
„Það væri gaman,“ þernan tér,
„það myndi engu spilla.
Orð þín rætist öll á mér;
em eg Drottins frilla.“
26.
Mætur réði Mikkas spá
myndi Kristur alinn
Betlehems í breiðri krá,
buðlung æðstur talinn.
27.
Svo var það á samri tíð
sjóli Rómar mætur
utan tafar öllum lýð
orð sín flytja lætur.
28.
„Skipun gef ég,“ skjöldung tér,
„skilja það allir mega
manntal hefja höldarner
um heim gjörvallan eiga.
29.
Um það sjái aldirnar
að sig fái talda,
og til sinnar ættborgar
á sérhver að halda.“
30.
Betlehem var borg Davíðs,
borinn í henni var hann;
fyrrum gramur Gyðinglýðs,
gullkórónu bar hann.
31.
Öðlings Davíðs ættum frá,
– um það sögur skrafa –
Jósep með og Máríá
munu verið hafa.
32.
Betlehems til borgar því
bæði arka náðu.
gisti háu húsi í
húspláss ekki þáðu.
33.
Það á náttarþeli var.
– Þegnar knáttu sofa. –
Fylkir Júðans fæddist þar
fjárhúss- úti í -kofa.
34.
Móðir Jesú Máría
myndi hann að bragði
allan reifum innpakka
og í jötu lagði.
35.
Áðurnefndri nóttu á
– niftum hermir saga –
sínum kindum sátu hjá
sauðamenn í haga.
36.
Hjá þeim allt í einu stóð
engill drottins sprækur.
Vindbláin og Viðris fljóð
vafði ljómi stækur.
37.
Hugann misstu hirðarner,
hjörtun sigu niður.
„Ei ég vildi,“ vængja tér
Viðrir, „skelfa yður.
38.
Fagnaðs yður flyt ég boð
– flesta mun þau varða. –
Fæddur er og vafinn voð
vísi allra jarða.
39.
Kristur í Davíðs þorpi þar,
þið munuð ramma á ’ann;
í jötu lagður víst hann var.
Viljið þið fara’ og sjá ’ann?“
40.
Þannin hjalar vængja ver,
Vann þá til hans dansa
óvígur frá himni her;
hlífar *skyggðar glansa.
41.
Hrímnis skalla hildingi,
Herjans skrýddur flíkum,
herinn allur hrósaði
hátt með orðum slíkum:
42.
„Lof sé *dýrðar *Gandálf Gaut
Gangráðs vífs í fjósi;
hjaldur fari’ af foldu braut,
friðinn bragnar kjósi.
43.
Velþóknun sé virðum með
vísis *röðulsala.“
Englaskarinn allur réð
orðin þessi gala.
44.
Því næst engla ægur her
upp til himins sprangar,
hissa stóðu hirðarner,
hræðslan megn þá fangar
45.
Eftir þessa atburði
ei til víga gjarnir
Betlehems í heimkynni
hlupu sauðrekarnir.
46.
Máríu sáu sauðmenni
– sú var þá í vanda. –
Jesús lá í jötunni,
Jósep hjá nam standa.
47.
Hirðar sögðu lýði lands
ljóst, hvað nú vann greina,
alla rak í rogastans
ræðu við hjarðsveina.
48.
Síðan aftur arka ná
álmaviðir traustu;
leifturvega lofðung þá
lofuðu hárri raustu.
49.
Öðlings burðar eftir nátt
askar sterkir rómu
austurvegs úr víðri gátt
vitringarnir kómu.
50.
„Hvar er alinn öðling lands?“
Ýtar spurðu fróðir,
„lengi höfum leitað hans
lúnir og göngumóðir.
51.
Hans vér stjörnu höfum séð
hátt á lofti skína,
lotning hæsta, heiður með;
honum viljum sýna.“
52.
Heródes nær heyrði að
hilmir væri fæddur,
honum leist ei hót á það;
hann varð býsna hræddur.
53.
Kóngur presta kalla fer,
kænn í pretta ráðum,
kenndur að verstu klækjum er.
– Kemur þetta bráðum. –
54.
Stillir spyr nú klerka, hvar
Kristur fæðast eigi.
„Í Betlehem,“ ansað var,
„ætlum vér skriftin segi.“
55.
Fylkir lætur fróða þrjá
ferðir þangað inna;
öðling segja áttu frá
ef þeir piltinn finna.
56.
Sjálfur þóktist sveininum
sýna vilja heiður;
fölskum búinn fláræðum
fólskuhundur leiður.
57.
Buðlungs gættu boðskapar,
Betlehems á traðir
vappa náðu vitringar
voðalega glaðir.
58.
Vitringar með visin bein
– vann svo ritning inna –
í því húsi ungan svein
og hans móður finna.
59.
Jesúm glöddu brjótar *baugs
búnir geði kyrru,
Hölga rauðu ræfri *haugs,
reykelsi og myrru.
60.
Héldu síðan *heimleiðes,
– hirtu ei par um annað. –
En að hitta Heródes
hafði Guð þeim bannað.
61.
Er til kóngs þeir ekki gá,
ofsabræði gripinn,
leiður verður lofðung þá
ljótur mjög á svipinn.
62.
Heyra vildi hildingur,
hræsnislund með arga,
Drottins hvar við hefðist bur;
honum vildi farga.
63.
Júðakóngur vondur vann
verkin ljótust gera:
Betlehems í breiðum rann
börnin öll lét skera.
64.
Þeygi argur eyða kann
englakóngsins jóði,
af því Jósep undan rann
unga með og fljóði.
65.
Illskan gylfa þrautir þó
þeim á herðar lagði;
flýðu öll til Egyptó,
eins og Guð þeim sagði.
66.
Heródes sitja heima vann
– hrædd við kóng þau vóru. –
Þegar Fjandinn hirti hann
heim þau aftur fóru.
* * *
67. Sljór er orðinnn óðar dörr,
*ýtir stála *trausti;
því skal lekur Kjalars knörr
hvíla sig í nausti.
68.
Svefnin þjáir mann og mey,
*magn ei fæst í stöku.
Best er að láta Bömburs fley
bíða næstu vöku.