Egill Skallagrímsson | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Egill Skallagrímsson

Fyrsta ljóðlína:Taugarnar þúsundir ísvetra ófu
bls.239–242
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) AAbbCObC
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Taugarnar þúsundir ísvetra ófu.
Ennið kvöldhimna skararnir hófu.
Vöðvanna mátt efldi kyn eftir kyn,
hjá kaldsóttri unn, undir þjótandi hlyn.
Og öld eftir öld grúfðu norðursins nætur
í niðdimmum rjáfrum, þar vöggubörn sváfu,
og önduðu hörku í hverja sin,
en hlúðu um lífsræðsins rætur.
2.
Og málið var byggt í brimslegnum grjótum
við bláhimins dýrð, undir málmfellsins rótum.
Þess orð féllu ýmist sem hamars-högg,
eða hvinu sem eggjar, bitur og snögg —
eða þau liðu sem lagar vogar,
lyftust til himins með dragandi ómi,
eða hrundu svo tær eins og drjúpandi dögg
og dýr eins og gullsins logar.
3.
Þar hel og líf barðist harðast í landi
hæstur, mestur reis norrænn andi.
Námsterk og framskyggn brann hvötin í hug
yfir hafdjúpsins veg, yfir arnarins fiug.
En ástirnar hjörtu fornkynsins fólu,
fátöluð, auðug og bjargtrygg til dauða, —
því speki og kapp, með hinn drotnandi dug,
var dýrst undir frostlandsins sólu.
4.
— Svo bjuggu nornirnar Egil austan,
til orðanna snjallan, til dáðanna traustan.
Hans heit voru djúp og dygg þeirra efnd.
Hann var drengurinn sami í tryggðum og hefnd
jafnbúinn að vígum, blóti og sumli,
með bitrasta hjörinn og þyngstu svörin.
— Ef nöfn vorra garpa og greppa eru nefnd
brenna geislar hátt af hans kumli.
5.
Með heilanum Egill hataði og unni.
Hans hróður spratt innst af þankanna brunni.
Hans gleði á kraftsins kveikjum brann.
Hans kennd byrgðist inni í vinanna rann.
Af þótta og viti hann réð sínu ráði,
réttsýnn á dáðir þess, er hann fjáði.
Til verðleiks og gildis hann virti hvern mann
— en vó jafnt að því, er hann smáði.
6.
Hryggðin lá Agli harðla á munni.
hægt sló hans negg, en tók undir frá grunni.
Og bæri hann þunga sefans sorg
varð sálin ei margmál, né bar sig á torg.
Þó sprengdi fjötrin hinn breiði barmur
við bana hans sona, við helför hans vonar,
og hljóm sló af strengjunum bóndinn á Borg,
svo hans böl varð vor eiginn harmur.
7.
Hann heiðraði og unni veldi verðsins
sem vöðva síns arms, sem biti sverðsins,
sem stríðsmerki lífsins, er benti og bauð
og batt saman efnin kvik og dauð.
Í gullbjarma sá hans glögga hyggja
að gifta hins stærra er frelsi hins smærra,
að þúsunda líf þarf í eins manns auð
eins og aldir þarf gimstein að byggja.
8.
Hans víkingslund þráði landnámsheiminn,
á langfeðga ætternið hvikul og gleymin.
Um afrek og hefndir, um erfðir og lönd
sótti Austmanna niðjinn á feðranna strönd.
En honum varð andþröngt, sem Úlfi og Grími,
í eining Noregs og menningar vori.
Í fjallgeimum Íslands reis hönd móti hönd,
þar var höggfrjálst — og olnbogarými.
9.
Og Fróni var merktur svipur hans sálar —
í sverðanna þröng, við háborðsins skálar.
Frá brotsjónum ysta að bergássins lind,
sem brynnir andvarans þyrstu hind,
til Fjarðarins seiddu hann allan aldur
ilmkjarrsins viðir, og straumanna niðir,
og fjarlægu hæðanna milda mynd,
svo mjúk eins og öldufaldur. —
10.
— Vor tunga hún yfkir í Egils Ijóðum;
vor eldur, vort líf felst sjálft í þeim glóðum.
Haf vorra sálna, sem hnígur og rís,
heilaga bál, undir norðursins ís.
Hvert Íslands brjóst á þar afl og fögnuð.
Nær óma þeir strengir, er hvíldu svo lengi?
Nú drúpir hin stranga, stolta dís.
— Stálgígjan mikla er þögnuð.
11.
Hans óður var frelsisins einvalds rómur.
Hans eiginn vilji var lög hans og dómur.
Hans ljóð er svo heilnæmt sem laugandi bað,
— hann lýsti og fræddi, hann söng ei, en kvað.
Um drauma og vonir og ást kvað hann öngva,
— hið innra var mannsins, en hitt það var landsins.
Ó, gæti hann kveðið upp, blað fyrir blað,
vora bragðlausu, máttvana söngva. —
12.
Blóðöxin hneigði málsins mætti,
svo mögnuð var snilldin í orði og hætti.
Blásum að hyrjum vors heiðnikvelds,
sem hlúð var í skjólum vetrarfelds.
Frá helþögn og gleymsku vor hróðrar-saga
er Höfuðlausn Egils. Hann mun aldrei deyja —
járngoðinn, skáldið hins jarðbyrgða elds,
jafnaldrinn íslenskra braga.