Gömul haustmynd | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Gömul haustmynd

Fyrsta ljóðlína:Gustar um jarðargróða
bls.261–262
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Gustar um jarðargróða
grályndur norðanvindur,
vís til að vinna grand.
Það haustar. Hamingjan góða
hjálpi þér, Norðurland.
2.
Bliknar í mýri brokið,
blástörin höfði drúpir,
finnur, að hún er feig.
Litförótt laufafokið
leikur um sleginn teig.
3.
Brekkan og berjahlíðin
blikna, í dalnum ríkir
haustsins helkalda ró.
Heiðlóa, köld og kvíðin
kreikar um auðan mó.
4.
Enn er gróðurtíð gengin,
gaddurinn bráðum þaggar
lyngþyt og lindahjal.
Senn standa sumarengin
sönglaus í Langadal.
5.
Áin mín yndislega
úlfgráa sanda strýkur,
gefur að engu gaum,
berandi veg allra vega
von mína og sumardraum.
6.
Aleinn, þótt engir vaki,
endi gamallar vísu
haustþeyrinn raular hér:
„Í einu andartaki
ævin og lífið fer.“