Undrafljóðið | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Undrafljóðið

Fyrsta ljóðlína:Slæmur draumur mæddi mig
Höfundur:Heine, Heinrich
Þýðandi:Einar Thoroddsen*
bls.4. árg. bls. 81–82
Bragarháttur:Stafhent eða stafhenda (stuðlalag)
Viðm.ártal:≈ 2000
1.
Slæmur draumur mæddi mig.
Mara þessi hræddi mig.
Um mig hryllingshrollur fer
hann er sé ég fyrir mér.
2.
Um yndisfagran unaðsgarð
ég átti leið er þetta varð
og blómafjöld mér brosti hjá
mér bærðist gleði í hjarta þá.
3.
Með ástarsöng og dírrindí
sér dilla fuglar garði í.
Og sólin rauð í gulli og glans
með geislum litar blómafans.
4.
Með ilman jurtir anga þar
og ylur strýkur vanga þar.
Dagur bjartur skín við skær,
skemmtir sér og við mér hlær.
5.
En við þessi blómabeð
var brunnur tæru vatni með.
Þar gat að líta fagurt fljóð
sem fínt með lín að þvotti stóð.
6.
Með yndisþokka og augun mild
eins og væri goðum skyld,
mér fannst ég þekkja og þekkja ei
þessa undurfögru mey.
7.
Ég heyrði þá hið fríða fljóð
fara að kveða þetta ljóð:
„Vatn í brunni, vættu lín
svo verði klæðin hrein og fín.“
8.
Ég nálgaðist og sagði svo:
„Segðu, hverjum ertu að þvo
hið hvíta lín í laugum hér?
Ó, ljúfa stúlka, svara mér.“
9.
Hún mælti: „Klukkan klingir þér,
Og klæði dauðans eru hér“.
Og varla orð af vörum hraut
er var hún horfin mér á braut.
10.
En hulinn máttur mig þá bar.
Í myrkum skógi staddur var.
Þar uxu tré svo himinhátt
að húmi sló á loftið blátt.
11.
Þá létu högg um langan veg
líkt og öxi biturleg.
Ég gegnum skóg og runna rann
uns rjóður eitt að lokum fann.
12.
Er lengra inn í lundinn sté
Leit ég mikið eikartré.
Þar stúlkan fagra stóð við tréð
og stofninn telgdi öxi með.
13.
Þar kvað hún þetta litla lag
er lét í takt við axarslag:
„Högg þú öxi, högg þú ótt,
hola innan stofninn fljótt.“
14.
Ég sagði í flaustri: „Segðu mér
satt um þetta, hverjum er,
ó, mín stúlkan undurfríð,
ætluð þessi kistusmíð?
15.
Að bragði mælti baugalín:
„Búin stendur kistan þín“.
Og varla orð af vörum hraut
er var hún horfin mér á braut.
16.
Um heiði kalda leið mín lá
og langt um kring var auðn að sjá.
Þar ég ónot um mig fann
sem ekki frekar skýra kann.
17.
Og sem ég var að vandra þar
veru hvíta fyrir bar.
Í flýti þeirri þaut ég mót,
og þarna var hin fagra snót.
18.
Þar með reku sterka stóð
að stinga gröf hið hvíta fljóð.
Ég þorði ei hana að horfa á
svo hörkulega en fríða að sjá.
19.
Og meðan stúlkan verkið vann
af vörum þetta kvæði rann:
„Grafðu skófla, grafðu nú
gröf sem dýpsta megnar þú.“
20.
Ég kom þar að og *hátt í háls
með hjartað ört, ég tók til máls.
„Meyjasómi, segðu mér:
Sætir nokkru gröfin hér?“
21.
Svar: „Þú ert á yztu nöf.
Opnast brátt þín kalda gröf.“
Og er af munni orðið hrökk
opin stóð þar gröfin dökk.
22.
Napur hrollur nísti mig.
Næðings kuldi gnísti mig.
Sælu lífs ég saknaði,
sökk í gröf – og vaknaði.