Í hvamminum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Í hvamminum

Fyrsta ljóðlína:Í hvamminum inn með ánni
bls.6. árg. bls. 75
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) OaOa
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1951

Skýringar

Ljóðið er frumbirt í Són, 57 árum eftir að það var ort.
Í hvamminum inn með ánni
er enn þá gaman að finnast,
líta yfir langa ævi
og liðinna daga minnast.

Á eyrunum áin niðar
í ótal kvíslum og taumum
og ósjálfrátt enn við finnum
áhrif frá gömlum draumum.

Þó farið sé æskufjörið
og færst hafi margt úr skorðum
göngum við gömul og lúin
göturnar sömu og forðum.

Við tölum um æskuástir
okkar, og lífsins gildi,
en lítum nú öðrum augum
á allt sem að leiðir skildi.

Við málin í rósemd ræðum
og rökin til mergjar brjótum,
við lifum upp liðna daga
og líðandi stundar njótum.

Það sígur að sólarlagið
og síðdegis skuggar lengjast.
Í kveldblænum hlýjum, hljóðum,
hugsanir okkar tengjast.